spot_img
Thursday, December 26, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaGreining á bardaga Gunnars og Albert Tumenov

Greining á bardaga Gunnars og Albert Tumenov

gunnar nelson albert tumenovRisabardagi Gunnars er á morgun! Gunnar Nelson mætir Albert Tumenov annað kvöld á UFC bardagakvöldinu í Rotterdam. Hér höfum við farið ítarlega yfir bardagann og möguleika Gunnars og Tumenov til sigurs.

Veltivigt: Gunnar Nelson (14-2-1) gegn Albert Tumenov (18-2)

Byrjum á manninum sem segist ætla að rota Gunnar í 1. lotu. Albert Tumenov byrjaði ungur að árum í boxi. Pabbi hans hefur þjálfað hann í boxinu frá því Albert var fimm ára gamall og er pabbi hans enn meðal þjálfara hans í dag.

Tumenov æfir að mestu heima fyrir í Kabardino-Balkaria sem er sjálfsstjórnunarlýðveldi í Norður-Kákasus svæðinu í Rússlandi. Hann hefur einnig æft í K-Dojo bardagaklúbbnum í New Jersey en fyrir þennan bardaga hefur hann aðeins æft heima fyrir við skemmtilegar aðstæður.

Tumenov er með 18 sigra og tvö töp á ferlinum. Hann hefur unnið 13 af síðustu 14 bardögum sínum og unnið fimm bardaga í röð. Hans eina tap í UFC kom gegn Ildemar Alcantara í frumraun sinni í UFC.

Tumenov er með hraðar og þungar hendur og á auðvelt með að setja saman góðar fléttur. Hann er stundum kallaður Mr. Left Hook enda er hann með afar sterkan vinstri krók – hvort sem það er í höfuð eða í skrokkinn.

Tumenov er þó bestur standandi þegar hann blandar saman spörkunum með hættulegu höndunum sínum. Tumenov hefur sigrað þrjá bardaga eftir háspörk og er þá vinstra hásparkið hans sérstaklega hættulegt.

albert tumenov

Tumenov er með góða og markvissa pressu og vinnur vel með stunguna. Þegar hann króar andstæðinginn af við búrið raðar hann inn höggunum og blandar höggum í skrokk og höfuð vel saman. Þar er hann hættulegastur.

Tumenov er með góð spörk en er sjálfur með ekkert sérstaka vörn gegn spörkum. Hann reynir alltaf að grípa spörk mótherjanna og svara með beinni hægri en hingað til hefur lítið komið úr því í UFC. Tumenov er því oft að éta sköflunginn beint í skrokkinn.

Það má þó ekki vanmeta þennan þátt hans og eitthvað sem Gunnar verður að passa sig á ef hann ætlar að nota spörkin. Gegn Lorenz Larkin sáum við Tumenov fá fullt af spörkum í lærin sem ollu honum miklum vandræðum. Gunnar er þó ekki þekktur fyrir lágspörk (spörk í lærin).

Eins og áður segir kom hans eina tap í UFC gegn Ildemar Alcantara eftir klofna dómaraákvörðun. Sá brasilíski náði Tumenov nokkrum sinnum í gólfið þar sem hann hafði yfirburði. Tvisvar náði Alcantara að fara undir beina hægri Tumenov og ná þannig fellunni. Þessar fellur voru frábærlega vel tímasettur og við vitum að Gunnar er einnig með góðar tímasetningar í fellunum sínum.

Nær Gunnar að gera hið sama?
Nær Gunnar að gera hið sama?

Þá verður að hafa í huga að Tumenov gaf á sér bakið nokkrum sinnum í bardaganum gegn Alcantara. Ef hann gerir það gegn Gunnari verður hann í vondum málum. Þegar Gunnar nær bakinu hefur hann alltaf klárað bardagann.

Nokkrir hlutir til að hafa í huga fyrir bardagann

  • Aldrei kláraður: Tumenov hefur aldrei verið kláraður – hvorki með uppgjafartaki né rothöggi
  • 83% felluvörn: Tumenov var tekinn fjórum sinnum niður í fyrsta bardaga sínum í UFC sem hann tapaði. Síðan þá hefur hann aldrei verið tekinn niður.
  • Rotari: Tumenov hefur klárað 12 bardaga með rothöggi.
  • Sparkar hátt: Tumenov rotaði Matt Dwyer með hásparki en Dwyer er 13 cm hærri en hann.

Leið til sigurs: Tumenov þarf að pressa Gunnar og komast í box fjarlægð við Gunnar. Tumenov vill geta snert Gunnar með hnefunum og til þess þarf hann að króa Gunnar af við búrið. Þar hefur Gunnar minna pláss til að hreyfa sig og þar gæti Tumenov raðað inn höggunum hvort sem það er í skrokk eða í höfuð. Það gæti líka verið gott fyrir Tumenov að sparka í fætur Gunnars til að draga úr sprengikraftinum í löppunum og minnka þannig hreyfanleika Gunnars.

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Gunnar Nelson er öllum landsmönnum kunnugur enda einn færasti íþróttamaður þjóðarinnar. Hann hefur þó átt erfitt uppdráttar og tapað tveimur af síðustu þremur bardögum sínum.

Gunnar er auðvitað þekktur fyrir gólfglímu sína en sýndi það gegn Brandon Thatch að hann getur svo sannarlega slegið frá sér. Gunnar mun þurfa á sparkboxi sínu að halda gegn Tumenov enda ekki hægt að gera ráð fyrir að Gunnar nái honum niður strax í fyrstu tilraun.

Við höfum í raun ekki fengið að sjá mikið af bættu sparkboxi Gunna. Það eina sem við höfum séð af sparkboxi Gunna síðasta árið er sigurinn á Thatch. Hann stóð nánast ekkert með Maia en við vitum að hann tók miklum framförum standandi eftir tapið gegn Rick Story.

Gunnar verður að halda góðri fjarlægð standandi gegn Tumenov. Tumenov mun væntanlega reyna að minnka fjarlægðina og pressa Gunnar. Gunnar hefur alltaf verið lunkinn í gagnárásum og gæti stokkið inn með leiftursnögg högg eða olnboga þegar Tumenov pressar. Það væri hreinn draumur ef Gunnar gæti gert það sama við Tumenov líkt og hann gerði við sparkboxarann Thatch.

gunnar nelson thatch knockdown

Eins og við vitum sýndi Gunnar ekki sitt rétta andlit gegn Demian Maia. Við vitum að hann getur gert betur en er Gunnar kominn yfir þetta tap? Skrokkurinn hans gaf sig snemma í bardaganum sem Gunnar segist aldrei hafa lent í áður. Hann getur farið fjölmargar lotur á æfingum en þarna var hann snemma þreyttur. Hefur Gunnar náð að laga það sem var að hrjá hann í bardaganum gegn Maia?

Nokkrir hlutir til að hafa í huga fyrir bardagann

  • Comeback: Gunnar kom sterkur til leiks eftir sitt síðasta tap. Gerir hann það sama núna?
  • Hreyfanleiki: Gunnar er frábær að halda góðri fjarlægð en þegar hann þreytist minnkar hraðinn og hreyfanleikinn til muna. Um leið og hreyfanleikinn minnkar er Gunnar opnari fyrir höggum.
  • Nær Gunnar fellunni? Þegar Gunnar kemst í gólfið hefur bardaginn nánast alltaf klárast. Rick Story er sá eini sem staðið hefur upp eftir fellu frá Gunnari og Jorge Santiago náði að lifa af í gólfinu.
  • Gunnar gerir oft alltof lítið: Gunnar er með nákvæm en fá högg. Hann tekur sinn tíma til að finna réttu höggin og ef hann er ekki að ná bardaganum niður gæti hann tapað á stigum þar sem hann á það til að gera of lítið standandi.

Leið til sigurs: Gunnar gæti komið Tumenov á óvart með óhefðbundnum leik sínum standandi. Það vita það samt allir að Gunnar á mesta möguleika á sigri í gólfinu. Gunnar þarf að skjóta inn á hárréttu augnabliki og taka Tumenov niður í gólfið. Þar á hann að geta klárað Tumenov.

Spá: Gunnar nær Tumenov niður í 2. lotu, lætur hann éta nokkra olnboga og klárar Tumenov svo með „guillotine“ hengingu.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular