Friday, September 20, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentNokkrar ástæður til að horfa á UFC Fight Night: Rockhold vs. Branch

Nokkrar ástæður til að horfa á UFC Fight Night: Rockhold vs. Branch

Í kvöld fer fram UFC bardagakvöld í Pittsburgh í Bandaríkjunum. Þar ber helst að nefna endurkomu Luke Rockhold en hér eru nokkrar ástæður til að horfa á bardagana í kvöld.

Luke Rockhold snýr aftur

Það er orðið alltof langt síðan einn besti, ef ekki sá besti, millivigtarmaður heims barðist. Luke Rockhold hefur ekkert barist síðan hann var rotaður af Michael Bisping í maí 2016. Þetta var hans fyrsta titilvörn og átti að vera leikur einn en Rockhold vanmat Bisping og var rotaður í 1. lotu. Rockhold átti svo að snúa aftur í nóvember í fyrra gegn Jacare Souza en meiddist skömmu fyrir bardagann.

Nú er hann loksins orðinn heill heilsu og mætir David Branch í kvöld. Þegar þessi bardagi var fyrst tilkynntur kom það mörgum á óvart enda sló Branch ekki beint í gegn í sínum síðasta bardaga. Á pappírum á Luke Rockhold að pakka David Branch saman en það sama var sagt fyrir hans síðasta bardaga.

Tveir klárarar

Mike Perry er einhver óvenjulegasti bardagamaður sem sést hefur í UFC á undanförnum árum. Hann er ekki skarpasti hnífurinn í skúffunni, segir undarlega hluti, fékk sér tattú á andlitið í fyrra og á vafasama fortíð. Það verður þó ekki tekið af honum að hann er mjög skemmtilegur bardagamaður og auðvitað skemmtilegur karakter líka. Allir tíu sigrar hans hafa verið eftir rothögg og er líklegt að við fáum eitt þannig í kvöld. Upphaflega átti Perry að mæta Thiago Alves en Alves gat ekki barist. Í hans stað kemur Alex Reyes með tæpum viku fyrirvara. Þetta verður frumraun hins þrítuga Reyes í UFC en hann hefur, líkt og Perry, klárað alla sigrana sína. Þó það hefði verið gaman að sjá Alves verður að teljast ansi líklegt að þetta verði einnig skemmtilegur bardagi.

Á Hector Lombard eitthvað eftir?

Hinn 39 ára Hector Lombard er nú með þrjú töp í röð eftir að hafa afplánað eins árs keppnisbann eftir fall á lyfjaprófi. Hann mætir Anthony Smith í kvöld og gæti fengið reisupassann með tapi. Smith er 3-1 í UFC og er þetta hans stærsti bardagi á ferlinum. Nær Lombard að rétta úr kútnum eða verður Smith nafn sem þarf að fylgjast með í framtíðinni?

Nígeríska martröðin

Kamaru ‘Nigerian Nightmare’ Usman er ein af vonarstjörnunum í veltivigtinni. Hann er 5-0 í UFC og skipar 13. sæti styrkleikalistans í veltivigtinni. Hann hefur aftur á móti aðeins klárað einn bardaga í UFC en hefur sýnt stöðugar framfarir. Í kvöld mætir hann Sergio Moraes sem er margfaldur heimsmeistari í brasilísku jiu-jitsu og unnið sex af síðustu sjö bardögum sínum. Þetta ætti að verða áhugaverður bardagi fyrir veltivigtina og áhugavert próf fyrir Usman.

Ekki gleyma

Bardagakvöldið er nokkuð spennandi en auk fyrrgreindra bardaga má sjá Uriah Hall mæta Krzysztof Jotko og Gilbert Burns mætir Jason Saggo í fyrsta bardaga kvöldsins. Justin Ledet gæti einnig verið spennandi nafn í þungavigtinni en hann er bara 28 ára gamall, ósigraður og hefur unnið báða bardaga sína í UFC. Hann mætir Azunna Anyanwu í fyrsta bardaganum á aðalhluta bardagakvöldsins.

https://www.youtube.com/watch?v=J5S3ArUqkIk

spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -spot_img

Most Popular