Sunday, September 8, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaFöstudagstopplistinn: 5 óvæntustu úrslitin í sögu MMA

Föstudagstopplistinn: 5 óvæntustu úrslitin í sögu MMA

Chris_Weidman_knock_out_Anderson_Silva_at_UFC_162.

Við hér á MMA Fréttum ætlum að vera með fastan lið sem kallast Föstudagstopplistinn. Í fyrsta Föstudagstopplistanum ætlum við að skoða topp fimm óvæntustu úrslitin í MMA.

Þessi listi er þó alls ekki tæmandi og er aðeins persónuleg skoðun höfundar. Mörg óvænt úrslit hafa litið dagsins ljós en hér eru topp fimm óvæntustu úrslitin í sögu MMA.

5. Anderson Silva gegn Chris Weidman – UFC 162 6. júlí 2013

Síðastliðið sumar mætti Anderson Silva hinum ósigraða Chris Weidman. Flestir bjuggust við sigri Silva enda hefur hann litið út fyrir að vera nánast ósigrandi í UFC. Veðbankarnir höfðu þó trú á Weidman og var enginn svakalegur „underdog“. Anderson Silva þóttist vera vankaður af höggum Weidman og reyndi að gera lítið úr Weidman en Weidman náði þá óvænt að rota Silva, eitthvað sem fáir bjuggust við. Netheimar loguðu eftir þessi óvæntu úrslit og voru aðdáendur Silva brjálæðir út í hann fyrir skrípalæti hans. Þeir mætast þó aftur þann 28. desember og verður forvitnilegt að sjá hvernig sá bardagi fer.

4. Mirko „Cro Cop“ Filipovic gegn Gabriel Gonzaga – UFC 70 21. apríl 2007

Cro Cop er einn besti sparkboxari í sögu MMA. Hann sigaði PRIDE Open-Weight Grand Prix árið 2006 og átti gífurlega góðu gengi að fagna í PRIDE. Í febrúar 2007 mætti hann Gabriel Gonzaga og bjuggust flestir við að Cro Cop myndi sigra nokkuð örugglega. Gonzaga er góður glímumaður og á heimsmeistaratitil að baki í BJJ en er ekki þekktur fyrir gott sparkbox. Þegar um tíu sekúndur voru eftir af fyrstu lotu hleður Gonzaga í vinstri háspark og smellhittir og rotar Cro Cop! Vinstri háspark var eitt af aðalsmerkjum Cro Cop í PRIDE og því íronískt að glímumaðurinn Gonzaga hafi rotað Cro Cop með vinstri hásparki. Rothöggið var valið rothögg ársins af mörgum fjölmiðlum þetta ár. Þetta kom gríðarlega á óvart þar sem enginn bjóst við að Gonzaga myndi rota PRIDE meistarann, hvað þá með hásparki.

3. Rameau Sokoudjou gegn Antonio Rogerio „Lil Nog“ Nogueira – PRIDE 33 12. október 2007

Þegar Lil Nog mætti Sokoudjou í október 2007 hafði engin trú á öðru en að Lil Nog myndi labba yfir hinn óreynda Sokoudjou. Sokoudjou var á þessum tíma með bardagaskorið 2-1 og nýbúinn að vera rotaður af Glover Teixeira. Veðbankar settu stuðulinn 16/1 á að Sokoudjou myndi vinna og til að setja þetta í samhengi þá var stuðullinn á sigri Diego Sanches gegn Gilbert Melendez 4/1. Eftir aðeins 23 sekúndur hafði Sokoudjou rotað Lil Nog. Enginn bjóst við þessu og eru margir á því að þetta séu óvæntustu úrslitin í sögu PRIDE.

2. Fabricio Werdum gegn Fedor Emelianenko – Strikeforce: Fedor vs. Werdum 26. júní 2010

Fedor_Emelianenko_in_a_seminar_in_New_Jersey,_mid_2006 (1)Margir pirruðu sig yfir því að Fedor skyldi fara á móti enn einum „léttum“ andstæðingi gegn Werdum í stað þess að mæta Alistair Overeem í bardaga sem allir vildu sjá. Fáir bjuggust við að Werdum væri einhver ógn gegn Fedor sem hafði þá ekki tapað bardaga í tíu ár (eina tapið hans á ferlinum þá og kom eftir skurð en engu að síður skráð tap). Veðbankarnir höfðu ekki mikla trú á að Werdum gæti ógnað Emelianenko og var stuðullinn á sigri hjá Werdum ansi hár. Eftir aðeins eina mínútu og níu sekúndur í fyrstu lotu var bardaginn búinn. Svo virtist sem Fedor hafi vankað Werdum og fylgdi honum svo eftir í gólfið í von um að rota hann. Werdum var hins vegar ekkert vankaður en var í raun bara að plata Fedor til að fá hann með sér niður í gólfið en Werdum er einn allra besti glímumaður í heimi. Werdum sigraði Fedor með „triangle armbar“ uppgjafartaki í fyrstu lotu og skyldi heiminn eftir agndofa.

1. Georges St. Pierre gegn Matt Serra –UFC 69 7. apríl 2007

Á þessum tíma var Georges St. Pierre nýkrýndur veltivigtarmeistari og á toppi heimsins! Eftir að hafa sigrað titilinn missti Georges St. Pierre einbeitinguna og fór að æfa mun minna auk þess sem hann stundaði skemmtanalífið grimmt. Georges St. Pierre vanmat Matt Serra sem var fram að þessu með fimm sigra og fjögur töp í UFC – hljómar ekki beint eins og heimsmeistari. Í upphituninni í búningsklefanum fyrir bardagann leit Georges St. Pierre ágætlega út. Hann var með flottar fléttur á pödsunum og góðan kraft í spörkunum og allt leit vel út. Þegar starfsmaður UFC gekk inn í búningsklefann og spurði „Are you ready?“, og gaf til kynna að nú ætti St. Pierre að ganga í búrið, gerðist eitthvað í huga Georges St. Pierre. Á þessu augnabliki áttaði Georges St. Pierre sig á því að hann væri ekki tilbúinn. Á leið sinni í búrið hugsaði hann allan tíman að hann hefði ekki æft nóg, hann hefði djammað of mikið og hann vissi að hann væri ekki tilbúinn. Eftir 3 mínútur og 25 sekúndur í fyrstu lotu hafði Matt Serra rotað Georges St. Pierre! Matt Serra var risastór „underdog“ hjá veðbönkunum en stuðullinn á Serra sigri var í kringum +700 á meðan stuðullinn á Georges St. Pierre var í kringum -1000. Ári síðar mættust þeir þó aftur þar sem Georges St. Pierre gjörsigraði Serra.

Það voru nokkrir bardagar sem voru nálægt því að komast á listann svo sem Jens Pulver gegn Joe Lauzon, Kevin Randleman gegn Cro cop, Frankie Edgar gegn BJ Penn 1 og Ricardo Arona gegn Wanderlei Silva en að endanum stóðu þessir fimm uppúr. Hvaða bardaga mynduð þið viljað sjá á þessum lista?

spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -spot_img

Most Popular