Sunday, May 19, 2024
HomeForsíðaFöstudagstopplistinn: 10 reyndustu bardagamenn sögunnar

Föstudagstopplistinn: 10 reyndustu bardagamenn sögunnar

Flestir atvinnumenn í MMA eru ánægðir ef þeir ná fjórum bardögum á ári. Hver bardagi krefst nokkurra mánaða undirbúnings og meiðsli eða skortur á tækifærum geta sett strik í reikninginn. En sumir bardagamenn láta ekkert stöðva sig og hafa barist oftar en gæti verið nokkrum manni hollt. Þetta eru tíu reyndustu bardagamenn í sögu MMA (þeir eru reyndar 11, því fjórir bardagamenn deila sæti).

9.-10. Osami Shibuya – 89 bardagar: 38 sigrar, 34 töp og 17 jafntefli.

Þessi 38 ára gamli Japani byrjaði að keppa árið 1995 og keppti lengst af í Pancrase bardagasamtökunum í Japan en þar mætti hann til að mynda Bas Rutten tvisvar. Þrátt fyrir 38 sigra hefur hann bara tvisvar unnið með tæknilegu rothöggi og í annað skiptið var það vegna mjaðmarmeiðsla hjá andstæðingnum. Hann hætti keppni árið 2010.

Adrian_Serrano
Adrian Serrano.

9.-10. Adrian Serrano – 89 bardagar: 56 sigrar, 29 töp og 4 jafntefli.

Serrano var bandarískur bardagamaður sem keppti á árunum 1996-2008. Besti árangur hans var níu bardaga sigurganga árið 1999. Hann átti einn bardaga í UFC, gegn Shonie Carter, á UFC 26 árið 2000.

travis_wiuff
Travis Wiuff.

8.-9. Travis Wiuff – 94 bardagar: 73 sigrar, 20 töp og 1 ógildur bardagi.

Þessi 36 ára gamli þungavigtarmaður byrjaði að keppa árið 2001 og er enn að. Besti árangur hans voru 19 sigrar í röð á árunum 2003-2005. Hann hefur átt tvo bardaga í UFC og tapaði þeim báðum. Hann barðist í Bellator á árunum 2011-2013.

8.-9. Yuki Kondo – 94 bardagar: 57 sigrar, 28 töp og 9 jafntefli.

Kondo byrjaði árið 1996 og er enn að þrátt fyrir að vera orðinn 39 ára gamall. Næstum allir bardagarnir hans hafa farið fram innan Pancrase bardagasamtakanna. Hann hefur líka barist í UFC og Pride og mætti þar goðsögnum eins og Dan Henderson og Wanderlei Silva.

Paul-jenkins-
Paul Jenkins.

7. Paul Jenkins – 98 bardagar: 41 sigur, 47 töp, 8 jafntefli og 2 ógildir bardagar.

Hinn velski Jenkins var duglegur að berjast frá 2000 til 2010 en náði ekki mikilli velgengni. Lengsta sigurganga hans voru sex sigrar í röð árið 2006, en hann tapaði m.a. fyrir Árna Ísakssyni seinna sama ár. Hann lagði hanskana á hilluna árið 2010 eftir að hafa tapað átta af síðustu tíu bardögum sínum.

6. Ikuhisa Minowa – 104 bardagar: 59 sigrar, 37 töp og 8 jafntefli.

Þessi 38 ára gamli Japani hefur keppt frá 1996 og hefur unnið 41 sinni með uppgjafartaki. Hann hefur barist fyrir bardagasamtökin Dream, Pancrase, K-1 og Pride og á líka einn sigur á UFC 25, en það er eini bardagi hans í UFC. Hann vann bara einn af fyrstu tíu bardögum sínum en þrátt fyrir erfiða byrjun hefur hann átt glæsilegan feril í MMA.

5. Dennis Reed – 107 bardagar: 45 sigrar, 61 tap og 1 jafntefli.

Þessi Bandaríkjamaður hefur keppt frá 1996 en aldrei fengið samning við stór bardagasamtök. Samkvæmt Sherdog.com hefur enginn af 107 bardögum hans endað í dómaraúrskurði. Alls hafa 88 af bardögum hans endað með uppgjafartaki, lang oftast í fyrstu lotu. Hann hefur 35 sinnum unnið með uppgjafartaki og sjálfur gefist upp 53 sinnum. Hann hefur aðeins unnið tvo af síðustu tuttugu bardögum en heldur ótrauður áfram.

jeremy-horn-534fe06717c410.00472334
Jeremy Horn.

 4. Jeremy Horn – 117 bardagar: 91 sigur, 21 tap og 5 jafntefli.

Horn hefur barist frá 1996 og sneri aftur til keppni á þessu ári eftir þriggja ára hlé. Hann hefur barist fyrir ótal bardagasamtök og átti m.a. góðan feril innan UFC. Hann hefur sigrað bardagamenn eins og Chuck Liddell, Forrest Griffin og Chael Sonnen og á bæði 18 og 15 bardaga sigurgöngur að baki. Hann hefur 63 sinnum unnið með uppgjafartaki.

UFC 6
Dan Severn.

3. Dan Severn – 127 bardagar: 101 sigur, 19 töp og 7 jafntefli.

Severn er goðsagnakenndur innan MMA en hann var hluti af mótunarárum UFC og fyrstu 11 bardagar hans fóru fram innan UFC. Severn fór ósigraður í gegnum 24 bardaga á árunum 1997-1999 og náði 11 bardaga sigurgöngu bæði á árunum 2007-2008 og 2009-2011. Hann hætti loks keppni árið 2012 þegar hann var 53 ára gamall.

2. Shannon Ritch – 133 bardagar: 53 sigrar, 76 töp og 4 ógildir bardagar.

Þessi 44 ára gamli Bandaríkjamaður sigraði 42 sinnum með uppgjafartaki og gafst 53 sinnum upp, þannig að 95 af bardögum hans enduðu með uppgjöf. Hann hefur barist fyrir ótal bardagasamtök, þar af tvisvar fyrir Pride. Besti árangur hans var að fara ósigraður gegnum átta bardaga árið 1999 og versti árangurinn var þegar honum mistókst að sigra 14 bardaga í röð á árunum 2001-2002. Hann hafði þó sigrað 5 af síðustu 6 viðureignum sínum þegar hann hætti keppni árið 2013 eftir 15 ára feril.

travis-fulton
Travis Fulton.

1. Travis Fulton – 311 bardagar: 251 sigrar, 49 töp, 10 jafntefli og 1 ógildur bardagi.

Hinn 37 ára gamli Fulton er ótvíræður sigurvegari þegar kemur að fáránlega mörgum bardögum. Hann hefur keppt frá árinu 1996 og unnið 92 sinnum með rothöggi eða tæknilegu rothöggi og 152 sinnum með uppgjafartaki. Bara sjö af sigrum hans hafa komið í dómaraúrskurði. Hann hefur barist út um allt og m.a. tvisvar í UFC, á UFC 20 og 21. Besti árangur hans eru 40 sigrar í röð, á milli 2005-2007. Hann er enn að og hefur unnið síðustu fjóra bardaga. Fyrr á þessu ári birtum við grein um kappann sem lesendur geta lesið hér.

Oddur Freyr Þorsteinsson
Oddur Freyr Þorsteinsson
Greinahöfundur á MMAFréttir.is
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular