Sunday, April 28, 2024
HomeForsíðaSunna Rannveig: Ég átti að klára hana

Sunna Rannveig: Ég átti að klára hana

Mynd: Invicta FC.

Sunna Rannveig Davíðsdóttir vill endilega fá annan bardaga gegn Kailin Curran. Sunna tapaði fyrir Curran á Invicta mótinu í maí og hefur harma að hefna.

Sunna Rannveig mætti í Tappvarpið í vikunni þar sem hún fór yfir Phoenix Rising mótið hjá Invicta ásamt Hrólfi Ólafssyni sem var í horninu hjá henni.

Phoenix Rising var einnar nætur 8-kvenna útsláttarmót hjá Invicta þar sem sigurvegarinn varð nýr strávigtarmeistari bardagasamtakanna. Sunna tapaði fyrir Curran í fyrstu umferð en Curran fór alla leið í úrslit þar sem hún tapaði fyrir Brianna Van Buren.

Bardaginn var hnífjafn og sigraði Curran eftir klofna dómaraákvörðun. Eftir bardagann átti Sunna gott spjall við Curran og þjálfara hennar, Jason Parillo.

„Þar var bara strax farið að leggja línurnar fyrir öðrum bardaga okkar á milli. Það var góður mórall á milli okkar og var hörku bardagi. Samfélagsmiðlarnir voru á því að allir vildu sjá okkur taka heilan bardaga, hefði verið spennandi bardagi og svo voru ekki allir sammála úrskurði dómaranna. Það þarf bara að útkljá þetta mál,“ segir Sunna.

Mótið fór fram í maí og segir Sunna að samningaviðræður hafi staðið yfir milli umboðsmanns hennar, Haralds Nelson, og Invicta síðan mótið kláraðist um næstu skref. Núna sé bara spurning hvenær Sunna berst næst, hvar og gegn hverri.

Nýkrýndi meistarinn, Brianna Van Buren, er sögð vera búin að semja við UFC. Van Buren á að mæta Livia Renata Souza þann 13. júlí en hún er einnig fyrrum strávigtarmeistari Invicta.

„Það væri gaman að útkljá þetta, þá sef ég aðeins betur á nóttunni,“ segir Sunna. Strávigtarbeltið er því aftur laust og spurning hvort þær Sunna og Curran mætist aftur og þá mögulega í fimm lotu titilbardaga.

„Sunna mun taka þetta á þrautsegjunni en því lengra sem þetta fer, því líklegri er Sunna til að taka þetta. Sunna er mjög þrjósk og hún á mjög erfitt með að gefast upp,“ segir Hrólfur.

Sunna segir að hún hafi horft nokkrum sinnum á bardagann og viti í dag hvað fór úrskeiðis. Sunna segir að mistökin gætu hafa verið vegna fjarverunnar löngu vegna meiðsla eða vegna högganna sem hún fékk í byrjun og hafi þar af leiðandi verið örlítið vönkuð. Þrátt fyrir ágætis ástæður veit hún að bardaginn átti aldrei að fara í hendur dómaranna.

„Það er augnablik þarna þar sem ég geri mistök því ég átti að klára hana. Þetta átti aldrei að fara í hendurnar á dómurunum. Jújú ég lendi þessum höggum í gólfinu en ég kemst í drauma stöðuna mína og ég finn fyrir dómaranum standa og vara hana við að hann sé að fara að stoppa þetta af því ég er að slá hana þarna ofan frá og hún er ekkert að gera mikið. Ég kláraði tvo svona bardaga á Evrópumótinu í sömu drauma stöðunni. Dómarinn kemur alveg ofan í okkur og þá byrjar hún að bregðast við. Hún byrjar að hreyfa sig undir mér þannig að hún nær aðeins að snúa sér. Í stað þess að taka gift wrappið þá leyfi ég henni aðeins að sleppa og þar hefði ég bara átt að tryggja stöðuna, slá hana nokkrum sinnum í hausinn og dómarinn hefði annað hvort stoppað þetta eða hún hefði snúið aftur og ég náð choke-inu. Það er augnablik þarna sem ég get ekki hætt að hugsa um. Þegar ég fer að sofa á kvöldin þá hugsa ég um þetta augnablik aftur og aftur og aftur.“

„Þannig að fyrir mig að komast aftur á móti henni, hvort sem það eru þrjár lotur eða fimm lotur eða bara ein lotu, þá skiptir það ekki máli því ég þarf bara eina lotu. Ég lærði svo mikið af þessu. Ég er til í hvað sem er.“

Þau Sunna og Hrólfur fara betur yfir mótið og framhaldið í Tappvarpinu en þáttinn má hlusta á í heild sinni hér að neðan og í öllum helstu hlaðvarpsþjónustum.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular