Það var nóg um að vera hjá Halldóri Loga um helgina. Á föstudeginum keppti hann á Polaris 9 glímumótinu en á laugardeginum tók hann SubOver80 glímumótið með stæl.
Halldór Logi Valsson úr Mjölni var um helgina fyrsti Íslendingurinn til að keppa á Polaris glímumótinu en það er eitt sterkasta glímumót heims. Halldór tapaði því miður eftir dómaraákvörðun en stóð sig afar vel.
Polaris fór fram í London en á laugardagsmorgninum flaug hann yfir til Dublin til að keppa á SubOver80 glímumótinu. Þar keppti Halldór Logi í 16-manna flokki en allir keppendur voru yfir 80 kg.
Halldór byrjaði á að vinna fyrstu glímuna með „heel hook“ en næstu glímu vann hann eftir dómaraákvörðun. Það reyndist vera furðuleg glíma þar sem andstæðingurinn forðaðist Halldór í 9 mínútur en hver glíma var 10 mínútna löng. Andstæðingurinn reyndi svo fá Halldór dæmdan úr leik með því að þykjast hafa fengið högg frá Halldóri en hafði ekki erindi sem erfiði.
Undanúrslita- og úrslitaglímuna kláraði Halldór svo einnig með „heel hook“. Frábær frammistaða hjá Halldóri eftir annasama helgi.