Annað kvöld berst Gunnar Nelson við Brandon Thatch á UFC 189. Fáir þekkja Gunnar Nelson jafn vel og Jón Viðar Arnþórsson. Í þessu tveggja hluta viðtali fáum við að heyra frá manninum sem hefur fylgt Gunnari frá upphafi MMA ferilsins.
Jón Viðar Arnþórsson er forseti Mjölnis og einn af þjálfurum Keppnisliðs Mjölnis. Hann kynntist Gunnari fyrst í gegnum karate þar sem Jón Viðar var þjálfari unglingalandsliðsins. Jón Viðar er sá sem kynnti Gunnari fyrir glímunni.
„Ég byrjaði að fikta við glímuna 2003. Svo kynntist ég Gunnari af einhverju viti árið 2004. Á karate æfingu í Þórshamri spurði ég hann hvort hann vildi glíma en hann hafði aldrei prófað það áður. Við glímdum og hann gat auðvitað ekkert en eftir það varð hann alveg húkt á glímunni,“ segir Jón Viðar.
„Maður fann það samt strax að það var mikill töggur í honum og þetta var eitthvað sem hann hafði í sér. Þetta var ekkert eins og að rúlla upp hverjum sem er.“ Þarna var Gunnar 15 ára og Jón Viðar tvítugur og miðað við aldursmuninn var óvenju erfitt að glíma við hann.
Gunnar Nelson fékk svarta beltið í brasilísku jiu-jitsu á aðeins fjórum árum líkt og t.d. goðsögnin BJ Penn. Munurinn er hins vegar sá að Penn var þjálfaður af heimsklassa svartbeltingum frá fyrsta degi. Gunnar var ekki svo heppinn enda var ekkert BJJ hér á landi þá. Það gerir afrek hans enn merkilegra.
„Fyrstu árin vorum við bara að bulla. Við horfðum á Bas Rutten myndbönd og lærðum neck cranks og fótalása og kunnum engar stöður. Við glímdum bara og vorum í raun heppnir að slasa okkur ekki. 2005 byrjuðum við að læra einhverjar stöður eftir að við kynntumst Bjarna [Baldursson, þjálfari í Mjölni] og Arnari [Freyr Vigfússon, svartbeltingur]. Þeir höfðu meiri skilning en við á glímunni og kenndu okkur helling.“
„Gunni æfði mest í Mjölni með hvítbeltingum og blábeltingum en í hvert sinn sem hann fór út til Karl Transwell eða John Kavanagh í mánuð þá kom hann fáranlega góður til baka. Hvað þá þegar hann fór til Renzo Gracie, þá var hann orðinn ómennskur og ekkert gaman að glíma við hann lengur,“ segir Jón Viðar og hlær.
Það er því virkilega áhugavert hvernig ungur strákur frá Íslandi gat orðið svona fljótt góður að glíma þegar BJJ kennsla hér á landi var takmörkuð. Hvers vegna varð Gunnar svona fljótt góður að glíma?
„Hann er ógeðslega seigur og ógeðslega harður af sér. Hann vill ekki tapa og hatar að tapa. Það fer mjög mikið í taugarnar á honum ef hann tapar. Þetta keppnisskap og þessi vilji til að vera bestur kemur honum ákveðið langt en svo er hann líka genatískt undur. Hann lærir allt svo hratt. Hann er eins og svampur, dregur alla þekkingu í sig mjög hratt. Um leið og hann fer í breytt umhverfi þá sýgur hann alla þekkingu í sig strax og lærir á alla mjög hratt og nær öllu strax.“
Á morgun munum við birta seinni hluta viðtalsins okkar við Jón Viðar en þar talar hann m.a. um bardagann gegn Brandon Thatch. Við minnum lesendur á að fylgja Mjölni á Snapchat undir notendanafninu mjolnirmma.