Friday, April 26, 2024
HomeForsíðaAllt sem þú þarft að vita um miðasöluna fyrir bardaga Gunnars

Allt sem þú þarft að vita um miðasöluna fyrir bardaga Gunnars

ufc belfast gunnar nelson dong hyun kimMiðasala á UFC bardagakvöldið í Belfast hefst í næstu viku. Hér höfum við tekið saman helstu upplýsingarnar fyrir miðasöluna og það sem gott er að vita.

Bardagakvöldið fer fram í The SSE Arena í Belfast þann 19. nóvember en Gunnar Nelson verður í aðalbardaga kvöldsins gegn Dong Hyun Kim. UFC hefur einu sinni áður heimsótt Belfast og þá fór bardagakvöldið fram í sömu höll. Á UFC 72 í Belfast voru um 8.000 áhorfendur en höllin hét þá The Odyssey.

Í ár má búast við um 8.500 miðum í boði og því ættu íslenskir bardagaaðdáendur að hafa hraðar hendur þegar miðasalan hefst.

Miðarnir á UFC bardagakvöldið í Dublin 2014 seldust hratt upp. Þegar almenna miðasalan hófst á föstudeginum (eftir forsölu á miðvikudegi og fimmtudegi líkt og nú) varð uppselt á nokkrum mínútum. Þá var Conor McGregor í aðalbardaganum og barðist Gunnar við Zak Cummings það kvöld.

Þegar UFC heimsótti Dublin í fyrra seldist enn fyrr upp. 60 sekúndum eftir að almenna miðasalan hófst var orðið uppselt og þá var enginn Conor McGregor.

Í ár hefst almenn miðasala föstudaginn 23. september en forsölur hefjast þann 21. og 22. september. Miðasala fer fram í gegnum Ticketmaster en UFC mælir með að kaupendur verði tilbúnir með aðgang að Ticketmaster áður en miðasalan hefst. Hægt er að stofna aðgang á Ticketmaster hér en það kostar ekkert.

Þar sem miðarnir renna hratt út í almennu miðasölunni mælum við með að fólk fari í forsölurnar sem verða tvennar.

UFC Fight Club forsala: Fyrsta forsalan er miðvikudaginn 21. september kl. 9 um morguninn á íslenskum tíma. Þetta er aðeins fyrir þá sem eru í UFC Fight Club aðdáendaklúbbnum (sjá hér) en ársgjaldið eru 75 dollarar fyrir Ultimate aðgang (8.600 kr) eða 150 dollarar fyrir Elite aðgang (17.000 kr). Meðlimir í klúbbnum geta að hámarki keypt 6 miða. Hér má svo sjá það sem fæst með því að vera í klúbbnum.

UFC Newsletter forsala: Seinni forsalan hefst fimmtudaginn 22. september kl. 9 um morguninn. Áskrifendur af fréttabréfi UFC fá aðgang að þessari forsölu. Það kostar ekkert að gerast áskrifandi af fréttabréfinu en slóðina má nálgast hér.

Allir hlekkir á forsölur og aðrar miðasölur ættu að birtast hér.

Eins og áður segir hefst almenna miðasalan föstudaginn 23. september en við mælum með að íslenskir bardagaaðdáendur nýti sér forsölurnar.

Miðaverð er ekki opinbert á heimasíðu UFC en á heimasíðu SSE Arena kemur fram að almennt miðaverðið sé frá 45 pundum (6.800 kr) til 175 punda (26.500 kr). Hægt er þó að kaupa dýrari VIP pakka.

UFC Belfast

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular