Friday, April 19, 2024
HomeForsíðaMánudagshugleiðingar eftir UFC 173

Mánudagshugleiðingar eftir UFC 173

t.j.dillashawUFC 173 fór fram síðasta laugardagskvöld og var frábær skemmtun. Það er af nógu að ræða eftir bardaga helgarinnar þar sem TJ Dillashaw varð meistari og Ellenberger olli vonbrigðum.

Fyrir bardaga TJ Dillashaw og Renan Barao voru fáir sem reiknuðu með sigri Dillashaw. Stuðullinn á sigri Dillashaw var afar hár og fyrir bardagann var mest megnis talað um hvar Renan Barao væri á lista yfir bestu bardagamenn heims pund fyrir pund. Eins og bardagaáhugamönnum er kunnugt um gjörsigraði Dillashaw meistarann og rotaði í fimmtu lotu. Þetta eru einhver óvæntustu úrslit í sögu MMA, ekki bara útkoman heldur einnig yfirburðir Dillashaw. Samkvæmt stuðlum veðbankanna eru þetta þriðju óvæntustu úrslitin í sögu MMA. Aðeins Matt Serra gegn GSP og  Joey Beltran gegn Rolles Gracie voru með hærri stuðla.

 

Þetta kemur ekki bara bardagaáhugamönnum á óvart heldur líka UFC og EA Sports. EA Sports framleiðir næsta UFC tölvuleikinn en þar er bantamvigtarmeistarinn sjálfur ekki með! Það verður þó að teljast ansi líklegt að TJ Dillashaw verði fáanlegur í aukapakka sem hægt verður að niðurhala.

dillashaw gif
Höggið sem byrjaði þetta allt.

Daniel Cormier gerði það sem flestir bjuggust við að hann myndi gera, sigra Dan Henderson örugglega. Að margra mati ætti Dan Henderson að segja þetta gott og leggja hanskana á hilluna en sá gamli var ekkert á þeim buxunum á laugardaginn. Joe Rogan virtist vera að fiska eftir því að Hendo myndi setjast í helgan stein í viðtalinu eftir bardagann en Hendo ætlar að halda áfram. Cormier ætlar að bíða eftir titilbardaga gegn Jon Jones en líklegast mætir meistarinn Alexander Gustafsson í ágúst.

Robbie Lawler sýndi enn eina frábæra frammistöðuna í endurkomu sinni í UFC en Jake Ellenberger átti nánast ekkert í hann. Lawler ætlar sér að berjast aftur um titilinn og þarf líklegast bara einn sigur í viðbót til að komast í titilbardaga. Bardagi gegn Matt Brown gæti verið eitthvað sem UFC gæti gert en sá bardagi gæti orðið rosalegur!

Í annað sinn í röð mætir Jake Ellenberger í stóran bardaga og gerir nánast ekkert. Í hvert sinn sem Ellenberger sótti á Lawler fékk hann högg í sig. Þegar Ellenberger opnaði sig loksins og sótti meira náði hann að vanka Lawler en braut hugsanlega á sér höndina í leiðinni. Það var í raun það eina sem hann gerði allan bardagann og þarf virkilega að skoða sinn gang eftir tvær afar daprar frammistöður í röð.

lawler ellenberger

Eins leiðinlegt og það var að sjá Jamie Varner brjóta á sér ökklann er ekki annað hægt en að dást að hjartanu sem hann sýndi með því að reyna að halda áfram. Eftir 1. lotuna hafði hann þó vit fyrir því að halda ekki áfram enda hefði það verið óðs manns æði. Hugsanlega hefði dómarinn átt að stöðva bardagann fyrr í fyrstu lotu þar sem það var augljóst að Jamie Varner gat ekki staðið í ökklann.

Í heildina mjög skemmtilegt bardagakvöld en næsta UFC kvöld er á laugardaginn í Þýskalandi.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular