spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaMagnús Loki: Var bara drullu stressaður

Magnús Loki: Var bara drullu stressaður

Magnús ‘Loki’ Ingvarsson vann sinn annan atvinnubardaga í MMA um síðustu helgi. Magnús er núna 2-0 sem atvinnumaður og stefnir á að taka léttvigtarbelti Caged Steel í lok árs.

Magnús sigraði Percy Hess um síðustu helgi með armlás eftir aðeins 65 sekúndur. Þegar við heyrðum í Magnúsi var hann að berjast við flensuna en af einhverjum ástæðum er Magnús alltaf veikur vikuna eftir bardaga.

„Held að þetta sé bara taugakerfið. Síðasta vikan fyrir bardaga er ógeðslega erfið, maður er vatnslosandi, skera niður, borða lítið og svo eftir bardagann byrjar maður að borða það sem maður vill. Ég held að líkaminn sé að bregðast við einhverjum svakalegum breytingum. Ég veit það svo sem ekki, þetta gæti líka verið ógeðslega mikil tilviljun,“ segir Magnús.

Ferlið í kringum bardagann og bardaginn sjálfur gekk eins og í sögu fyrir utan eitt smávægilegt vandamál – í síðustu viku gat hann ekki hreyft hausinn!

„Það gekk allt ótrúlega vel en í síðustu viku þá vakna ég með svo rosalegan hálsríg að ég bara gat ekki hreyft á mér höfuðið og þurfti að sleppa síðustu æfingavikunni. Gat rétt svo farið að hlaupa eða kýlt í padsa til að ná síðustu kílóunum af. Ég gat ekkert gert fyrst, gat ekki kýlt frá mér og var bara fastur. En Dammý [Dagmar Hrund, nuddari] tók mig í gegn og pakkaði mér saman tvo daga í röð. Ég var síðan bara ágætur á laugardeginum.“

„Upphitunin var stutt þar sem það var alveg 30 stiga hiti í höllinni. Eftir nokkur högg var ég strax orðinn frekar heitur en það gekk allt ágætlega vel. Niðurskurðurinn gekk líka vel en baðið [til að taka síðustu kílóin af] var einstaklega gott. Ég var búinn að bæta aðeins á mig vöðvamassa og var orðinn frekar köttaður þegar ég byrjaði að skera niður. Vatnið rann samt helvíti vel úr mér. Tók 3 kg í einu sessioni sem var fáranlegt. Var í baðinu í 20 mínútur, 40 mínútur í plastgallanum og svo var ég bara 70 kg þegar ég steig á vigtina.“

Percy Hess er ekki með glæsilegt bardagaskor, bardaginn var settur saman á síðustu stundu og var Magnús talinn sigurstranglegri fyrir bardagann. En var það truflandi fyrir bardagann vitandi það að Magnús væri líklegri til sigurs?

„Ég er bara þannig að mér finnst ég performa best undir pressu. Og í rauninni hef ég sjaldan verið jafn stressaður fyrir bardaga og núna, ég var bara drullu stressaður. Mér var spáð sigri fyrir þennan bardaga og ég átti bara að vinna hann og það gerði mig ógeðslega stressaðan því hann var ógeðslega game þessi gæji, alveg frá byrjun. Ég átti alls ekki erfitt með að koma mér í fókus því ég hef sjaldan verið jafn stressaður.“

Hess byrjaði bardagann strax á nokkrum spörkum og var kominn til að láta finna fyrir sér. „Ég ætlaði að byrja strax að sækja eins og ég geri alltaf, hljóp inn að miðju en hann mætti mér og þá hugsaði ég bara ‘ok, þetta er að byrja’. Ég hefði búist við að hann yrði smá til baka og myndi reyna að nýta sér það að ég yrði aggressívur. En hann byrjaði bara strax á einhverju hringsparki og hásparki og þá sá ég að hann var f**king stressaður, ég sá það líka bara á honum þegar ég tók í höndina á honum fyrir bardagann. Mér fannst ég bara vera með hann og þyrfti bara að bíða eftir mínu tækifæri þannig að ég var ekkert að flýta mér. Síðan skítur hann í fellu sem var eitthvað sem ég bjóst alls ekki við, en þá vissi ég að ég væri með þetta.“

Þrír liðsfélagar Magnúsar úr RVK MMA börðust sama kvöld. Aron Kevinsson tapaði eftir dómaraákvörðun, Benedikt Gabríel Benediktsson tapaði eftir rothögg í 2. lotu og Þorgrímur Þórarinsson vann millivigtartitil bardagasamtakanna með sigri eftir dómaraákvörðun. Magnús fylgdist ekkert með liðsfélögum sínum berjast enda hefur það truflandi áhrif á einbeitinguna hjá honum fyrir bardaga.

„Ég er ekki enn búinn að sjá neinn bardaga. Ég vil bara vera í fókus baksviðs áður en ég berst. Ég hef gert það áður að horfa á liðsfélagana mína keppa áður en ég berst en ég er svo mikil tilfinningavera að ég byrja strax að öskra og fer í gírinn með þeim. Þá er ég bara orðinn hás og móður og brjálaður eða ógeðslega glaður frammi en ég vil ekki vera í þeim gír rétt fyrir bardaga.“

Bróðir Magnúsar, Bjarki Þór Pálsson, er einn af stofnendum RVK MMA þar sem Magnús æfir. Magnús kemur ekki að rekstrinum á félaginu og getur því alfarið einbeitt sér að æfingum og þjálfun.

„Ég er bara þjálfari, kem ekkert að rekstrinum, það eru aðrir í því. Ég fór ekki inn sem hluthafi, fór inn bara sem þjálfari og það hefur sjaldan gengið jafn vel að æfa. Bjarki Þór er bara búinn að vera undanfarið að fókusa á að þjálfa og þjálfar mig í leiðinni. Það hefur aldrei verið jafn mikill fókus á mér, Bjarki er alveg hreinskilinn við mig, segir hvað ég þarf að bæta, hvað ég þarf að gera og hvað honum finnst. Skafar ekki af neinu fyrir mig. Hann er bara með betri þjálfurum sem ég hef nokkurn tímann haft. Annars eru rosa litlar skyldur fyrir mig hjá RVK MMA, ég þjálfa bara tíma og æfi sjálfur og hef ógeðslega gaman af því.“

Magnús tekur sér nú tveggja vikna sumarfrí frá æfingum áður en hann heldur áfram með ferilinn. Hann hefur ekki ákveðið hvenær nákvæmlega hann berst næst en býst við að fá titilbardaga um léttvigtartitil Caged Steel á þeirra næsta bardagakvöldi sem verður í desember. Annars er allt galopið hjá honum og aldrei að vita nema fleiri tækifæri komi upp.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular