John Kavanagh, yfirþjálfari Gunnars Nelson, ræddi við okkur á dögunum um bardagann erfiða gegn Demian Maia, breytinguna á Gunnari, andstæðinginn Albert Tumenov og fleira.
Gunnar Nelson tapaði fyrir Demian Maia í desember eftir einhliða bardaga en Gunnar lærði mikið af þeim bardaga. „Gunni er ekki einn af þeim sem reynir að kenna öðrum um. Hann veit hvað gerðist í þessum bardaga og hefur þroskann, færnina og gáfurnar til að aðlagast eftir þennan bardaga. Ég veit að svona nokkuð mun aldrei gerast aftur,“ segir Kavanagh um tapið gegn Maia.
„Bardaginn fór eins og hann fór og við þurfum að takast á við það. Það er ekki hægt að hundsa það. Þú verður að sætta þig við tapið, taka ábyrgð á því og gera svo réttar breytingar. Það er það sem Gunnar hefur gert.“
Kavanagh telur veltivigtina vera galopna og þarf ekki mikið til að komast á toppinn. Það sem Gunnar eða Tumenov gera á þessu ári mun ákveða hvaða leið þeir fara í þessum þyngdarflokki. Leiðir þeirra munu skiljast eftir bardagann en spurningin er, hvor fer áfram og hvor fer til baka?
Viðtalið má hlusta á í heild sinni hér að neðan.