Wednesday, September 18, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíða10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í apríl 2014

10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í apríl 2014

Það er mikið um að vera í apríl. Bellator er með þokkaleg kvöld sem bjóða upp á góða hluti en það er UFC sem er með rjómann af bestu bardögunum að vanda. Það voru nokkrir áhugaverðir sem komust ekki á listann eins og bardagi Douglas Lima og Rick Hawn um lausan veltivigtartitil í Bellator (titilinn sem Ben Askren var með). Einhver hefði líka sett Clay Guida á móti Tatsuya Kawajiri á listann en Guida hefur ekki verið eins skemmtilegur undanfarið og hann var í gamla daga. Kíkjum á þetta.

Luke-rockhold-vs-tim-boetsch

10. UFC 172 – 26. apríl, Luke Rockhold vs. Tim Boetsch (millivigt)                          

Eina ástæðan fyrir því að þessi bardagi er ekki ofar á listanum er að Rockhold ætti að sigra nokkuð örugglega. Boetsch hefur að vísu oft unnið þegar hann “átti” að tapa en Rockhold er mjög erfiður andstæðingur fyrir hann. Sé litið framhjá bardaga hans við Vitor Belfort hefur Rockhold unnið alla sína bardaga síðan 2008, þar með talið á móti Jacare Souza og Tim Kennedy. Á móti Costa Philippou í janúar leit hann hrikalega vel út en hann tók varla á sig högg og kláraði bardagann örugglega með gullfallegu sparki í lifrina.

Spá: Rockhold sigrar í fyrstu eða annarri lotu, rothögg.

Liz-Carmouche-vs-Miesha-Tate

9. UFC on Fox 11 – 19. apríl, Liz Carmouche vs. Miesha Tate (bantamvigt)

Hér mætast tvær af bestu konunum í UFC. Báðar hafa barist við Rousey og tapað en sigur í þessum bardaga er mjög mikilvægur fyrir báðar ef þær vilja halda í vonina um titil. Báðar eru reynslumiklar, andlega sterkar og alhliða góðar, en hvor er betri?

Spá: Þetta ætti að vera nokkuð jafn en fjörugur bardagi. Carmouche sigrar á stigum.

kongo

8. Bellator 115 – 4. apríl, Vitaly Minakov vs. Cheick Kongo (þungavigt)

Þeir sem fylgjast með UFC þekkja Cheick Kongo. Hann lítur út eins og illmenni í Tarzan bíómynd en hefur verið misjafn í búrinu. Hann á það til að vera í frábærum bardögum (Pat Barry) en reyndar líka leiðinlegum (Shawn Jordan). Hér er hann að skora á þungavigtarmeistarann í Bellator, hinn ósigraða Minakov frá Rússlandi. Rússinn hefur barist fjórum sinnum í Bellator og hefur rotað alla fjóra. Það verður því áhugavert að sjá hvort að Kongo nái að krækja í titilinn eða hvort hann verði fimmta fórnalambið.

Spá: Rússinn er margfaldur sambó meistari og er augljóslega höggþungur. Án þess að vita of mikið um hann þá er því hér með spáð að Rússinn roti Kongo en hann hefur verið rotaður þrisvar á ferlinum.

nogueira

7. UFC Fight Night 39 – 11. apríl, Antônio Rodrigo Nogueira vs. Roy Nelson (þungavigt)             

Þessir tveir hlutu að mætast einn daginn. Þessi bardagi skiptir nánast engu máli í þungavigtinni en hann ætti að verða skemmtilegur. Nelson er búinn að tapa tveimur í röð og þarf á sigri að halda. Nogueira virðist vinna annan hvern bardaga en hann er að koma til baka eftir meiðsli. Nogueira er tæknilegri standandi en Nelson er talsvert höggþyngri. Nelson er það góður á gólfinu að hann ætti að geta varist árásum Nogueira en getur hann unnið goðsögnina?

Spá: Nogueira er orðinn 37 ára og er talsvert slitinn en hann getur ennþá barist og unnið marga af þeim bestu. Nelson er einmitt andstæðungur sem hann ætti að geta útboxað og sigrað á stigum. Hann þarf bara að vara sig á bombunum.

Cerrone-and-Edson-Barboza

6. UFC on Fox 11 – 19. apríl, Donald Cerrone vs. Edson Barboza (léttvigt)

Þetta er algjör draumabardagi. Þessir tveir eru aldrei í leiðinlegum bardögum. Báðir vilja standa og láta höggin vaða í sparkbox bardaga. Cerrone er líklegri til að taka bardagann í gólfið og hefur átt það til að klára með uppgjafartökum. Þetta gæti orðið algjör lágsparka veisla þar sem báðir eru með frábær lágspörk en þess má geta að Barboza hefur sigrað þrjá bardaga eftir tæknilegt rothögg eftir lágspörk.

Spá: Hvað sem gerist þá verður þetta flugeldasýning. Spurningin er hver kemur fyrst inn þessu eina höggi sem meiðir hinn. Segjum að Cerrone komi inn hásparki sem setur Barboza í gólfið. Cerrone eltir og klárar með „rear naked choke“.

tim-kennedy-michael-bisping

5. TUF Finale – 16. apríl, Tim Kennedy vs. Michael Bisping (millivigt)                                                  

Michael Bisping snýr aftur í apríl eftir árs fjarveru vegna meiðsla. Bisping er vinsælasti andstæðingurinn í UFC, þ.e. sá sem flestir vilja berast við, en það þýðir ekki að hann sé auðveldur viðureignar. Kennedy er búinn að vera á góðri siglingu undanfarið og sigur á Bisping væri mjög þýingarmikill fyrir hann.

Spá: Ferill þessara tveggja er ekki svo ósvipaður að því leyti að báðir virðst sigra flesta aðra en þá allra bestu. Þeir eru báðir alhliða góðir þó svo að Kennedy ætti að vera betri glímumaður. Það er erfitt að segja til um hvað gerist en tilfinningin er sú að Bisping sigri á stigum.

davisvsjohnsonjpg

4. UFC 172 – 26. apríl, Phil Davis vs. Anthony Johnson (létt þungavigt)                                               

Það er frábært að fá Anthony Johnson aftur í UFC. Hann er búinn að finna sig í léttþungavigt en það er ótrúlegt að þetta tröll hafi keppt í veltivigt fyrir nokkrum árum. Johnson er búinn að vinna 6 bardaga síðan hann var rekinn úr UFC í ársbyrjun 2012. Hér fær hann mjög erfitt verkefni en Phil Davis er einn af þeim bestu í þyngdarflokknum. Davis ætti að vera mun sterkari glímumaður en Johnson er höggþyngri og tæknilega betri standandi.

Spá: Johnson mun koma inn góðum höggum en Davis á eftir að ná honum niður og stjórna honum þar. Davis sigrar á stigum.

RDA-Khabib

3. UFC on Fox 11 – 19. apríl, Rafael dos Anjos vs. Khabib Nurmagomedov (léttvigt)      

Það eru ekki margir sem vilja berjast við Khabib Nurmagomedov en dos Anjos var til. Khabib er ósigraður í 21 bardaga, þar af 5 í UFC. Rafael dos Anjos hefur átt sveiflukenndari feril en hefur nú sigrað 5 andstæðinga í röð. Þetta eru tveir af þeim bestu í léttvigt og fær sigurvegarinn sennilega að berjast um titilinn í léttvigt, þ.e. ef hann vill bíða í u.þ.b. heilt ár (Anthony Pettis og Gilbert Melendez berjast í lok desember).

Spá: Þetta verður spennandi bardagi. Báðir eru sterkir á gólfinu en stílarnir eru ólíkir. Dos Anjos mun standa í honum en Khabib mun standa uppi sem sigurvegari á stigum.

werdum browne

2. UFC on Fox 11 – 19. apríl, Fabricio Werdum vs. Travis Browne (þungavigt)                   

Werdum átti að berjast við Cain Velasquez um titilinn í þungavigt en þar sem Cain er meiddur munu þessir kappar takast á um tækifærið í staðinn. Þetta er þessi klassíski „grappler vs. striker“ bardagi, sá “ungi” (31) á móti þeim gamla (36). Stílarnir gera bardagann mjög spennandi en stóra spurningin er hvort Werdum nái Browne í gólfið. Það má hins vegar ekki gleyma því að Werdum er búinn að bæta sig standandi eins og hann sýndi á móti Roy Nelson.

Spá: Werdum er einn besti jiu jitsu bardagamaðurinn í UFC. Browne er hins vegar á mikilli siglingu en í hans síðustu þremur bardögum afgreiddi hann Gabriel Gonzaga, Alistair Overeem og Josh Barnett, alla í fyrstu lotu. Werdum er góður og þetta er nokkuð tvísýnn bardagi en æskan mun hafa yfirhöndina. Browne sigrar á tæknilegu rothöggi í annarri lotu.

jones-v-teixeira2

1. UFC 172 – 26. apríl, Jon Jones vs. Glover Teixeira (létt þungavigt)

Sjöunda titilvörn Jon Jones verður loksins að veruleika í Baltimore í lok apríl. Þessi bardagi átti upphaflega að vera í UFC 169, svo UFC 170, svo UFC 171 og nú loks UFC 172. Það eru margir að líta framhjá þessari titilvörn og bíða eftir næsta bardaga Jones, við Alexander Gustafsson. Það má hinsvegar ekki vanmeta Glover Teixeira. Teixeira tapaði síðast árið 2005. Hann hefur unnið fimm bardaga í UFC. Hann er með svart belti í jiu jitsu og hefur dýnamít í hnefunum.

Spá: Teixeira er mjög hættulegur en það er erfitt að spá á móti Jones. Fyrir bardagann við Gustafsson virtist hann ósigrandi en það hefur breyst. Teixeira mun ekki sýna honum mikla virðingu en spurningin er hversu langt það skilar honum. Jones mun lenda í einhverjum vandræðum með Teixeira en klárar hann að lokum í 3. eða 4. lotu.

spot_img
spot_img
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -spot_img

Most Popular