Friday, April 26, 2024
HomeForsíðaJón Viðar: Mjög erfitt að vera í horninu í Maia bardaganum

Jón Viðar: Mjög erfitt að vera í horninu í Maia bardaganum

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.
Jón Viðar og Gunnar. Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Gunnar Nelson mætir Albert Tumenov á UFC bardagakvöldinu í Rotterdam á sunnudaginn. Jón Viðar Arnþórsson verður í horninu hjá Gunna að venju en fáir þekkja Gunnar betur.

Jón Viðar er forseti Mjölnis og einn af þjálfurum Gunnars. Hann hefur þekkt Gunnar frá því þeir voru saman í karate og var það Jón Viðar sem kynnti Gunnari fyrir glímunni á sínum tíma.

Jón Viðar var í horninu hjá Gunnari í bardaganum gegn Demian Maia og var það sérstök reynsla fyrir hann. „Það var mjög erfitt að vera í horninu. Var aðallega bara skrítið þar sem maður hefur aldrei séð hann í svona stöðu áður. Ekki nema fyrir svona tíu árum síðan kannski,“ segir Jón Viðar.

Gunnar hefur mætt sterkum glímumönnum í glímukeppnum eins og Andre Galvao, Vinny Magalhaes og Xande Ribeiro en enginn hefur haft jafn mikla yfirburði gegn honum líkt og Maia gerði. „Þótt hann hafi farið á móti mörgum af bestu glímumönnum í heimi í glímukeppnum þá hefur enginn dominate-að hann svona mikið. Þannig að maður sá að það var greinilega eitthvað að.“

Gunnar Nelson
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Í æfingabúðum sínum fyrir bardagann gegn Tumenov hafa þeir gert ákveðnar breytingar. „Það eru nokkrir hlutir sem eru breyttir. Gunni er aðeins búinn að vera að spá í posture-inu sínu þannig að hann komist beint í góðan gír. Hann var bara ekki í góðum gír þarna í Maia bardaganum. Einnig erum við búnir að bæta smá þolæfingum en annars er þetta nokkuð svipað.“

Gunnar er ekki stór í sínum flokki en er engu að síður óvenju léttur. „Hann á bara eftir að skera þrjú kíló núna [fimmtudag] sem er mjög lítið miðað við hvað er langt í bardagann. Núna þarf hann bara að halda áfram að borða mjög hollt og ekki mikið og auðvitað ekki saltaðan mat. Þá ætti hann að þurfa bara korter í baðinu og korter upp í rúmi [pakkaður inn í handklæði til að svitna meira]. Það er markmiðið.“

„Að fara í þetta helvítis bað tekur svo mikið úr þér. Það getur verið erfitt að ná sér eftir það og ætlum við að reyna að sleppa við það eins og við getum.“

Gunnar að svitna eftir baðið. Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.
Gunnar að svitna eftir baðið.
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Ein af breytingunum sem hafa verið gerðar er maturinn eftir að tilsettri þyngd hefur verið náð. „Síðast fengum við nýjar upplýsingar og vorum að borða öðruvísi mat fyrir Maia bardagann. Við vorum ekki alveg ánægðir með hvað hann var látinn borða þannig að við ætlum að fara aftur í sama gamla og borða það sem hann er vanur að borða. Ekki vera að breyta og borða eitthvað nýtt eins og síðast.“

Eins og áður segir mætir Gunnar Rússanum Albert Tumenov. Tumenov er sterkur boxari en með góð spörk og hefur klárað 12 bardaga með rothöggi. „Okkar plan er að halda góðri fjarlægð og vera ekki mjög nálægt honum. Ekki leyfa honum að pressa Gunna að búrinu þar sem hann getur notað boxið sitt. Gunni þarf að halda góðri fjarlægð og nota hraðann þar sem Gunni er með miklu hraðari fótavinnu og bara meiri hraði í Gunna. Kannski ná nokkrum höggum á hann þannig og svo þegar tækifæri gefst að fara með hann í gólfið.“

„Við erum búnir að vera að æfa counter við margt af því sem hann gerir. T.d. ef hann nær Gunna að búrinu erum við með ákveðin counter við því og plan ef Gunni nær ekki að halda góðri fjarlægð.“

Jón Viðar hefur auðvitað trú á sínum manni fyrir þennan mikilvæga bardaga. „Gunni verður að rústa honum og ég spái rear naked choke í 1. lotu,“ segir Jón Viðar að lokum.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular