0

Mánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night: Gastelum vs. Belfort

Núna um helgina fór fram UFC bardagakvöld í Brasilíu. Kvöldið var vel hlaðið af þekktum nöfnum og bauð upp á allt mögulegt. Það voru gamlar stjörnur, mikilvægir bardagar í millivigt, léttvigt og fluguvigt, efnilegir nýliðar, rotarar og sterkir glímukappar.

Í aðalbardaga kvöldsins mætti goðsögnin Vitor Belfort fyrrum veltivigtarmanninum Kelvin Gastelum. Hinn yngri og ferskari Gastelum leit frábærlega út í hans síðasta bardaga gegn Tim Kennedy þar sem hann sýndi hvað hann getur í millivigt. Allir vita hvað Belfort er hættulegur í fyrstu lotu, þrátt fyrir aldur. Spurningin var því sú sama og alltaf, kemst andstæðingurinn í gegnum fyrstu mínúturnar gegn Belfort? Vitor er enn með hraðar hendur eins og fljótt kom í ljós. Kelvin kom sér hins vegar undan og tók hann á eigin bragði, tæknilegt rothögg í fyrstu lotu. Frábær niðurstaða fyrir Gastelum sem er greinilega einn af þeim bestu í millivigt.

Það er alltaf að koma betur í ljós hvað það er mikil vitleysa að létta sig of mikið fyrir bardaga. Nú höfum við nýlega séð Kelvin Gastelum og Donald Cerrone ganga mjög vel í hærri þyngdarflokki. Johny Hendricks leit einnig vel út í millivigt fyrir stuttu og á móti leit Rashad Evans ekki betur út í lægri þyngdarflokki um síðustu helgi. Það er því ekki endilega betra að þvinga sig í eins lágan þyngdarflokk og maður mögulega kemst í. Ekki beint nýjar upplýsingar en þetta er alltaf að verða skýrara.

Í næstsíðasta bardaganum mætti til leiks gamla brasilíska stjarnan Shogun Rua gegn vini Chris Weidman, Gian Villante. Frábært tækifæri fyrir Villante en hann virkaði stífur og hægur og Shogun var einfaldlega miklu betri þrátt fyrir slit. Það leit út fyrir að Villante ætlaði að halda út allar loturnar en Shogun kláraði bardagann í þriðju lotu með glæsilegri fléttu. Shogun er sennilega ekki að fara að sigra topp fimm skrímslin í léttþungavigt en sýndi að hann er ekki alveg búinn að vera.

Í léttvigt mættust þeir Beneil Dariush og Edson Barboza í bardaga sem margir biðu spenntir eftir og olli engum vonbrigðum. Dariush kom Barboza úr jafnvægi með mikilli pressu og braut hann niður með góðum árangri, þ.e. þar til ljósin slökknuðu. Í annarri lotu tímasetti Barboza rosalegt hné, Dariush dýfði sér beint inn í það og steinrotaðist. Magnað rothögg hjá þessum frábæra sparkboxara sem sýnir enn og aftur að hann er alltaf hættulegur og „must see TV“.

Í fluguvigt mættust tveir topp 10 bardagamenn, þeir Jussier Formiga og Ray Borg. Formiga hefur lengi verið á meðal þeirra allra bestu í þyngdarflokknum en hefur enn ekki fengið að berjast um titilinn gegn Demetrious Johnson. Borg hefur verið á hraðri uppleið en hann rústaði Louis Smolka í hans síðasta bardaga. Bardaginn var jafn og nokkuð spennandi en það var Borg sem tók þetta á stigum og náði mögulega að troða sér fremst í röðina. Eftir bardagann skoraði hann á meistarann svo það kæmi ekki á óvart að sjá hann í titilbardaga innan nokkurra mánaða. Það er samt erfitt að sjá annan þessara manna sigra Demetrious Johnson en hver veit.

Jafntefli eru frekar sjaldgæf úrslit í UFC en þannig fór þriggja lotu bardagi Bethe Correia og Marion Reneau. Líklegast hefur Correia tekið fyrstu tvær og Reneau fengið 10-8 fyrir síðastu lotuna. Reneau var hársbreidd frá því að klára bardagann í þriðju lotu en Correia sýndi stórt hjarta og lifði af. Þessar tvær eru ekki líklegar til að gera mikið í þyngdarflokknum en bardaginn var ágætis skemmtun.

Alex ‘Cowboy’ Oliveira náði fram hefndum gegn Tim Means í fyrsta bardaga á aðalhluta bardagakvöldsins. Fyrsti bardaginn endaði eftir ólöglegt hné Means en hér kláraði Oliveira bardagann með „rear-naked choke“ í annarri lotu. Þetta hlýtur að hafa verið sérstaklega sætur sigur fyrir Oliveira en hann heldur áfram að líta betur og betur út.

Kevin Lee gegn Francisco Tinaldo

Fyrr um kvöldið var frábær bardagi í léttvigt á milli Kevin Lee og Franciso Trinaldo. Bardaginn var mikilvægur fyrir báða menn, Trinaldo hafði unnið sjö bardaga í röð en að lokum var það Kevin Lee sem sigraði með „neck crank“ í annarri lotu. Báðir eru menn sem vert er að hafa auga með í þyngdarflokknum, kæmi ekki á óvart á sjá báða klifra upp í topp 10 á næstu árum.

Rani Yaha og Rony Jason þurftu að sætta sig við tap á heimavelli en nýliðinn Paulo Henrique Costa stóð undir miklum væntingum og valtaði yfir Suður-Afríkubúann Gareth McLellan á nokkrum sekúndum. Það verður gaman að fylgjast með honum. Allt í allt var þetta ansi gott kvöld.

Næsta bardagakvöld fer svo fram í London nú á laugardaginn þegar okkar maður, Gunnar Nelson, mætir Alan Jouban.

Óskar Örn Árnason

Óskar Örn Árnason

- Blátt belti í jiu-jitsu
- MS í fjármálum fyrirtækja
Óskar Örn Árnason

Comments

comments

Óskar Örn Árnason

Leave a Reply