Friday, April 26, 2024
HomeErlentHvar er Cain Velasquez?

Hvar er Cain Velasquez?

Cain Velasquez hefur ekkert barist frá því í júlí 2016. Endurkomu hans er beðið með mikilli eftirvæntingu en ekkert bólar á fréttum af mögulegum bardaga hans.

Þann 9. júlí 2016 mætti Cain Velasquez Travis Browne á UFC 200. Cain gjörsamlega gekk frá Browne og kláraði hann með tæknilegu rothöggi þegar skammt var eftir af 1. lotu. Cain var lipur á tánum og tók meira að segja hringspark sem kom verulega á óvart. Aðdáendur voru spenntir að sjá meira en Cain hefur ekki farið í búrið síðan þá. Í desember 2016 átti hann að mæta Fabricio Werdum en nokkrum dögum fyrir bardagann kvaðst Cain ekki geta staðið lengur en í 15 mínútur í einu vegna bakverkja. Íþróttasambandið bannaði Cain að keppa og hefur lítið heyrst í honum síðan þá.

Cain Velasquez var í The MMA Hour í janúar þar sem hann sagðist stefna á að berjast á UFC 226 í júlí. Enn er nokkuð langt í bardagakvöldið og gætum við fengið að sjá hann þar. Þó kæmi það ekkert á óvart ef hann myndi meiðast enn einu sinni.

Cain var nýlega fjarlægður af topp 15 styrkleikalistanum í þungavigt UFC vegna fjarveru sinnar frá búrinu. Þar áður var hann í 4. sæti en hafði samt ekki einn sigur gegn þeim sem sátu á listanum! Síðustu sigrar hans voru gegn fyrrnefndum Browne, ‘Bigfoot’ Silva og Junior dos Santos en enginn af þeim er á topp 15 í dag í UFC (dos Santos ekki á lista eftir fall á lyfjaprófi).

Cain hefði getað orðið besti þungavigtarmaður allra tíma en ferill hans hefur verið plagaður af meiðslum. Cain verður 36 ára á þessu ári og sjaldgæft að menn verði allt í einu lausir við öll meiðsli þegar komið er á þennan aldur. Ætli Cain verði ekki einn af þeim sem menn eiga stöðugt eftir að spyrja sig um ókomna tíð; „hvað ef hann hefði haldist heill?“

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular