Árið 2016 var ansi gott í MMA heiminum. Á næstu dögum birtum við lista yfir bestu rothögg ársins, bestu bardaga ársins og fleira en hér ætlum við að taka saman margt af því besta sem gerðist utan bardaganna.
UFC 207 fer fram á föstudaginn og því birtum við ekki árslistana fyrr en eftir bardagakvöldið. Við getum þó þjófstartað aðeins og byrjað á þessum þar sem hérna erum við meira að tala um atvik utan búrsins.
Vesen ársins: Jon Jones
2015 var ekki gott ár fyrir Jon Jones og ekki heldur 2016. Jones átti að mæta Daniel Cormier á UFC 200 í júlí en örfáum dögum fyrir bardagann féll hann á lyfjaprófi og gat ekki keppt. Hann var auk þess látinn dúsa í þrjá daga í gæsluvarðhaldi í mars eftir að hafa rofið skilorðið sitt. Jones slapp þó með skrekkinn með lyfjaprófið og fékk bara eins árs bann og ætti því að geta snúið aftur í júlí á næsta ári. Vonandi verður næsta ár betra fyrir hann.
Endurkoma ársins: Dominick Cruz
Bantamvigtarmeistarinn Dominick Cruz berst sinn þriðja bardaga í ár nú á föstudaginn. Fyrir 2016 hafði Cruz aðeins barist einn bardaga á þremur árum og verið þjakaður af meiðslum. Árið hefur hins vegar verið frábært fyrir Dominick Cruz þar sem hann byrjaði á því að ná beltinu sínu til baka af T.J. Dillashaw í janúar. Hann varði svo beltið í júní gegn Faber og getur fullkomnað árið með sigri á Cody Garbrandt á föstudaginn. Þrír bardagar á einu ári er þó nokkuð magnað fyrir mann eins og Dominick Cruz.
Vonbrigði ársins: Gunnar Nelson barðist bara einn bardaga
Það eru mikil vonbrigði að við skyldum bara hafa séð Gunnar Nelson einu sinni á þessu ári. Gunnar talaði um í upphafi árs að hann langaði að taka þrjá til fjóra bardaga í ár en náði því miður bara einum. Bardaginn var vissulega glæsilegur þar sem Gunnar sigraði Albert Tumenov með hengingu í 2. lotu. Gunnar átti auðvitað að mæta Dong Hyun Kim í aðalbardaganum á UFC bardagakvöldinu í Dublin í nóvember en þurfti því miður að draga sig úr bardaganum vegna meiðsla. Vonandi verður Gunnar heppnari á næsta ári og nær þremur flottum bardögum (og sigrum).
Atvik ársins: Flöskukaststríðið
Conor McGregor og Nate Diaz mættust öðru sinni á UFC 202. Blaðamannafundurinn í aðdraganda bardagans var svo sannarlega eftirminnilegur. Conor mætti hálftíma of seint og þegar hann loksins mætti gekk Nate Diaz af blaðamannafundinum. Diaz sendi að sjálfsögðu öllum fingurinn og byrjaði svo að kasta flöskum í átt að Conor og hans liði. Conor svaraði og upphófst mikið flöskukaststríð sem vakti mikla athygli.
Ellismellur ársins: Dan Henderson
Hinn 46 ára gamli Dan Henderson átti viðburðarríkt ár. Á UFC 199 í júní rotaði hann Hector Lombard í 2. lotu í fjörugum bardaga. Hann fékk svo (óverðskuldað miðað við styrkleikalista) titilbardaga gegn nýja meistaranum Michael Bisping í kveðjubardaga sínum. Henderson var ekki langt frá því að vinna Bisping og voru ekki allir sammála dómaraákvörðuninni. Talandi um Michael Bisping..
Óvæntasta atvik ársins: Bisping rotar Rockhold
Michael Bisping varð millivigtarmeistari á hreint ótrúlegan hátt í sumar. Hann kom inn í bardagann gegn Luke Rockhold með aðeins tveggja vikna fyrirvara eftir að hafa verið við tökur á kvikmyndinni xXx: The Return of Xander Cage. Ekki var langt síðan Rockhold fór létt með Bisping og var nánast enginn sem trúði því að Bisping ætti séns. Bisping kom öllum að óvörum og rotaði Rockhold í 1. lotu og varð þar með millivigtarmeistarinn. Ótrúleg úrslit hjá hinum 37 ára Bisping.
Ekki óvænt: Brock Lesnar fellur á lyfjaprófi
Það kom fáum á óvart þegar Brock Lesnar féll á lyfjaprófi eftir UFC 200.
Skróp ársins: Conor McGregor
Conor McGregor vildi ekki sinna öllum fjölmiðlaskyldum sínum í aðdraganda UFC 200. Hann nennti ekki að mæta á blaðamannafund í Las Vegas í miðjun undirbúningi og var þess í stað hér á Íslandi við æfingar. Conor var í kjölfarið tekinn af UFC 200 bardagakvöldinu og var seinni bardaganum gegn Nate Diaz frestað til ágúst þegar UFC 202 fór fram.
Afsökun ársins: Kengúrukjöt Frank Mir
Þó nokkrir bardagamenn féllu á lyfjaprófi á þessu ári og voru afsakanirnar jafn misjafnar og þær voru margar. Jon Jones hélt því fram að ólöglegu efnin í lyfsýni hans hefðu komið úr stinningarlyfi og Chad Mendes hélt því fram að frammistöðubætandi efnin úr sínu lyfjaprófi hefðu komið úr húðkremi. Bestu afsökunina átti þó Frank Mir. Mir féll á lyfjaprófi eftir bardaga sinn gegn Mark Hunt í Ástralíu. Mir telur að anabólísku sterarnir sem fundust í lyfsýni hans hafi komið úr kengúrukjöti sem hann borðaði daginn fyrir bardagann.
Tapp ársins: Sage Northcutt
Það var mikið rætt um tap Conor McGregor gegn Nate Diaz þegar hann tappaði út eftir „rear naked choke“ í 2. lotu á UFC 196. Það var líka mikið rætt um þegar Sage Northcutt tappaði út eftir hengingu gegn Bryan Barbarena í janúar. Barbarena var ofan í „half-guard“ og læsti „arm triangle“ hengingu en virtist ennþá vera að reyna að komast í betri stöðu til að geta klárað henginguna. Það kom því mörgum á óvart þegar Sage Northcutt tappaði skyndilega út og sagði lýsandinn Joe Rogan þetta vera „easy tap“. Northcutt sagði eftir bardagann að hann hefði verið með streptókokka í hálsinum og því fundið mikið til þegar Barbarena kreysti hálsinn.
Óheppni ársins: Ian McCall
Ian McCall er óheppnasti maður ársins. McCall hefur ekkert barist síðan í janúar 2015 og átti að berjast þrisvar í ár en náði aldrei að komast í búrið. Fyrsti bardaginn átti að fara fram þann 30. júlí á UFC 201 gegn Justin Scoggins. Tveimur dögum fyrir bardagann var bardaginn felldur niður þar sem Scoggins var langt frá því að ná vigt. McCall fékk annan bardaga gegn Ray Borg í september á UFC 203 en þremur dögum fyrir bardagann þurfti Borg að draga sig úr bardaganum vegna veikinda. McCall fékk svo þriðja bardagann gegn Neil Seery á UFC bardagakvöldinu í Belfast í nóvember en í þetta sinn veiktist McCall daginn fyrir bardagann og gat ekki barist. Vonandi nær McCall að berjast að minnsta kosti einu sinni á næsta ári.
Ummæli ársins: Nate Diaz
Nate Diaz varð stór stjarna á þessu ári eftir bardaga sína gegn Conor McGregor. Diaz og Conor áttu báðir mörg stórkostleg ummæli fyrir og eftir bardaganna. Ein ummæli standa þó upp úr og er best að birta þau hér.