Það verður nóg um að vera hjá bardagafólkinu okkar á næstu mánuðum. UFC, Invicta, Shinobi og Evrópumeistaramótið er það sem er framundan.
Það stefnir í að níu íslenskir keppendur keppi í MMA á næstu mánuðum. Kíkjum á það sem við gætum fengið að sjá á næstu mánuðum.
Invicta FC 19: Það er heldur betur farið að styttast í fyrsta atvinnubardaga Sunnu Rannveigar Davíðsdóttur. Sunna mætir Ashley Greenway föstudaginn 23. september í Kansas á Invicta FC 19. Gríðarleg spenna ríkir fyrir bardaganum enda er þetta stórt tækifæri fyrir Sunnu.
UFC Fight Night 99: Gunnar Nelson berst auðvitað í aðalbardaganum á bardagakvöldinu í Belfast þann 19. nóvember. Dong Hyun Kim er andstæðingur Gunnars og má búast við hörku bardaga. Undirbúningur Gunnars er kominn á fullt og verður gríðarlega spennandi að fylgjast með okkar manni.
Evrópumótið í MMA: Í fyrra kepptu átta Íslendingar á Evrópumótinu í MMA í Birmingham. Í ár fer mótið fram í Prag, Tékklandi, dagana 22. – 26. nóvember. Mjölnir mun senda keppendur á mótið en í fyrra tóku þau Bjarki Þór Pálsson og Sunna Rannveig Davíðsdóttir gull í sínum flokki. Egill Hjördísarson, Bjarki Ómarsson, Hrólfur Ólafsson, Bjarni Kristjánsson og Magnús Ingi Ingvarsson eru meðal þeirra sem stefna á mótið í ár.
Það er því óhætt að segja að næstu mánuðir verði afar skemmtilegir fyrir bardagaaðdáendur hér heima enda nóg framundan.