spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlent10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í júní 2019

10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í júní 2019

Sumarið er tíminn eins og Bubbi sagði og MMA eimreiðin heldur áfram jafnt og þétt. Hápunktur mánaðarins er frábært kvöld í Chicago 8. júní en það er líka ýmislegt annað í boði.

10. UFC 238, 8. júní – Valentina Shevchenko gegn Jessica Eye (fluguvigt kvenna)

Valentina Shevchenko er mögulega besta bardagakona í heimi og auðvitað meistarinn í fluguvigt kvenna. Já, hún tapaði naumlega fyrir Amanda Nunes í tvígang en það er stærðarmunur þar sem taka þarf tillit til. Áskorandinn að þessu sinni, Jessica Eye, hefur ekki beint sogað til sín aðdáendur en hún hefur unnið þrjá bardaga í röð sem er nóg í þessum þunna þyngdarflokki.

Spá: Shevchenko sigrar örugglega á stigum.

9. UFC 238, 8. júní – Jimmie Rivera gegn Petr Yan (bantamvigt)

Petr Yan er eitt mest spennandi efnið í troðfullum þyngdarflokki. Yan er 26 ára Rússi sem er ósigraður í fjórum UFC bardögum. Í hans síðasta bardaga gerði hann sér lítið fyrir og afgreiddi John Dodson sannfærandi á stigum. Nú tekur hann annað skref upp á við en Jimmie Rivera er einn af þeim bestu þrátt fyrir töp gegn Marlon Moraes og Aljamain Sterling. Þetta er mikilvægur bardaga í þessum geggjaða þyngdarflokki.

Spá: Petr Yan tekur þetta á stigum og heldur áfram að klifra upp stigann.

8. Bellator 222, 14. júní – Rory MacDonald gegn Neiman Gracie (veltivigt)

Nú fer að styttast í uppgjör í veltivigtarmóti Bellator en þetta er síðasta þrepið fyrir úrslitin. Rory MacDonald barðist við Jon Fith í lok apríl. Það skrítna er að hann vann ekki bardagann. Hann gerði jafntefli og þar sem hann er meistarinn hélt hann beltinu og komst einhvern veginn áfram í mótinu. Ekki beint sanngjarnt gagnvart Fitch en skiljanleg ákvörðun engu að síður. Nú mætir hann hinum lítt þekkta Neiman Gracie sem er ósigraður með fimm uppgjafartök í síðustu fimm bardögum en það er lítið um stór nöfn á ferilskránni. Stóra spurningin í þessum bardaga er hugarfar MacDonald eftir furðuleg ummæli eftir síðasta bardaga.

Spá: MacDonald finnur leið til sigurs, TKO í annarri lotu.

7. UFC Fight Night 154, 22. júní – Renato Moicano gegn Chan Sung Jung (fjaðurvigt)

Korean Zombie virðist berjast einu sinni ári svo það er þess virði að taka eftir því þegar hann stígur í búrið. Í fyrra tapaði hann fyrir Yair Rodriguez í einum af bardögum ársins (klárlega rothögg ársins). Nú mætir hann öðrum mjög erfiðum andstæðingi en Renato Moicano hefur verið í topparáttunni í fjaðurvigt undanfarin tvö ár. Þetta ætti að verða fjör.

Spá: Þetta verður erfitt en Moicano sigrar á uppgjafartaki í fjórðu lotu.

6. UFC 238, 8. júní – Aljamain Sterling gegn Pedro Munhoz (bantamvigt)

Hér mætast tveir topp fimm bardagamenn í bantamvigt í bardaga sem ætti að tryggja sigurvegaranum bardaga gegn sigurvegaranum af Henry Cejudo og Marlon Moraes bardaganum. Báðir hafa unnið þrjá erfiða andstæðinga í röð og mætast nú á krossgötum. Þetta er stór bardagi sem ætti að fá meiri athygli.

Spá: Sterling sigrar á stigum.

5. UFC Fight Night 153, 1. júní – Alexander Gustafsson gegn Anthony Smith (léttþungavigt)

Hér fáum við tvo topp gæja í léttþungavigt sem geta ekki unnið Jon Jones. Það er samt mikilvægt að halda sér í toppbaráttunni í næfaþunnum þyngdarflokki þar sem hlutir geta breyst á augabragði, sérstaklega þegar meistarinn er einhver sem á það til að gera mistök. Þetta ætti að vera góður bardagi, sérstaklega ef Smith mætir mjög árásagjarn til leiks. Ef ekki ætti Gustafsson að taka hann í sundur.

Spá: Gustafsson útboxar Smith standandi fimm lotu bardaga.

4. Bellator 223, 22. júní – Gegard Mousasi gegn Rafael Lovato Jr. (millivigt)

Rafael Lovato Jr. er ekki vel þekktur bardagamaður en hann ætti að vera það. Lovato er margfaldur heimsmeistari í brasilísku jiu-jitsu, fjögra gráðu svartbeltingur undir handleiðslu Saulo Ribeiro. Lovato er ósigraður í MMA og hefur klárað alla sína átta andstæðinga. „Sassy“ Mousasi þarf ekki að kynna en það verður áhugavert að sjá hvernig hann bregst við Lovato.

Spá: Mousasi notar reynsluna og sigrar á stigum.

3. UFC on ESPN 3, 29. júní – Francis Ngannou gegn Junior dos Santos (þungavigt)

Þetta er draumabardagi í þungavigt. Tveir topp fimm bardagamenn sem vilja standa og geta rotað hvern sem er. Ngannou þarf ekki að hafa miklar áhyggjur af glímunni en getur hann komið inn stóru höggunum á dos Santos? JDS þarf að vera á hjólinu í fimm lotur og stinga Ngannou eins og Ali í Manila.

Spá: Ngannou rotar JDS í fyrstu lotu.

2. UFC 238, 8. júní – Henry Cejudo gegn Marlon Moraes (bantamvigt)

Þessi bardagi er hrikalega spennandi. Henry Cejudo er hræðlega leiðinlegur persónuleiki en hann getur barist – það verður ekki tekið af honum. Hann hefur nú sigrað Demetrious Johnson og T.J. Dillashaw (á sterum) og mætir nú Marlon Moraes í bantamvigt sem er sjóðheitur. Moraes er búinn að rústa Aljamain Sterling, Jimmie Rivera og Raphael Assunção í hans síðustu þremur bardögum og á þennan bardaga fyllilega skilið.

Spá: Báðir eru sjóðheitir en við tökum Cejudo, TKO í annarri lotu.

1. UFC 238, 8. júní – Tony Ferguson gegn Donald Cerrone (léttvigt)

Besti bardagi mánaðarins er því miður ekki fimm lotur en það er kannski ágætt þar sem Donald Cerrone barðist fimm lotur í maí. Gefum manninum smá breik. Þessi bardagi er geggjaður á pappírunum, burt séð frá mikilvægi. Tony Ferguson snýr aftur en hann hefur ekki barist síðan í október og stóra spurningin er, hver er staðan á honum núna? Undanfarna mánuði hafa heyrst óþægilegar frásagnir um andlega heilsu Ferguson. Við getum ekki annað en treyst á að læknar UFC og þeim sem er annt um Ferguson hafi látið skoða hann í þaula áður en honum var fer aftur í búrið.

Spá: Ferguson ætti að vera betri, hann sigrar á tæknilegu rothöggi í þriðju lotu.

spot_img
spot_img
spot_img
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular