Þrír Íslendingar munu keppa á Samurai Grappling Invitational mótinu á laugardaginn á Írlandi. Þeir Halldór Logi, Kristján Helgi og Jeremy Aclipen keppa allir á mótinu.
Strákarnir koma allir úr Mjölni og hafa undirbúið sig vel fyrir mótið. Halldór Logi Valsson keppir í 8-manna Elite Nogi +80kg flokki. Halldór er svart belti í brasilísku jiu-jitsu og eru sterkir keppendur á mótinu frá Bretlandseyjum. Sigurvegarinn fær 500 evrur og ef sigurvegarinn nær að sigra alla með uppgjafartaki fær hann styrk frá mótshöldurum í eitt ár.
Kristján Helgi Hafliðason keppir staka ofurglímu við svartbeltinginn Guilherme Toto í galla. Kristján keppti síðast á Battle Grapple í október þar sem hann vann sína glímu þar gegn svartbeltingi en Kristján er sjálfur brúnt belti í brasilísku jiu-jitsu.
Francis Jeremy Aclipen keppir ofurglímu við Kon Fennelly en báðir eru blátt belti í brasilísku jiu-jitsu.
Glímukvöldið verður sýnt beint á Facebook síðu Samurai Grappling hér. Jeremy er fyrstur af Íslendingunum en hann er í í 3. glímu kvöldsins. Uppröðun á glímunum má sjá hér að neðan en útsending hefst kl. 17:00 á íslenskum tíma.