Thursday, July 18, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíða10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í júní 2014

10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í júní 2014

Það er lítið um risastóra bardaga í júní en það eru samt nokkrir mjög áhugaverðir. Rússneska eimreiðin heldur áfram innrás sinni, Andrei „The Pit Bull“ Arlovski snýr aftur og það ætti að skýrast hvort það verður Rory MacDonald eða Tyron Woodley sem er næstur í röðinni í veltivigt en Robbie Lawler berst við Matt Brown um hver fær næst að berjast við Johny Hendricks eins og kunnugt er. Kíkjum yfir þetta.

dos-anjos-x-high

10. UFC Fight Night 42, 7. júní, Rafael dos Anjos gegn Jason High (léttvigt)

Jason High er ekki stórt nafn en hann er reynslumikill og hefur unnið 9 af síðustu 10 bardögum en tapið var á móti Erick Silva. Hann fær hér stórt tækifæri á móti dos Anjos sem hefur unnið nöfn á borð við George Sotiropoulos, Evan Dunham og Donald Cerrone. Báðir eru afburða glímumenn þó með ólíka stíla.

Spá: Þessi bardagi endar nánast örugglega í gólfinu. High mun standa sig vel en dos Anjos sigrar á stigum.

swanson stephens

9. UFC Fight Night 44, 28. júní, Cub Swanson gegn Jeremy Stephens (fjaðurvigt)

Cub Swanson vill fá að berjast um belti og gæti verið pirraðar að þurfa að mæta Stephens eftir að hafa unnið fimm bardaga í röð. Stephens hefur hin svegar unnið þrjá í röð svo bardaginn er ekki alveg galinn.

Spá: Báðir eru höggþungir en Swanson er tæknilega betri. Hann er hreyfanlegri og notar fjölbreyttari högg og spörk. Stephens getur klárað hvern sem er með rétta högginu en honum mun ekki takast það að þessu sinni. Stephens er harður og þraukar til enda en Swanson sigrar sannfærandi á stigum.

Bader feijao

8. UFC 174, 14. júní, Ryan Bader gegn Rafael Cavalcante (létt þungavigt)

Þetta er bardagi sem Ryan Bader þarf að vinna ef hann vill halda sér nálægt toppnum í létt þungavigt. Hann tapar yfirleitt fyrir þeim bestu (Teixeira, Machida, Jones) en má ekki við að tapa fyrir „Feijão“. Cavalcante er hættulegur, hann hefur rota menn á borð við Yoel Romero, King Mo og Igor Pokrajac og er auk þess með svart belti í jiu-jitsu.

Spá: Bader gæti tekið Cavalcante niður en mun sennilega reyna að láta höggin flæða fyrst. Við spáum því að Bader roti Cavalcante í fyrstu lotu.

te huna marquart

7. UFC Fight Night 43, 28. júní, James Te Huna gegn Nate Marquardt (millivigt)

Þessi bardagi verður aðalbardagi UFC bardagakvöldsins í Nýja-Sjálandi en þetta verður í fyrsta sinn sem UFC heldur til Nýja-Sjálands. Te Huna býr í Ástralíu en hann er upphaflega frá Nýja-Sjálandi. Þetta er frekar skrítinn bardagi. Te Huna er búinn að tapa tveimur bardögum í röð á meðan Marquart er búinn að tapa þremur í röð, fjögur af þessum fimm töpum hafa verið í fyrstu lotu. Báðir eru hins vegar klassa bardagamenn svo bardaginn ætti að verða góður. Þetta verður fyrsti bardagi Te Huna í millivigt.

Spá: Báðir eru undir mikilli pressu að vinna þennan bardaga. Te Huna er yngri, ferskari og sennilega stærri. Te Huna rotar Marquart í annarri lotu.

JuryVsTrujillo

6. UFC Fight Night 44, 28. júní, Abel Trujillo gegn Myles Jury (léttvigt)

Þeir sem sáu Trujillo berjast við Jamie Varner í febrúar vita að hann berst eins og brjálæðingur þar til annar liggur í valnum. Jury er andstæðan. Hann er tæknilegur en getur klárað bardaga með höggum eða uppgjafartaki. Jury sigraði síðast Diego Sanchez örugglega á UFC 171.

Spá: Þessi bardagi er fyrst og fremst próf fyrir Jury. Hann er ósigraður, er búinn að vinna fimm bardaga í UFC og þarf nú að sýna að hann sé einn af þeim bestu. Búist við að Jury geri það og klári Trujillo í þriðju lotu þegar Abel er farinn að þreytast.

Moraga-Dodson

5. UFC Fight Night 42, 7. júní, John Moraga gegn John Dodson (fluguvigt)

Þessir tveir eru báðir búnir að berjast við „Mighty Mouse“. Það sem ekki allir vita er að Dodson og Moraga hafa barist áður. Þeir mættust í Nemesis Fighting árið 2010 þar sem Dodson sigraði á stigum. Nú fær Moraga tækifæri til að hefna sín.

Spá: Þetta eru tveir af þeim bestu í þyngdarflokknum, þetta er því mjög mikilvæg viðureign. Dodson er mjög erfiður viðureignar og ætti að sigra, kannski á síðbúnu rothöggi.

arlvoski schaub

4. UFC 174, 14. júní, Andrei Arlovski gegn Brendan Schaub (þungavigt)

Það bjuggust fáir við að sjá Arlovski aftur í UFC en 14. júní mun hann stíga inn í búrið á móti Brendan Schaub. Þetta er bardagi sem Arlovski getur unnið unnið og það er nánast öruggt að hann fer ekki í dómaraúrskurð.

Spá: Schaub er betri á gólfinu og hann mun sennilega reyna að ná Arlvoski niður og klára hann með uppgjafartaki. Arlovski er hins vegar með fína felluvörn og góða vörn gegn uppgjafartökum. Hann mun því verjast þessum tilraunum og rota Schaub í annarri lotu.

Khabilov-Henderson

3. UFC Fight Night 42, 7. júní, Ben Henderson gegn Rustam Khabilov (léttvigt)

Khabilov hefur unnið sína fyrstu þrjá bardaga í UFC og hann leit mjög vel út á móti hinum seiga Jorge Masvidal. Henderson er stórt stökk upp á við fyrir hann og mun segja okkur mikið um hvar hann stendur í léttvigt. Af 9 bardögum í UFC hefur Henderson aðeins tapað einum, gegn Anthony Pettis í ágúst í fyrra þar sem hann tapaði titlinum. Það má kannski deila um suma bardagana en hann finnur oftast leið til að sigra.

Spá: Henderson gerir það sem Henderson gerir. Bardaginn fer fram og til baka en Benson sigrar á stigum eftir fimm lotur. Niðurstaðan verður ekki umdeild að þessu sinni.

JohnsonBagautinov

2. UFC 174, 14. júní, Demetrious Johnson gegn Ali Bagautinov (fluguvigt)

Sigur T.J. Dillashaw á Renan Barão gerir svona bardaga ósjálfrátt meira spennandi. Allt í einu virðist allt vera mögulegt. Ali Bagautinov er jú búinn að sigra 11 bardaga í röð og hefur litið mjög vel út í sínum þremur UFC bardögum. „Mighty Mouse“ Johnson er hins vegar mjög erfiður viðureignar.

Spá: Bestu möguleikar Bagautinov eru að ná Johnson í gólfið en það er hægara sagt en gert. Ef hann nær Johnson niður er líka mjög erfitt að halda honum þar. Bagautinov sýndi á móti Tim Elliott hversu góður hann er í gagnhöggum, vandamálið er að Johnson er sennilega hraðasti bardagamaðurinn í UFC. Johnson sigrar sannfærandi á stigum.

woodley macdonald

1. UFC 174, 14. júní, Tyron Woodley gegn Rory MacDonald (veltivigt)

Það má færa rök fyrir því að Johnson/Bagautinov bardaginn ætti að vera nr. 1 af því að það er titilbardagi. En spurðu þig, hvorn bardagann myndir þú velja ef þú gætir bara séð einn? Þessi bardagi á milli MacDonald og Woodley er gríðarlega mikilvægur í veltivigt. Sigurvegarinn í þessum bardaga er að öllum líkinum næstur í röðinni á eftir titlinum þegar sigurvegarinn af Matt Brown gegn Robbie Lawler hefur barist við Johny Hendricks.

Spá: Þessi gæti farið á báða vegu. Woodley gæti beitt sömu aðferð og Lawler, þ.e. pressað, náð inn þungum höggum og gagnhöggum til að koma MacDonald úr jafnvægi. Rory er góður í að halda fjarlægð og getur haldið mönnum frá með spörkum og fastri stungu. Við spáum því að sú aðferð dugi ekki gegn Woodley sem mun pressa með höggum og leitast til að ná fellum. Woodley sigrar á stigum

RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -spot_img

Most Popular