0

Nokkrar ástæður til að horfa á UFC 226

UFC 226 fer fram í kvöld en um er að ræða eitt stærsta bardagakvöld ársins. Af nógu er að taka í leit að ástæðum til að horfa og væri hægt að telja fram ansi margar ástæður til að horfa í kvöld.

Sögulegur þungavigtarbardagi

Aðalbardagi kvöldsins verður á milli Stipe Miocic og Daniel Cormier. Léttþungavigtarmeistarinn Cormier getur skráð sig á spjöld sögunnar með sigri á Miocic en þar með yrði hann annar maðurinn í sögu UFC til að vera meistari í tveimur flokkum á sama tíma. Stipe Miocic hefur þegar bætt metið yfir flestar titilvarnir í þungavigtinni í UFC en með sigri verður metið enn glæsilegra.

Ngannou blaðran sprungin?

Francis Ngannou mætir Derrick Lewis í næstsíðasta bardaga kvöldsins. Ngannou er að koma til baka eftir sitt fyrsta tap í UFC og verður gaman að sjá hversu mikið hann lærði af tapinu erfiða gegn Stipe Miocic. Miocic sýndi hvernig á að vinna Ngannou og verður áhugavert að sjá hvort Lewis fylgi eftir sömu uppskrift. Ngannou varð fljótt þreyttur gegn Miocic og væri annað tap í röð afar slæmt fyrir Ngannou. Er hann bara sprungin blaðra sem fékk titilbardaga of fljótt eða getur hann komið sterkur til baka?

Hnefar munur fljúga!

Á aðalhluta bardagakvöldsins erum við með tvo bardaga þar sem litlar líkur eru á glímutilþrifum. Í fyrsta bardaganum á aðalhluta bardagakvöldsins mætast þeir Gökhan Saki og Khalil Rountree Jr. Í fimm bardögum í UFC hefur Rountree ekki einu sinni reynt að fara í fellu og er ólíklegt að sparkboxarinn öflugi, Gökhan Saki, fari í fellu. Þeir Mike Perry og Paul Felder eru ekki þekktir fyrir glímutækni sína heldur og gætu báðir þessir bardagar orðið hreinlega geggjaðir!

Næsti Vitor Belfort?

Nokkur spenna ríkir fyrir Paula Costa í UFC og hefur honum verið líkt við Vitor Belfort. Viðlíkingin er ekki svo vitlaus enda er Costa mjög hættulegur standandi, frá Brasilíu og lítur út fyrir að taka inn nóg af vítamínum. Hann mætir Uriah Hall í kvöld og stefnir í ansi góðan bardaga.

Ekki gleyma

Á kvöldinu er gríðarlegur fjöldi af frábærum bardögum. Auk fyrrgreindra bardaga eru nokkrar fleiri viðureignir sem verða skemmtilegar. Lando Vannata mætir Drakkar Klose en Vannata er alltaf skemmtilegur. Bardagi Dan Hooker og Gilbert Burns er annar bardagi kvöldsins en sjaldséð er að sjá svona gæðabardaga svona snemma á kvöldinu. Þeir Max Griffin og Curtis Millender hafa báðir átt góðu gengi að fagna en þeirra bardagi gæti orðið mjög skemmtilegur.

Fyrsti bardagi kvöldsins hefst kl. 23 en aðalhluti bardagakvöldsins hefst kl. 2 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Pétur Marinó Jónsson

Comments

comments

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Stöð 2 Sport -MMA fíkill

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.