0

Valgerður berst á risakvöldi í Noregi

Mynd: Snorri Björns.

Valgerður Guðsteinsdóttir keppir þann 9. júní á stærsta viðburði í sögu kvenboxara á Norðurlöndunum. Valgerður mætir þá afar reyndum andstæðingi en þetta verður annar atvinnubardagi hennar í hnefaleikum.

Þann 19. nóvember síðastliðinn varð Valgerður Guðsteinsdóttir, hnefaleikakona úr Æsi, fyrst íslenskra kvenna til að keppa atvinnubardaga í boxi er hún keppti á Rising Stars bardagakvöldinu sem fram fór í Stokkhólmi. Þar vann Valgerður andstæðing sinn, Angelique Hernandez, með miklum yfirburðum og þar með var staðfest að hún ætti fullt erindi á meðal atvinnukvenna í íþróttinni. Nú hefur annar atvinnubardaginn hennar verið staðfestur.

Valgerður mun berjast á mjög stóru bardagakvöldi í Bergen í Noregi gegn hinni Ungversku Marianna Gulyas (14-24). Aðalbardagi kvöldsins er ekki af verri endanum en þar mætir ein dáðasta íþróttakona Noregs, Cecilia Brækhus, hinni Argentínsku Erica Farias í viðureign um heimsmeistaratitil en sú norska er handhafi allra heimsmeistarabeltanna í sínum þyngdarflokki.

Viðburðurinn fer fram utandyra á Koengen viðburðasvæðinu í miðborg Bergen og ber heitið „Battle of Bergen“ og eru allir miðar þegar að verða uppseldir. Þetta er stærsti viðburður allra tíma í kvennaboxi á Norðurlöndunum með fjóra kvennabardaga á aðalhluta bardagakvöldsins og verður sjónvarpað beint víða um heim.

„Mér finnst hálf ótrúlegt að ég sé strax búin að fá tækifæri til að berjast á svona stórum viðburði. Þetta er risastórt tækifæri fyrir mig og ef ég sýni mitt rétta andlit þarna þá er á hreinu að það mun hafa mjög góð áhrif á áframhaldið á mínum ferli,” segir Valgerður er fram kemur í fréttatilkynningu.

Mynd: Snorri Björns.

Andstæðingur Valgerðar, Marianna Gulyas, er mjög reynslumikil hnefaleikakona með hvorki meira né minna en 38 atvinnuviðureignir að baki þó svo að hún sé aðeins 29 ára gömul. Sigurhlutfallið í þessum viðureignum er henni að vísu ekki í hag en það breytir því ekki að reynslan úr hringnum gæti reynst henni afar drjúg.

„Ég veit afar lítið um hana annað en það að hún hefur barist mikið. Sennilega á hún fullt af áhugamannabardögum að baki líka áður en hún fór í atvinnumennsku þannig að þetta er klárlega stelpa með mjög mikla reynslu og það telst henni til tekna.”

„Ég bý á Íslandi, við erum ekki margar stelpurnar hér sem erum að keppa og það er engin önnur í atvinnumennsku í boxi. Keppni í atvinnuboxi er bönnuð hér þannig að ég þarf að leita út fyrir landssteinana til að keppa og það er bæði kostnaðarsamt og háð alls konar fyrirvörum. Ég hef þess vegna ekki barist nærri jafn mikið og mig hefði langað en ég reyni bara að svekkja mig sem minnst á því.“

„Ég er með frábæra þjálfrara og frábæra æfingafélaga. Við tökum stundum æfingabardaga (sparr) inni í Æsir þar sem við förum af 100% krafti í jafn margar lotur eins og ef um alvöru bardaga væri að ræða. Þannig þurfum við að gera þetta hér á Íslandi á meðan flestar af stelpunum úti í heimi fá reynsluna bara með því að keppa. Ég kýs að trúa að þetta komi á sama stað niður þegar öllu er á botninn hvolft.”

Mynd: Snorri Björns.

Fyrir bardagann hefur Valgerður notið góðs af tveimur „Sunnum“. Þarna er annars vegar verið að ræða um Sunnu Rannveigu Davíðsdóttur atvinnukonu í MMA og svo Sunnu Wiium Gísladóttur sem er ein fremsta Muay Thai keppniskona okkar Íslendinga í dag. Um æfingafélagana hefur Valgerður þetta að segja;

„Að hafa ekki eina heldur tvær Sunnur til að æfa með er búið að breyta miklu fyrir mig í undirbúningnum. Þó svo að þær séu ekki boxarar í kjarnann þá eru þær báðar grjótharðar og geta svo sannarlega boxað. Sunna Rannveig er þekktasta bardagakona okkar Íslendinga og æðislegur æfingafélagi. Hún hefur mikla reynslu, er svo hreyfanleg, snögg, óútreiknanleg og hörð af sér. Svo er hún bara svo yfirveguð og flæðir svo vel þegar við erum að boxa á móti hvor annarri. Það er frábært að geta æft með henni og ég er að fá mjög mikið út úr því.“

„Sunna Wiium er æðisleg líka. Hún er minna þekkt í augnablikinu en ég er sannfærð um að að hún verði einn daginn öllum landsmönnum kunn. Hún er algjör nagli og það verður virkilega gaman að fylgjast með henni rísa í sinni íþrótt. Á þessu litla fámenna landi okkar er svo gott að vita af þeim tveimur og ég er afar þakklát fyrir að geta æft með þeim þó svo að við tilheyrum sitt hvorri íþróttinni og sitthvoru íþróttafélaginu.“

Það styttist heldur betur í bardagann en Valgerður kveðst vera algjörlega búin að stilla miðið og gera sig klára – bæði andlega og líkamlega.

„Ég hef aldrei verið í betra formi en akkúrat núna og mér líður allt öðruvísi en í nóvember þegar ég fór í fyrsta atvinnubardagann. Þá var ég að renna dálítið blint í sjóinn og vissi ekki hvort þessar stelpur sem væru komnar í atvinnumennskuna væru á allt öðru level en ég eða hvort ég ætti bara fullt erindi. Raunin var sú síðarnefnda og ég hef æft með allt öðru hugarfari síðan þá. Ég er rólegri og fókuseraðari núna og ég veit að ég gæti ekki verið betur undirbúin. Ég trúi því að ég eigi eftir að sýna úr hverju ég er gerð þegar bjallan hringir bardagann í gang. Ég ætla að vinna og ég veit að ég er búin að leggja á mig þá vinnu sem til þarf til að það verði raunin.“

Mynd: Árni Torfason.

Pétur Marinó Jónsson

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is

-Æft bardagaíþróttir í 6 ár (fjólublátt belti í BJJ)
-BS í sálfræði
-Lýsi UFC á Stöð 2 Sport
-MMA fíkill
Pétur Marinó Jónsson

Comments

comments

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í 6 ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Stöð 2 Sport -MMA fíkill

Leave a Reply