spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentUFC 231: Getur Valentina Shevchenko loksins orðið meistari?

UFC 231: Getur Valentina Shevchenko loksins orðið meistari?

Á laugadagskvöldið mætast þær Valentina Shevchenko og Joanna Jedrzejczyk á UFC 231 kvöldinu. Þær hafa aldrei mæst í MMA en eiga sér þó forsögu.

Joanna Jedrzejczyk var um langt skeið meistarinn í strávigt kvenna (115 pund) í UFC en Valentina Shevchenko hefur að mestu barist í bantamvigt kvenna (135 pund) og sigrað stórar bardagakonur á borð við Holly Holm og Julianna Peña.

Áður en þessar tvær hófu innreið sína í MMA heiminn börðust þær í þrígang í Muay Thai, þ.e. árin 2006, 2007 og 2008. Þær börðust þá í 57 kg flokki sem er um 125 pund en það er einmitt þyngdarflokkurinn sem þær munu berjast í núna um helgina. Í öll þrjú skiptin sigraði Valentina Shevchenko sem ætti að gefa henni sjálfstraust fyrir bardaga helgarinnar.

Þó fyrri bardagarnir hafi verið í Muay Thai en ekki MMA gæti það gefið ágætis fyrirheit um bardaga laugardagskvöldsins. Báðar konur kjósa að halda bardaganum standandi í MMA og má því gera ráð fyrir að þessi bardagi haldist standandi nær allan tímann. Shevchenko er þó með ágætis köst sem hún gæti leitað í til að brjóta upp bardagann.

Joanna Jedrzejczyk er með góða pressu og notar stungu og lágspörk mikið til að saxa niður andstæðingana hægt og rólega. Valentina Shevchenko er þó mjög öflug í gagnárásunum og gæti það hentað henni vel að sitja til baka og leyfa Jedrzejczyk að pressa sig.

Þó tíu ár eru liðin frá síðustu viðureign þeirra má samt ekki gleyma andlega þættinum sem fylgir því að tapa fyrir sama andstæðingnum þrisvar. Joanna gæti verið sérstaklega ákveðin að sigra núna þar sem hún hefur þegar tapað fyrir Shevchenko þrisvar. Við höfum þó oft séð í íþróttum að sumir geta hreinlega ekki unnið ákveðna einstaklinga eða lið. Oft er um að ræða ákveðna andlega uppgjöf þar sem íþróttamaðurinn trúir ekki að hann geti unnið andstæðinginn sem hann hefur svo oft tapað fyrir áður.

Það er líka gaman að sjá fyrir þennan bardaga að þrátt fyrir alla þessa sögu er ekki vottur af hatri eða illindum á milli þeirra. Báðar hafa alltaf haldið með hvor annarri þegar þær voru að berjast í sitt hvorum flokknum.

Nú verður barist um lausan titil í nýlegum þyngdarflokki, fluguvigt kvenna. Nicco Montano vann titilinn í desember 2017 en ver hann ekki þar sem hún náði ekki vigt fyrir áætlaða titilvörn gegn Valentinu Shevchenko og var svipt titilinum. Í annað sinn í UFC var Shevchenko tilbúin að berjast en þurft að hætta við titilbardaga vegna vigtunarvandræða andstæðingsins (Montano á UFC 228 í haust) eða veikinda (Amanda Nunes sumarið 2017)

Shevchenko er sigurstranglegri fyrir bardagann og gæti loksins unnið titil í UFC. Einu tvö töp Shevchenko voru gegn Amöndu Nunes en seinna tapið var um bantamvigtartitilinn. Núna er Shevchenko í góðri stöðu til að verða loksins meistari í UFC í nýjum og spennandi þyngdarflokki.

Það verður spennandi að sjá hvort að Joanna Jedrzejczyk hafi lært eitthvað af töpunum fyrir um 10 árum síðan eða hvort Valentina Shevchenko sé einfaldlega betri og hirði þennan lausa titil.

spot_img
spot_img
spot_img
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular