Wednesday, April 24, 2024
HomeForsíðaFjórir sigrar á fyrsta degi Evrópumótsins

Fjórir sigrar á fyrsta degi Evrópumótsins

Fimm Íslendingar kepptu á Evrópumóti áhugamanna í MMA í dag. Óhætt er að segja að uppskera dagsins hafi verið afar góð.

Við heyrðum í Jóni Viðari Arnþórssyni, forseta Mjölnis, en hann er staddur með liðinu í Birmingham.

Fyrstur af Íslendingunum var Bjarki Ómarsson. Hann mætti Norður-Íranum Bobby Sheppard í léttvigt. Sheppard var villtur og með þung högg og virtist mjög öruggur með sig. Hann reyndi að bíða eftir Bjarka og kom með þung högg sem áttu svo sannarlega að rota í hvert sinn sem Bjarki nálgaðist hann. Bjarki var hins vegar skynsamur, hélt fjarlægð og var snöggur inn og snöggur út. Sheppard náði fáum höggum á Bjarka og þá helst tvö til þrjú þung lágspörk í læri Bjarka.

Bjarki náði fínum höggum inn í 1. lotu og þar á meðal tveimur háspörkum í höfuð Sheppard. Bjarki tók Sheppard niður í lok 1. lotu og sigraði lotuna mjög örugglega. Í 2. lotu tók Bjarki Sheppard snemma niður, náði bakinu og hengdi hann með „rear naked choke“. Öruggur sigur hjá Bjarka og er hann kominn áfram í næstu umferð sem fer fram á morgun.

bjarki ómarsson
Bjarki Ómarsson með sigur. Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Næstur af Íslendingunum var Bjarki Þór Pálsson. Hann mætti Þjóðverjanum Lukas Licht í veltivigt og hafði yfirburði allan tímann. Licht virkaði sterkur strákur en Bjarki átti óaðfinnanlega frammistöðu.

Bjarki náði góðum vinstri krók standandi og tók Þjóðverjann svo fljótlega niður. Í gólfinu kom hann með fá en þung högg og valdi hann höggin sín afar vel. Bjari vandaði sig, veitti þung högg og var ekkert að flýta sér enda var hann í yfirburðarstöðu. Í lok lotunnar stökk Bjarki í „armbar“ til að reyna að klára bardagann en tókst ekki.

Í 2. lotu tók Bjarki Þjóðverjann aftur niður og hélt áfram að velja höggin sín vel í gólfinu þar til hann náði bakinu. Það leið ekki á löngu þar til Bjarki Þór læsti hengingunni og kláraði bardagann með „rear naked choke“ í 2. lotu. Að sögn Jóns Viðars var Þjóðverjinn lurkum laminn eftir höggin frá Bjarka í 1. lotu.

bjarki þór immaf 2
Bjarki Þór fagnar sigri. Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Næstur af íslensku keppendunum var Egill Øydvin Hjördísarson. Hann lenti á móti sterkum glímumanni, Robin Kvarda, frá Tékklandi sem byrjaði strax að pressa á Egil. Þeir skiptust á höggum fyrstu tíu sekúndurnar þar til Egill náði „double leg“ fellu og lyfti honum hátt upp til lofts og skellti honum niður.

Í gólfinu læsti hann fljótlega „D’arce“ hengingu og gafst Tékkinn fljótlega upp. Egill sigraði því eftir aðeins 49 sekúndur í fyrstu lotu. Þess má geta að síðasti bardagi Egils stóð yfir í aðeins sjö sekúndur og því hafa síðustu tveir bardagarnir hans tekið minna en mínútu samanlagt.

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.
Egill fagnar sigri. Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Bjartur Guðlaugsson var næstur en hann mætti hörðum Ítala að nafni Michele Martignoni í fjaðurvigt. Upphaflega átti Bjartur að vera í 18. bardaga dagsins en skyndilega var hann í tíunda bardaga dagsins. Þetta var fyrsti bardagi Bjarts í MMA og hafði hann ekkert hitað upp þegar skyndilega var kallað á hann. Hann hafði tvær mínútur til að setja á sig græjur og hljóp í búrið án góms. Eftir smá leit fannst gómurinn og má segja að þetta hafi ekki verið draumabyrjun fyrir Bjart.

Bjartur lét þetta ekki hafa mikil áhrif á sig. Hann gaf ekkert eftir og lét Ítalann ekki buga sig. Bjartur náði inn nokkrum góðum stungum og tveimur til þremur fellum. Undir lok bardagans var Bjartur með „guillotine“ hengingu en of skammt var eftir af bardaganum til að klára henginguna.

Bardaginn fór allar þrjár loturnar og sigraði Bjartur eftir klofna dómaraákvörðun. Bjartur stóð sig eins og hetja enda ekkert grín að hlaupa inn í bardaga án þess að hita upp og vinna.

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.
Bjartur Guðlaugsson. Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Síðastur af Íslendingunum var Hrólfur Ólafsson. Hann lenti á móti sterkum Norðmanni að nafni Marius Hakonsen í millivigt. Hakonsen var hátt í tveir metrar á hæð og hafði umtalsvert lengri faðm en Hrólfur. Hakonsen náði þungum vinstri krók á Hrólf í fyrstu lotu sem felldi Hrólf niður. Hann lét það þó ekki hafa mikil áhrif á sig og stóð fljótt upp og byrjaði að slá á móti.

Þegar um það bil ein mínúta var eftir af lotunni náði Hrólfur fellu. Hrólfur náði inn þungum höggum í gólfinu og kláraði lotuna ofan á.

Í 2. lotu skiptust þeir á höggum og náði Hrólfur aftur fellu. Hann endaði 2. lotuna ofan á og sigraði lotuna mjög örugglega.

Þriðja lotan var gríðarlega jöfn. Hrólfur náði strax fellu og nokkrum góðum höggum í gólfinu. Eftir að Hrólfur reyndi að bæta stöðu sína í gólfinu tókst Norðmanninum að standa upp. Hakonsen náði tveimur fellum á Hrólf án þess tryggja stöðuna og stóð Hrólfur strax upp í bæði skiptin án þess að Norðmanninum tækist að gera nokkurn skaða.

Bardaginn fór því allar þrjár loturnar. Norðmaðurinn sigraði eftir klofna dómaraákvörðun þar sem tveir dómarar gáfu honum sigurinn á meðan einn dómarinn gaf Hrólfi sigurinn. Áður en dómaraákvörðunin var lesin töldu Mjölnismenn að sigurinn myndi falla með þeim enda gerði Hrólfur meiri skaða í 3. lotu.

hrólfur immaf

Að sögn Jóns Viðars snýst allt nú um að jafna sig eftir átök dagsins til að strákarnir verði tilbúnir fyrir morgundaginn. Hópurinn fékk sér góða máltíð á Nandos og svo munu þeir fara í nudd hjá Dagmari Hrund sem er með í för.

Á morgun munu ofangreindnir sigurvegarar berjast í næstu umferð sem og Sunna Rannveig Davíðsdóttir, Pétur Jóhannes Óskarsson og Inga Birna Ársælsdóttir. Þau síðarnefndu berjast sína fyrstu bardaga á mótinu á morgun.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular