0

Hver er þessi Gilbert Burns?

UFC staðfesti rétt í þessu að Gilbert Burns mun koma í stað Thiago Alves og mæta Gunnari Nelson í Kaupmannahöfn. En hvaða bardagamaður er þetta sem mætir Gunnari?

Gunnar Nelson átti að mæta Thiago Alves á UFC bardagakvöldinu í Kaupmannahöfn þann 28. september. Í síðustu viku greindi Alves frá því að hann gæti ekki barist vegna sýkingar og nýrnasteina.

Gilbert Burns var fyrstur til að bjóðast til að mæta Gunnari. Gunnar samþykkti bardagann strax og var bardaginn staðfestur af UFC nú fyrir skömmu.

Gilbert Burns er 33 ára Brasilíumaður sem er 16-3 á ferli sínum í MMA. Burns kom inn í UFC árið 2014 og er með níu sigra og þrjú töp í UFC.

Nú eru aðeins níu dagar í bardagann en Alves datt út þegar um 16 dagar voru í bardagann og er þetta töluverð breyting fyrir Gunnar. Þó Burns sé bara tveimur árum yngri en Thiago Alves er hann á allt öðrum stað á ferlinum heldur en Alves. Alves er á síðustu metrunum og mun sennilega vera hættur í MMA innan árs. Burns er aftur á móti ennþá í toppstandi og hefur sennilega aldrei verið jafn góður og nú.

Heimsmeistari í jiu-jitsu

Gilbert Burns byrjaði ungur að æfa brasilískt jiu-jitsu. Pabbi hans var bifvélavirki en einn kúnni hans borgaði honum með því að gefa synum hans jiu-jitsu kennslu. Allir þrír bræðurnir fengu því að æfa jiu-jitsu og voru þeir strax mjög áhugasamir. Yngri bróðir hans, Herbert Burns, fékk samning við UFC fyrr á árinu.

Gilbert Burns fékk svarta beltið í BJJ árið 2007 en tveimur árum síðar fékk hann silfur á Heimsmeistaramótinu í BJJ (í galla). Árið 2010 varð hann heimsmeistari í nogi glímu (án galla) þegar hann vann Nogi Worlds og tók gull á Abu Dhabi World Cup í sínum flokki. 2011 varð hann IBJJF heimsmeistari í svartbeltingaflokki (í galla), vann aftur Nogi Worlds 2013 og er hann því þrefaldur heimsmeistari í BJJ. Burns hefur unnið sterka glímumenn á glímumótum eins og Kron Gracie, Gregor Gracie, AJ Agazarm, Gianni Grippo, Leandro Lo, JT Torres, Lucas Lepri og Lucas Leite.

Sem þrefaldur heimsmeistari í jiu-jitsu hefur Burns verið duglegur að keppa í BJJ meðfram MMA ferlinum. Burns ætlaði að keppa á ADCC (sterkasta glímumót heims) nú í september en þarf að hætta við það þar sem mótið er á sama tíma og bardaginn gegn Gunnari. Burns hefur því verið að glíma mikið að undanförnu og er því ekki að koma beint af sófanum inn í þennan bardaga.

MMA ferillinn

Árið 2012 snéri hann sér að MMA eftir farsælan feril í glímunni. Burns vann fyrstu sjö bardaga sína, kláraði þá alla og fékk í kjölfarið samning við UFC. Vitor Belfort tók Burns undir sinn verndarvæng og leiðbeindi honum á fyrstu skrefum ferilsins. Burn æfði þá mikið með Belfort og Blackzilians liðinu eins og það hét þá. Í dag æfir hann hjá Hard Knocks 365 undir Henri Hooft. Þar æfa menn eins og veltivigtarmeistarinn Kamaru Usman, Volkan Oezdemir, Vicente Luque, Michael Johnson og fleiri sterkir UFC bardagamenn.

Í UFC hefur honum gengið vel en hann hefur bæði keppt í léttvigt og veltivigt. Burns hefur lengst af verið í léttvigt þar sem hann náði alltaf tilsettri þyngd. Bardagi hans gegn Olivier Aubin-Mercier í léttvigt var blásinn af þremur dögum fyrir þar sem Burns þótti of þungur. Læknar UFC töldu það vera óráðlegt fyrir Burns að skera svo mikið niður en Burns var 84,5 kg nokkrum dögum fyrir bardagann og hefði þurft að vigta sig inn 70,9 kg daginn fyrir bardagann. Burns hélt áfram að vera í léttvigt og mætti síðan Aubin-Mercier nokkrum mánuðum síðar á UFC 231 í desember í fyrra. Þar átti Burns frábæra frammistöðu og sigraði eftir dómaraákvörðun.

Embed from Getty Images

Burns var þegar farinn að íhuga að færa sig upp um flokk enda var niðurskurðurinn orðinn erfiðari með árunum. Læknir Burns sannfærði hann um að færa sig upp um flokk og sagði að Burns gæti átt lengri feril með því að fara upp um flokk.

Þegar UFC vantaði andstæðing fyrir Alexey Kunchenko í veltivigt með tæpum tveggja vikna fyrirvara stökk Burns á tækifærið. Burns sigraði Kunchenko eftir dómaraákvörðun þann 10. ágúst og er því stutt á milli bardaga hjá honum. Burns telur að hraði sinn eigi eftir að hjálpa sér í veltivigt og að þetta sé hans rétti þyngdarflokkur nú.

Burns er 33 ára gamall en hefur sennilega aldrei litið eins vel út og í síðustu þremur bardögum. Það er því ljóst að Burns verður erfiður andstæðingur fyrir Gunnar og þarf Gunnar að vera upp á sitt allra besta til að vinna.

Burns er töluvert öðruvísi andstæðingur en Thiago Alves. Burns er mjög sterkur í glímunni en er einnig góður standandi og gott dæmi um nútíma bardagamann. Aftur á móti er Alves einhæfari og með augljósari leikáætlun. Burns er með betri ferilskrá í jiu-jitsu á pappírum heldur en Gunnar og verður áhugavert að sjá hvor nær fyrstu fellunni. Þetta gæti orðið jafn og skemmtilegur bardagi en er líka hættulegur bardagi fyrir Gunnar.

Gunnar Nelson Gilbert Burns
Pétur Marinó Jónsson

Comments

comments

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Stöð 2 Sport -MMA fíkill

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.