Wednesday, April 24, 2024
HomeForsíða„Gunni er að fara að taka þetta belti“

„Gunni er að fara að taka þetta belti“

Gunnar NelsonGunnar Nelson sigraði Brandon Thatch eftirminnilega í júlí í sumar. Undirbúningurinn fór að mestu fram erlendis og eru liðsfélagar hans í Keppnisliði Mjölnis sammála um að Gunnar hafi tekið stórtækum framförum á þessu tímabili.

Í maí hélt Gunnar til Mexíkó þar sem hann aðstoðaði Cathal Pendred fyrir undirbúning hans fyrir bardaga í Mexíkó. Í júní fór Gunnar yfir til Las Vegas þar sem hann var með Conor McGregor og fleirum fram að bardaga þeirra þann 11. júlí.

Gunnar snéri aftur til æfinga með Keppnisliði Mjölnis í ágúst og sáu meðlimir liðsins mikinn mun á Gunnari frá því hann fór út í maí. Við spjölluðum við þrjá meðlimi liðsins þá Bjarka Ómarsson, Magnús Inga Ingvarsson og Bjarka Þór Pálsson um bætinguna hjá Gunnari.

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.
Bjarki Ómarsson. Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

„Hann minnti mann mikið á Conor McGregor þegar hann kom til baka,“ segir Bjarki Ómarsson. „Hann er kominn með fullt af litlum hlutum sem hann er búinn að bæta, alls konar vinklar sem hann er að ná. Svo er höggþyngdin hans orðin mun meiri, maður sá stjörnur við hvert einasta högg sem hann lenti. Hann er líka alltaf út um allt, erfitt að sjá hvaðan hann kemur, eins og með Conor McGregor. Ég sé engan í veltivigt sem gæti tekið hann standandi, Gunni er að fara að taka þetta belti.“

Bardaginn gegn Brandon Thatch var oft sagður „striker vs. grappler“ bardagi, eða sparkboxari gegn glímumanni. Eins og landsmenn muna tókst glímumanninum Gunnari að kýla hinn hættulega Thatch niður með fallegri fléttu.

„Bardaginn gegn Thatch var ekkert striker vs. grappler. Það var bara striker á móti ennþá betri striker sem er Gunni. Thatch var bara að tapa á móti miklu betri bardagamanni.“

Magnús Ingi Ingvarsson tekur undir með Bjarka. „Í Rick Story bardaganum var hann mikið með bein högg, 1-2 [stunga og bein hægri]. En eftir að hann kom heim [eftir Thatch bardagann] er hann farinn að skila inn miklu fleiri fléttum og kominn með nákvæmari högg, svipað og Conor McGregor er með. Hann kemur núna með fjögur til fimm högg sem smellhitta á hárrétta staði. Auk þess eru skrokkhöggin hans mjög hættuleg og er eitthvað sem maður sér aldrei koma. Hann er bara orðinn hrikalega nákvæmur, með flottar fléttur og alltaf búinn að koma sér frá áður en maður nær að svara.“

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.
Magnús Ingi Ingvarsson. Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

„Hann var alveg góður striker áður en núna er hann kominn á annað level og á alveg heima með topp 10 strákunum í veltivigt. Maður sá það líka í síðasta bardaga hvað þetta voru nákvæm högg. Þetta var engin tilviljun eða heppni þegar hann kýldi Thatch niður. Hann fylgdist bara með hreyfingunum og um leið og hann sá opnunina þá nýtti hann sér það og smellhitti. Hann er bara kominn á allt annað level og getur staðið með öllum í veltivigtinni núna og haft betur að mínu mati.“

Bjarki Þór Pálsson sér einnig líkindi með Gunnari og Conor McGregor líkt og Magnús og Bjarki Ómarsson hafa bent á en allir hafa þeir æft með McGregor og Gunnari hér heima. Gunnar og Conor McGregor hafa auðvitað æft saman um langt skeið undir handleiðslu John Kavanagh.

„Hreyfanleikinn hjá honum er mun meiri. Hann hreyfir hausinn miklu betur og þú sérð höggin hans aldrei koma. Það er mjög svipað því og þegar þú ert að sparra við Conor [McGregor] í fyrsta sinn. Þeir fara báðir mjög rólega á meðan maður er á fullu swingi, eru bara slakir og svo koma dúndrurnar. Tímasetningin hans er líka orðin rosalega góð.“

Líkt og hinir sér hann mikinn mun frá því Gunnar fór út. „Ég myndi segja að hann væri orðinn svona þrefalt betri og ég er ekki að ýkja! Þetta er fáranlegt. Maður gat áður gert eitthvað á móti honum á æfingum en núna getur maður ekkert! Og hvað á maður að gera, taka hann niður?“ segir Bjarki og hlær.

Æfingafélagar hafa alltaf trú á sínum manni og má kannski taka þessi ummæli með smá fyrirvara. Hins vegar er virkilega skemmtilegt að heyra þá tala um bætinguna hjá Gunnari og ljóst að Gunnar er á réttri leið. Það verður því spennandi að sjá Gunnar næst þegar hann berst og vonandi heldur hann áfram á sömu braut.

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson
Bjarki Þór Pálsson. Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular