spot_img
Friday, November 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC 202

Mánudagshugleiðingar eftir UFC 202

conor mcgregor ufc 202UFC 202 var eitt besta bardagakvöld ársins og verður lengi í minnum haft. Það vantar ekki umræðuefnin eftir bardagakvöldið en hér eru Mánudagshugleiðingarnar.

Conor McGregor sigraði Nate Diaz eftir dómaraákvörðun í mögnuðum bardaga. Conor byrjaði mjög vel og kýldi Diaz þrisvar niður fyrstu tvær loturnar. Nate Diaz hefur þó margoft sýnt að það þarf mikið til að stoppa hann. Hann kom sterkur til baka og þjarmaði að Conor í 2. og 3. lotu.

Enginn hefur verið jafn feginn og Conor þegar bjallan glumdi í lok þriðju lotunnar. Conor lifði af en tæpara mátti það ekki vera. Útlitið ekki bjart hjá Conor og óttuðust aðdáendur hans að endurtekning úr fyrri bardaga þeirra væri í vændum.

En Conor sýndi að hann hefur vaxið sem bardagamaður. Hann breytti leikáætlun sinni örlítið í 4. lotu og hægði á Diaz með skrokkhöggum og stungu. Sú lota skilaði honum sigrinum.

Það má ekki heldur gleyma lágspörkunum hjá Conor. Hann hefur áður sagt að hann beiti aldrei lágspörkum og hafði það áhrif á hann í bardaganum. Hann haltraði eftir bardagann enda sparkaði hann nokkrum sinnum í hné Nate Diaz með sköflunginn. Auk þess kom hann inn í bardagann smá lemstraður á ökkla eftir að hafa æft lágspörkin. Lágspörkin og framspörkin voru einu spörkin hans í bardaganum og kom hann nánast aldrei með stóru hringspörkin líkt og í fyrri bardaganum.

Þau spörk taka talsvert meiri orku og var Conor greinilega varkár með orkuna sína. Hann missti sig ekki þegar hann kýldi Diaz niður og hélt ró sinni. Síðast nýtti hann orkuna illa en núna var annað upp á teningnum.

Bardaginn var stórkostleg skemmtun og sérstaklega fyrir þá sem horfðu á þetta í beinni útsendingu. Báðir bardagamenn lærðu mikið um sjálfan sig fyrir allra augum. Báðir bardagamenn gáfu allt sem þeir áttu í bardagann og sýndu hjarta og hörku sem meðalmaðurinn gæti aldrei gert. Þess vegna horfum við á íþróttir. Til að sjá eitthvað ótrúlegt frá mögnuðum keppendum, gera hluti sem við gætum aldrei gert.

Kappanir munu núna fara ólíkar leiðir þar til þeir mætast næst. Við vitum í raun ekkert hvað Conor ætlar að gera næst en hann virtist ekkert alltof spenntur fyrir þeirri tilhugsun að mæta Jose Aldo aftur. Nate Diaz ætlar þó ekki að berjast við neinn þar til þriðji bardaginn við Conor verður.

anthony-johnson-ufc-202

Anthony Johnson tók aðeins 12 sekúndur í að klára Glover Teixeira. Þessi maður er ansi ógnvekjandi í búrinu og hefur núna rotað þrjá andstæðinga í röð. Hann mun að öllum líkindum mæta Daniel Cormier næst svo lengi sem Jon Jones fái ekki að koma óvænt aftur. Það liggur við að það eigi að banna Anthony Johnson, svo höggþungur og ógnvekjandi er hann þessa dagana.

Glover Teixeira bað um Anthony Johnson og fékk þetta í staðinn. Það er samt ekki annað hægt en að dást að hugrekkinu hans enda fáir sem óska eftir bardaga gegn Anthony Johnson.

Donald Cerrone heldur áfram að sýna magnaða tilburði í veltivigtinni. Fléttan sem hann notaði til að klára Rick Story var eins og úr tölvuleik – hvert einasta högg hitti og hefði þetta ekki getað verið betra fyrir Cerrone.

Kúrekinn er á áhugaverðum stað núna. Hann sagðist ætla að fara aftur niður í léttvigtina til að mæta núverandi meistara, Eddie Alvarez, sem Cerrone sigraði árið 2014. Dana White var þó ekki á sama máli og vill frekar hafa Cerrone í veltivigtinni. Þess má geta að þetta var síðasti bardaginn á núgildandi samningi Cerrone við UFC. Vonum þó að Cerrone haldi áfram á sömu braut hvar sem hann berst næst.

Cody Garbrandt var ekki lengi að klára Takeya Mizugaki. Þetta 48 sekúndna rothögg kemur Garbrandt ansi framarlega í röðinni fyrir næsta titilabardaga í bantamvigtinni. Dominick Cruz var á staðnum í stúdíóinu hjá Fox Sports og virtist vera spenntur fyrir tilhugsuninni um að mæta Garbrandt. T. J. Dillashaw og Bryan Caraway gætu þó verið á undan Garbrandt í röðinni.

Lorenz Larkin kom mörgum á óvart og gjörsigraði Neil Magny. Larkin var ekki á styrkleikalistanum fyrir bardagann en Magny var í 7. sæti. Þetta á eftir að skjóta Larkin upp listann og mun hann fá enn stærri tækifæri næst.

Þetta var fyrsta helgin af níu þar sem við fáum UFC bardagakvöld. Það er því mikið af bardögum framundan og nóg um að vera. Næstu helgi mætast þeir Demian Maia og Carlos Condit í aðalbardaganum á UFC on Fox 21 bardagakvöldinu.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular