spot_img
Sunday, December 1, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaUpphitun fyrir UFC 167 (annar hluti)

Upphitun fyrir UFC 167 (annar hluti)

ufc 167

Hér er annar hluti upphitunar fyrir UFC 167. Kvöldið fer fram á laugardagskvöldið og stefnir allt í frábæra veislu! Í þessum hluta ætlum við að líta á tvo bardaga, Rory MacDonald vs. Robbie Lawler og Rashad Evans vs. Chael Sonnen.

Rory MacDonald (15-1) vs. Robbie Lawler (21-9) – veltivigt

MacDonald er af mörgum talinn framtíðar meistarinn í veltivigt. Hann er aðeins 24 ára og virðist alltaf bæta sig milli bardaga. Síðast sigraði hann Jake Ellenberger í drepleiðinlegum bardaga þar sem MacDonald lét það nægja að nota einungis stunguna nánast allan bardagann. Vonandi verður þessi bardagi mun skemmtilegri en þó gæti MacDonald notað sömu leikáætlun og gegn Ellenberger þar sem þeir, Lawler og Ellenberger, eru báðir gríðarlega höggþungir. MacDonald tók fyrsta bardaga sinn aðeins 16 ára gamall en hann er hluti af nýrri kynslóð bardagamanna sem hafa æft MMA frá unga aldri en koma ekki frá annarri bardagaíþrótt. Eina tapið hans í MMA var gegn Carlos Condit en MacDonald var að sigra bardagann áður en Condit rotaði hann í lok bardagans.

Robbie Lawler hefur komið með ferskan blæ í veltivigtina frá því hann kom úr Strikeforce. Lawler var í UFC á sínum yngri árum en var látinn fara árið 2004 eftir tvö töp í röð. Hann hefur nú sigrað báða andstæðinga sína, Josh Koscheck og Bobby Voelker, í endurkomu sinni með rothöggi. 12 ár eru síðan Lawler tók sinn fyrsta bardaga en hann byrjaði 16 ára gamall að æfa hjá Pat Miletich. Á þeim tíma var það stærsta MMA lið heims með menn eins og Matt Hughes, Tim Sylvia og Jens Pulver en sparrið þar var þekkt fyrir að vera gríðarlega hart. Hann er gríðarlega höggþungur eins og má sjá á meðfylgjandi hreyfimynd. Rothöggið hans gegn Matt Lindland (sjá hér að neðan) vakti mikla athygli en þar þótti Lawler sína mjög íþróttamannslega hegðun.

Spá MMA frétta: Rory MacDonald kemur inn með góða leikáætlun og sigrar eftir dómaraákvörðun.

 

Rashad Evans (18-3-1)  vs. Chael Sonnen (29-13-1) – létt þungavigt

Bardagi tveggja glímumanna. Annar hefur keppt í millivigt, Sonnen, á meðan hinn hefur leikið sér með þá hugmynd að fara niður í millivigt, Evans.

Rashad Evans sigraði aðra seríu TUF og hefur verið í UFC síðan þá. Hann varð UFC meistari er hann rotaði Forrest Griffin en tapaði tiltinum fljótt til Lyoto Machida. Evans hefur verið einn af bestu bardagamönnum í létt þungavigtinni undanfarin ár en virðist vera farin að dala núna. Evans átti góðan glímuferil í bandarísku háskólaglímunni og er einn af bestu glímumönnunum í þyngdarflokknum. Hann er einn af bestu “MMA-wrestlers” í bransanum og hefur tekið niður og sigrað menn sem áttu mun betri feril í háskólaglímunni eins og t.d. Phil Davis. Hann tapaði í titilbardaga gegn Jon Jones þar sem hann átti engin svör við Jones. Eftir það tapaði hann óvænt gegn Lil Nog í mjög leiðinlegum bardaga. Hann hefur íhugað að hætta og það er aldrei góðs viti þegar menn eru farnir að skoða það. Hann sigraði þó Dan Henderson síðast og gæti verið búinn að finna eldmóðinn aftur.

Chael Sonnen er einn allra litríkasti karakterinn í UFC í dag. Hann talar í fyrirsögnum og er alltaf gaman að hlusta á viðtöl við hann. Hann er einn af bestu glímumönnunum UFC og einn af fáum sem hafa veitt Anderson Silva einhverja samkeppni. Hann gat notað kæfandi glímustílinn sinn í millivigtinni og spurning hvort hann nái að nota sama stíl gegn stærri mönnum í létt þungavigtinni eins og t.d. Rashad Evans. Sonnen hlaut “All-American” nafnbótina einu sinni á ferli sínum í bandarísku háskólaglímunni og reyndi að komast á Ólympíuleikana án árangurs. Sonnen er orðinn 36 ára en talar um að hann sé enn að læra og finna út hvernig best er að æfa og undirbúa sig fyrir bardaga. Hann virðist ekkert vera að hugsa um að hætta í bráð og lítur allt út fyrir að hann hafi enn mikla ástríðu fyrir að keppa.

Spá MMA frétta: Rashad Evans er betri “MMA wrestler” og sigrar eftir dómaraákvörðun.

Á morgun munum við kíkja á lokabardaga kvöldsins, George St. Pierre vs. Johny Hendricks!

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular