Thursday, March 28, 2024
HomeForsíðaGunnar dettur út af styrkleikalista UFC

Gunnar dettur út af styrkleikalista UFC

Mynd: Snorri Björns.

Gunnar Nelson er ekki lengur á topp 15 styrkleikalista UFC í veltivigtinni. Nýr listi kom í morgun en þar er Gunnar ekki lengur meðal 15 efstu áskorenda.

Styrkleikalistinn er samansettur af fjölmiðlamönnum víðs vegar um heiminn og kemur nýr listi nokkrum dögum eftir hvern viðburð UFC. Þar raða fjölmiðlamenn 15 bestu áskorendunum á eftir meistaranum í hverjum flokki fyrir sig.

Fyrir síðasta bardagakvöld var Gunnar í 14. sæti styrkleikalistans eftir tapið gegn Leon Edwards. Eftir sigur Anthony Pettis á Stephen Thompson hefur sá fyrrnefndi skotist upp í 8. sæti á styrkleikalistanum í veltivigt. Pettis hefur lengst af barist í léttvigt en kemur inn á topp 10 í kjölfarið á glæstum sigri um síðustu helgi. Þar af leiðandi falla margir niður um eitt sæti nema Gunnar sem fellur um tvö sæti og Vicente Luque stendur í stað í 15. sæti. Gunnar er 4-4 í síðustu átta bardögum sínum á meðan Luque hefur unnið átta af síðustu níu bardögum sínum.

Þetta eru ekki góð tíðindi fyrir Gunnar og gæti reynst erfitt fyrir hann að fá andstæðing sem er á topp 15 á meðan hann er sjálfur ekki á listanum. Það getur þó enn margt breyst og gæti Gunnar þess vegna dottið aftur inn á listann í næstu viku.

Nokkrar breytingar hafa átt sér stað í veltivigtinni á undanförnum tveimur vikum. Jorge Masvidal tók hástökk með sigrinum á Darren Till og Pettis gerði það sama núna. Ben Askren kom nýr inn á listann og nýr meistari var krýndur í mars. Þá gæti annar bardagamaður bæst á listann ef Kevin Lee vinnur Rafael dos Anjos. Lee mun taka sinn fyrsta bardaga í veltivigt í maí þegar hann mætir dos Anjos en sigur á honum setur Lee á topp fimm í veltivigtinni og myndi Gunnar því færast enn neðar.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular