Dana White, forseti UFC, sagði í gærkvöldi að fluguvigtartitill kvenna sé nú laus. Nicco Montano hefur verið svipt titlinum og er því engin með beltið í nýjasta þyngdarflokki UFC.
Fluguvigt kvenna var sett á laggirnar í fyrra með nýrri seríu The Ultimate Fighter. 16 konur börðust um að verða fyrsti fluguvigtarmeistari kvenna í UFC og stóð Nicco Montano uppi sem sigurvegari. Montano hefur verið mikið meidd síðan þá en fyrsta titilvörn hennar átti að vera í kvöld gegn Valentinu Shevchenko.
Í gærmorgun var hún hins vegar flutt upp á sjúkrahús vegna nýrnavandamála sem komu upp í niðurskurðinum og verður því enginn titilbardagi í fluguvigt í kvöld. UFC hefur því svipt hana titlinum og er hún ekki lengur fluguvigtarmeistari kvenna.
Shevchenko mun að öllum líkindum berjast í titilbardaganum sem UFC setur upp í flokknum en óvíst er hver andstæðingur hennar verður að þessu sinni. Vonir standa til að bardaginn fari fram á þessu ári.