Friday, March 29, 2024
HomeForsíðaMánudagshugleiðingar eftir tvö UFC bardagakvöld

Mánudagshugleiðingar eftir tvö UFC bardagakvöld

Í fyrsta skipti í sögu samtakanna hélt UFC tvö bardagakvöld sama daginn í tveimur mismunandi löndum. Á laugardeginum var UFC með bardaga í Berlín í Þýskalandi og í Brasilíu en 22 UFC-bardagar fóru fram á laugardaginn.

Þetta uppátæki UFC, að hafa tvö bardagakvöld sama dag í sitt hvoru landinu, virðist hafa heppnast ágætlega. Fyrir utan þau mistök að dúkurinn sem átti að vera í UFC-búrinu í Berlín var óvart sendur til Brasilíu þá gekk þetta nokkuð vel fyrir sig. Af þeim sökum voru engar auglýsingar á dúknum í búrinu í Berlín. Í lok júní mun UFC aftur halda tvö bardagakvöld sama dag, annað í Nýja-Sjálandi og hitt í Bandaríkjunum.

mousasi
Mousasi átti ekki í miklum vandræðum með Munoz.

Gegard Mousasi sigraði Mark Munoz afar sannfærandi og fær sennilega Tim Kennedy eða Luke Rockhold næst. Hann hefur lengi verið vinsæll meðal bardagaaðdáenda og telja margir að nú sé hans tími loksins kominn. Mousasi virðist hafa allt til brunns að bera til að komast að efstu mönnum í millivigtinni en fram að Munoz bardaganum hafði framganga hans í UFC ollið ákveðnum vonbrigðum.

Dagar Mark Munoz sem topp millivigtarmanns eru sennilega taldir en hann hefur nú tapað þremur af síðustu fjórum bardögum. Hann gæti hugsanlega lagt hanskana á hilluna en þessi 36 ára glímumaður gæti haldið áfram að berjast og þá gegn minni spámönnum. Hann er virtur sem þjálfari og gæti hæglega snúið sér að því núna en líklegast er hann ekki tilbúinn að hætta alveg strax.

Niklas Backström sigraði Tom Niinimaki óvænt eftir óvenjulega hengingu í fyrstu lotu. Backström var augljóslega í tilfinningalegu uppnámi eftir bardagann en hann hefur lengi glímt við mikla fátækt. Þessi sigur, og þá sérstaklega 60.000 dollar sigurbónusinn hans, hefur sennilega breytt lífi hans. Það er ekki langt síðan Backström hafði bara efni á að borða hrísgrjón og túnfisk í dós á útsölu, klæddist gömlum slitnum fötum og leigði lítið herbergi í Stokkhólmi. Það er því skiljanlegt að hann hafi verið í miklu uppnámi eftir sigurinn og er vel að sigrinum kominn.

Miocic-Maldonado
Það tók Miocic ekki nema 35 sekúndur að sigra Maldonado.

Stipe Miocic leyfði Fabio Maldonado að finna muninn á kraftinum í þungavigt og í léttþungavigt. Miocic sigraði með tæknilegu rothöggi eftir aðeins 35 sekúndur í fyrstu lotu og augljóst að Maldonado átti aldrei heima í búrinu með Miocic. Maldonado keppir í léttþungavigt, og er þar að auki frekar lítill þar, bauðst til að taka bardagann eftir að Junior Dos Santos meiddist. UFC neyddist til að setja Brasilíumann gegn Miocic þar sem ekki var nægur tími fyrir þá að afla landvistarleyfis auk þess sem Globo sjónvarpsstöðin (stöðin er í samstarfi við UFC) krefst þess að hafa Brasilíumann í aðalbardaganum.

Það voru margir skemmtilegir bardagar um helgina en 22 bardagar er eflaust full mikið fyrir marga bardagaáhugamenn. Þetta virðist þó vera eitthvað sem UFC ætlar að halda áfram að prófa þar sem þeir halda áfram útbreiðslu vörumerkis síns um allan heim.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular