0

Hver er þessi Thiago Alves?

Fyrr í dag var næsti bardagi Gunnars Nelson staðfestur en hann mætir Thiago Alves á UFC bardagakvöldinu í Danmörku í september. En hver er þessi Thiago Alves?

Thiago Alves er einn reynslumesti bardagamaður sem Gunnar hefur mætt. Alves hefur marga fjöruna sopið og barist í MMA frá unga aldri.

Thiago Alves d’Araujo er fæddur í Fortaleza í Brasilíu í október 1983 og er hann því 35 ára gamall. Alves byrjaði að æfa Muay Thai 15 ára gamall til að koma sér í betra form og byrjaði skömmu síðar í MMA. Alves var aðeins 15 ára gamall þegar hann barðist sinn fyrsta MMA bardaga en þá sigraði hann 25 ára andstæðing eftir dómaraákvörðun.

Þegar hann var 19 ára gamall flutti hann frá Brasilíu til Flórída til að æfa með American Top Team og æfir hann þar enn þann dag í dag. Þegar Alves var 22 ára gamall samdi hann við UFC og hefur hann því verið í UFC 13 ár.

Alves vegnaði sæmilega fyrst um sinn í UFC og var 2-2 eftir fyrsta árið í UFC. Hann komst síðan á sjö bardaga sigurgöngu sem skilaði honum titilbardaga og var hann á þeim tíma einn mest spennandi bardagamaðurinn í UFC. Fimm af þessum sigrum kláraði hann með rothöggi og rotaði hann þar á meðal Matt Hughes, Chris Lytle og Karo Parisyan.

Alves sýndi frábært Muay Thai og framúrskarandi felluvörn á þessum árum og tókst honum að sigra sterka glímumenn eins og fyrrnefndan Hughes og líka Josh Koscheck.

Þessi sjö bardaga sigurganga gekk þó ekki vandræðalaust fyrir sig en Alves féll á lyfjaprófi eftir sigur sinn á Tony DeSouza á UFC 66. Lyfjaprófið innihélt ólögleg þvagörvandi efni en Alves hélt því fram að hann hefði notað efnið til að hjálpa sér að skera niður. Alves var á sínum tíma í vandræðum með að skera niður í 77 kg veltivigt en efnin hafa einnig verið notuð til að fela steranotkun.

Alves fékk titilbardaga gegn Georges St. Pierre á UFC 100 árið 2009. Goðsögnin St. Pierre sigraði Alves eftir örugga dómaraákvörðun og komst Alves ekki aftur á sama stall.

Embed from Getty Images

Árin eftir titilbardagann hafa einkennst af meiðslum hjá Alves en hann hefur unnið sex bardaga en tapað átta síðan hann barðist um titilinn. Alves var frá í tvö ár vegna meiðsla frá 2012 til 2014 og hefur oft liðið langt á milli bardaga hjá honum. Sjö sinnum hefur hann þurft að draga sig úr bardaga vegna meiðsla eða veikinda á þeim 13 árum sem hann hefur verið í UFC.

Alves reyndi að fara niður um flokk árið 2016 en var alltof þungur fyrir bardagann gegn Jim Miller. Alves var rúmum sex pundum yfir fyrir léttvigtarbardaga sinn gegn Miller og átti skelfilega frammistöðu.

Alves hefur verið ágætlega duglegur að berjast á síðasta ári en bardaginn í september verður hans fjórði á rúmum 12 mánuðum. Alves er ekki sami íþróttamaður og hann var, verandi 35 ára gamall, en er ennþá mjög tæknilega góður og þá sérstaklega standandi. Alves er brúnt belti í brasilísku jiu-jitsu og hefur sýnt ágætis takta á gólfinu.

Alves hefur sjálfur sagt að hann eigi ekki mikið eftir. Alves sagði eftir sigurinn á Max Griffin að hann ætlaði að klára síðustu tvo bardaga sína hjá UFC og hætta svo. Ef hann hefur ekki skrifað undir nýjan samning við UFC verður bardaginn gegn Gunnari hans síðasti á núgildandi samningi við UFC. Þetta gæti því verið kveðjubardagi Alves en hann hefur áður sagt að hann vilji taka síðasta bardagann heima í Brasilíu.

Á síðustu árum hefur Alves verið að þjálfa mikið hjá American Top Team. Hann er Muay Thai þjálfari hjá liðinu og hefur Dustin Poirier mikið verið að vinna með honum. Alves var til að mynda í horninu hjá Poirier í hans síðasta bardaga gegn Max Holloway.

Alves ætlar þó ekki bara að vera þjálfari þegar hann hættir að berjast heldur langar honum að verða lögreglumaður en það hefur lengi verið draumur Alves að starfa sem lögreglumaður.

Bardagi Alves og Gunnars fer fram á UFC bardagakvöldinu í Kaupmannahöfn þann 28. september.

Embed from Getty Images

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is

-Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ)
-BS í sálfræði
-Lýsi UFC á Stöð 2 Sport
-MMA fíkill
Pétur Marinó Jónsson

Comments

comments

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Stöð 2 Sport -MMA fíkill

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.