Saturday, April 27, 2024
HomeErlentHvernig tryggir UFC öryggi bardagamanna um helgina?

Hvernig tryggir UFC öryggi bardagamanna um helgina?

Bardagadagskrá UFC fer aftur af stað á laugardaginn þegar UFC 249 fer fram. Í miðjum heimsfaraldri vakna spurningar um örugga framkvæmd viðburðarins.

UFC 249 átti upphaflega að fara fram þann 18. apríl í New York. Þegar ljóst var að ástandið í New York væri orðið hættulegt var bardagakvöldið fært og átti að vera á verndarsvæði indjána í Kaliforníu. Eftir símtal frá ríkisstjóra Kaliforníu báðu hæstráðendur hjá Disney og ESPN forseta UFC, Dana White, um að hætta við bardagakvöldið.

UFC hætti þó ekki við bardagakvöldið heldur frestaði því um þrjár vikur. Nánast allt er lokað ennþá í Bandaríkjunum og íþróttaheimurinn í djúpum svefni en UFC heldur samt áfram. Bardagakvöldið á laugardaginn verður í Jacksonville í Flórída þrátt fyrir að kórónaveiran sé enn skæð í Bandaríkjunum. UFC ætlar auk þess að vera með tvö önnur bardagakvöld í Jacksonville og verða því þrjú bardagakvöld þar á átta dögum. En hvernig ætlar UFC að fara að þessu á meðan smithætta er enn til staðar?

Aðeins bardagamenn sem eru búsettir í Bandaríkjunum fá að keppa á bardagakvöldinu. Sumir bardagamenn fljúga til Flórída en aðrir keyra. Donald Cerrone keyrði til að mynda á húsbílnum sínum alla leið frá Nýju-Mexíkó til Jacksonville en það er rúmlega sólarhrings akstur.

Allir starfsmenn, bardagamenn og hornamenn gista á sama hóteli í Jacksonville og verða allir skimaðir fyrir veirunni þegar þeir koma á hótelið. Tony Ferguson og Charles Rosa hafa birt myndbönd af skimuninni.

Daglega verða allir bardagamenn og starfsmenn hitamældir. Þá fær hver bardagamaður sitt eigið æfingaherbergi á hótelinu með dýnum og ferðagufubaði en vanalega eru bara tvö æfingaherbergi á hóteli bardagamanna (eitt fyrir rautt horn og annað fyrir blátt horn).

Vigtunin á föstudaginn verður líka með breyttu móti en UFC mun reyna að vigta keppendur inn á mismunandi tímum svo það myndist ekki biðröð í vigtuninni.

Á bardagakvöldinu sjálfu verða auðvitað engir áhorfendur en útsendingarstjórn mun leggja ríka áherslu á góðar hljóðupptökur af skilaboðum þjálfara og hljóðið í höggunum.

Vanalega á svona kvöldum tekur Joe Rogan viðtal við sigurvegarann í búrinu strax eftir bardagann en engin viðtöl verða í búrinu á laugardaginn. Þess í stað mun bardagamaðurinn strax fara baksviðs, fá heyrnartól og fara þar í viðtal við Rogan sem mun áfram sitja fastast í sæti sínu við búrið. Lýsendurnir þrír, Jon Anik, Joe Rogan og Daniel Cormier, munu ekki sitja saman á laugardaginn heldur á þremur mismunandi stöðum við búrið.

UFC er vanalega með um 130 starfsmenn í kringum útsendinguna en þeim verður fækkað í 80. Fáir blaðamenn verða á staðnum og þarf alltaf að vera tveggja metra fjarlægð á milli fólks í höllinni. Allir starfsmenn verða síðan með grímur og hanska. Fjölmiðladagurinn í dag verður með breyttu sniði en enginn fær að hitta bardagamennina og verða öll viðtölin í gegnum fjarfundabúnað. Þá er UFC að skoða hvernig best er að hreinsa búrið eftir hvern bardaga. UFC setti upp 25 blaðsíðna aðgerðarplan sem fylgt verður eftir til að koma í veg fyrir smit.

Þó þessar ráðstafanir séu góðar verður samt að setja spurningamerki við þennan viðburð UFC. Næstu bardagakvöld UFC fara öll fram í Flórída en ríkisstjórinn þar, Don DeSantis, hefur lagt mikla áherslu á að hýsa íþróttaviðburði þar. DeSantis vill meina að íþróttir í sjónvarpi sé „nauðsynleg þjónusta“ en fjölbragðaglíman WWE verður líka með viðburði í Flórída fyrir luktum dyrum. Þá eru einnig fregnir að Flórída sé ekki að greina rétt frá smittölum í ríkinu og séu jafnvel að hylma yfir dánartíðni vegna kórónaveirunnar.

Samtals 22 keppendur stíga í búrið á laugardaginn í bardögunum 11 og eru því allar líkur á að einhverjir þurfi að fara á spítala eftir bardagana. Spítalarnir í Jacksonville eru víst í ágætis málum og ekki yfirfullir af sjúklingnum með veiruna. En það eru samt ennþá ágætis líkur á smiti á spítulum og spítali er kannski síðasti staðurinn sem þú vilt heimsækja á þessum tímum þegar þú gætir þannig séð sleppt því.

Það verður síðan að taka það með í reikninginn að þó UFC skimi fyrir veirunni þegar bardagamenn koma á hótelið er ekki þar með sagt að keppendur séu 100% ekki með veiruna. Ekkert próf er með 100% nákvæmni og gæti einhver einn verið með veiruna á hótelinu og smitað út frá sér. Það gæti síðan ekki komið í ljós fyrr en þegar einstaklingurinn er kominn heim og þá er hann mögulega búinn að smita nokkra.

Auk þess er ennþá skortur á prófum í Bandaríkjunum en í sumum fylkjum á almenningur erfitt með að komast í skimun fyrir veirunni. UFC var samt ekki í vandræðum með að tryggja sér próf en spurning hvort þetta sé besta nýtingin á prófunum ef það er ennþá raunverulegur skortur?

Það er frábært að fá íþróttir aftur og þetta verður geggjað bardagakvöld en það er áhætta sem fylgir þessum viðburði. Bardagamenn vilja berjast enda vilja þeir fá borgað. UFC hefur lagt mikla áherslu á að halda bardagakvöld þrátt fyrir faraldurinn en eru þeir mögulega að fara of snemma af stað?

Bardagakvöldið á laugardaginn er smekkfullt af frábærum bardögum en þeir Tony Ferguson og Justin Gaethje mætast í aðalbardaga kvöldsins.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular