spot_img
Wednesday, December 11, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentJustin Wren - Stóri pygmíinn sneri aftur sigursæll

Justin Wren – Stóri pygmíinn sneri aftur sigursæll

MYND JUSTIN WREN 1

Justin Wren vissi að hann vildi vera MMA bardagamaður þegar hann var 13 ára gamall en hann hefði aldrei getað ímyndað sér aðstæðurnar í kringum bardagann á föstudagskvöld. Wren var að snúa aftur eftir 5 ára keppnishléi og berst nú á allt öðrum forsendum en þegar hann tók þátt í The Ultimate Fighter árið 2009. Í dag berst hann fyrir pygmía-fjölskylduna sína í Kongó.

Þegar Wren tók þátt í The Ultimate Fighter, TUF, hafði hann litla stjórn á lífi sínu og glímdi við eiturlyfjafíkn. Honum tókst að yfirvinna fíknina en fannst líf sitt skorta tilgang þar til hann dreymdi um pygmíana í Kongó og ákvað að fara og hjálpa þeim.

https://vimeo.com/127854856

Fáir staðir verri

Kongó er í Mið-Afríku en það er næst stærsta land í Afríku og það 11. stærsta í heiminum. Þar búa meira en 75 milljónir manna og landið er mjög ríkt af góðmálmum og öðrum náttúruauðlindum en vegna stríðsátaka, ótryggs stjórnmálaástands og náttúrulegra aðstæðna er landið eitt það vanþróaðasta í heimi. Flestir íbúar lifa við sára fátækt og hreint drykkjarvatn er af skornum skammti.

Pygmíar eru þjóðfélagshópur sem býr í frumskógi Kongó og hefur það sérkenni að vera sérstaklega lágvaxinn en meðalhæð fullvaxins karlmanns er um 148 cm. Það er áætlað að um 250.000-600.000 pygmíar búi í frumskógum Kongó.

Í landi þar sem nauðgunum er beitt kerfisbundið í stríði og hópar vígamanna reika um lagalausan frumskóginn eru pygmíar auðveld skotmörk. Nágrannar pygmíanna koma fram við þau eins og dýr, nota þau sem þræla, neita þeim um læknisaðstoð, ræna þau af öllu sem þau eiga, myrða þau, elda þau og borða þau. Það er erfitt að finna fólk í verri stöðu.

MYND JUSTIN WRENGleymda fólkið

Justin Wren langaði að gera meira en að fara bara í stutta heimsókn, vinna hjálparstarf og fara svo aftur heim. Hann vildi verða hluti af samfélaginu og komast að því hvernig hægt væri að hjálpa þeim til langtíma.

Í ágúst 2011 fór Justin Wren fyrst til Kongó og hitti pygmía. Hann komst að því að þau kalla sig „gleymda fólkið“, sem var einmitt sama hugtak og hann hafði dreymt í fyrsta draumnum um pygmíana. Hann eyddi fyrstu ferðinni fyrst og fremst í að kynnast fólkinu og þeirra háttum og komast að því hversu ótrúlega bág staða þeirra var. Hann komst líka að því að þau voru einstaklega ástrík og hann varð fljótlega hluti af fjölskyldunni.

Þegar hann kom til baka fékk hann gott fólk til að vinna með sér og stofnaði „Fight for the Forgotten“ samtökin. Wren fór svo aftur til Kongó og eyddi heilu ári í frumskóginum. Í þetta sinn gat hann byrjað að setja upp vatnsbrunna og kaupa landsvæði í nafni pygmíanna.

Wren hefur hjálpað pygmíunum að fá 2470 ekrur af landsvæði til að búa á og kemur með landbúnaðarfræðinga til að hjálpa pygmíunum að nýta landsvæðið sem best til að ræktunar. Til þessa hafa 25 vatnsbrunnar verið settir upp, en fleiri eru á leiðinni. Alls eru Fight for the Forgotten samtökin með 20 starfsmenn í fullri vinnu.

brunnavinna mynd justin wren

Vanillugórillan sem elskar okkur

Í fyrstu eru margir innfæddir óttaslegnir þegar þeir sjá Wren, sem er 190 cm á hæð og 120 kíló, með sítt ljóst hár og skegg. Útlit hans teldist óvenjulegt á Vesturlöndum en í Mið-Afríku er ekki laust við að hann skeri sig mjög mikið úr.

https://www.youtube.com/watch?v=ide5YjD6AhI

Hann hefur unnið sér inn nokkur ólík viðurnefni í vist sinni í frumskóginum. Pygmíarnir kalla hann „Efeosa“, sem þýðir „maðurinn sem elskar okkur“ eða „Mbuti MangBo“, sem þýðir „stóri pygmíinn“. Úgandamennirnir sem vinna að því að grafa vatnsbrunnana með honum kalla hann hins vegar „Vanillugórilluna“ í gríni því þeir eru óvanir að sjá menn með svona loðna handleggi og fætur. Wren þykir svo vænt um nafnið sem pygmíarnir gáfu honum að hann valdi það sem viðurnefni sitt í búrinu.

Í búrinu til að breiða út boðskapinn

Ástæðan fyrir því að hann ákvað að snúa aftur í búrið var sú að hann sá það sem leið til að gefa pygmíunum rödd. Hann vill að fólk viti hver staða þessa fólks er og fá hjálp við að hjálpa þeim. Með því að verða þungavigtarmeistari Bellator fær hann stærri og fleiri tækifæri til þess að vekja athygli á baráttunni fyrir gleymda fólkinu. Það er það sem hann vill gera. Wren barðist í Bellator síðastliðið föstudagskvöld en það var fyrsti bardagi hans í fimm ár. Wren sigraði Josh Burns með miklum yfirburðum á stigum.

Þriðjunginn af laununum og 100% af sigurbónusnum fer til pygmíanna. Það sem er líklega mikilvægara er að Wren hefur fengið gríðarlega fjölmiðlaathygli í kringum bardagann sem hefur hjálpað mikið við að breiða út boðskap hans. Hann er einnig að gefa út bók, sem heitir „Fight for the forgotten“ og var skrifuð með Loretta Hunt. Þeir sem vilja leggja baráttu hans lið geta gert það á www.fightfortheforgotten.com

Wren var gestur í hlaðvarpsþætti Joe Rogan fyrir skömmu þar sem hann sagði nánar frá verkefninu og því sem drífur hann áfram.

spot_img
spot_img
spot_img
Oddur Freyr Þorsteinsson
Oddur Freyr Þorsteinsson
Greinahöfundur á MMAFréttir.is
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular