Friday, April 26, 2024
HomeForsíðaBjarki Ómarsson: Leið vel og þá er ekkert að fara að stoppa...

Bjarki Ómarsson: Leið vel og þá er ekkert að fara að stoppa mig

Bjarki Ómarsson
Mynd: Sóllilja Baltasardóttir.

Bjarki Ómarsson sigraði fjaðurvigtarbelti Shinobi bardagasamtakanna um síðustu helgi. Við áttum gott spjall við Bjarka í vikunni um bardagann, andlegu hliðina og framhaldið.

Bjarki Ómarsrson (7-4) mætti Rob Zabitis sem hafði fyrir bardagann sigrað fimm bardaga og tapað einum. Bjarki hafði yfirburði allan tímann og sigraði eftir dómaraákvörðun eftir fimm lotur. Þetta var afar dýrmæt reynsla fyrir hinn 21 árs Bjarka og naut hann reynslunnar er hann bætti fyrsta titlinum í safnið.

„Þetta var skemmtilegasta upplifun mín af bardaga. Ég vildi auðvitað klára hann með rear naked choke í 1. lotu en í dag er ég sáttari með að hafa farið fimm lotur. Það er gaman að horfa til baka eftir að hafa verið þarna inni í fimm lotur. Ég naut þess allan tímann. Ég man að ég brosti meira að segja í 2. lotu þegar ég var ofan á og hugsaði með mér ‘þetta er gaman’ og það er gaman að fá þannig tilfinningu,“ segir Bjarki.

Bjarki átti þarna sennilega sína bestu frammistöðu á ferlinum hingað til en undirbúningurinn fyrir bardagann var þó ekki sá besti. „Þremur vikum fyrir bardagann varð ég veikur í tvær vikur. Síðan þegar ég var orðinn hress sparka ég í olnboga svona tíu dögum fyrir bardagann og meiðist á fæti. Ég er ennþá meiddur þar.“

Bjarki náði Zabitis niður í öllum lotum bardagans og stjórnaði bardaganum algjörlega í gólfinu. „Það var ástæðan fyrir því að ég tók hann alltaf í gólfið. Mér fannst ég vera fatlaður standandi út af fætinum. Þetta er í fyrsta sinn sem ég var mjög óöruggur standandi. Ég fann að ef ég myndi hitta með þessum fæti þá væri ég að fara að meiða mig vel í bardaganum. En það var líka mjög góð reynsla að fara smá meiddur inn í bardaga.“ Bjarki fann lítið fyrir meiðslunum í bardaganum en um leið og bardaginn var búinn kom sársaukinn.

Bjarki Ómarsson
Mynd: Sóllilja Baltasardóttir.

Upplifun Bjarka af öllu ferlinu í kringum bardagann var góð þrátt fyrir erfiðan undirbúning og erfiðari niðurskurð en áður. „Ég náði að æfa svo lítið síðustu vikuna út af meiðslunum og gat því ekki svitnað eins mikið og áður á æfingum. Síðast þegar ég barðist tók ég bara sjö mínútur í baðinu en núna var þetta dálítið erfiðara. Ég þurfti að fara nokkrum sinnum í baðið og kílóin voru lengi að fara.“

„En upplifunin var ekki svo slæm því ég var mjög jákvæður og ég held að það sé bara reynslan. Þetta var minn 11. bardagi og maður skilur hvað er að gerast þegar það gerist eitthvað neikvætt. Mér leið allan tímann mjög vel. Stundum fór ég að hugsa með mér að undirbúningurinn hafi ekki verið góður en ég vissi allan tímann að það var bara í hausnum á mér. Mér leið vel og þá er ekkert að fara að stoppa mig.“

„Ég hef verið að hitta íþróttasálfræðing [Hauk Inga Guðnason] og hef lært að þó maður missi viku úr kannski tveimur vikum fyrir bardaga þá er það ekkert að fara að segja um hvernig þú berst. Þú hefur gert þetta áður og veist að þú getur gert þetta. Þannig gefuru þér jákvæðar hugsanir á erfiðum tímum.“

Loturnar fimm eru auðvitað mikil reynsla fyrir Bjarka en það er einnig gífurlega góð reynsla að eiga góða frammistöðu þegar undirbúningurinn hefur ekki verið sá besti. Bjarki hefur verið að vinna með andlegu hliðina á undanförnu ári enda finnst honum eins og það sé það helsta sem vanti upp á.

„Mér finnst eins og ég sé alveg með þetta líkamlega. Ég get verið frábær á æfingum og allt litið geðveikt vel út en síðan er það hausinn sem hefur klikkað. Stundum hef ég ekki verið að nenna þessu, inn í búrinu eru alls konar tilfinningar sem ég skildi ekki alltaf. En núna, 11. bardaginn minn, fór ég þarna inn með viðhorfið kill or be killed. Ég fór þarna inn og ákvað að vinna hverja einustu lotu. Auðvitað langaði mig að klára bardagann en mér fannst ég sýna að ég get gert þetta þó þetta hafi verið erfitt.“

Hluti af hugarfarsbreytingunni hjá Bjarka er nálgun hans á bardagann. „Núna finnst mér ég vera kominn á sama stað og þegar ég var nýbyrjaður að keppa. Þá var ég bara að fara að slást og þetta var ekki eins mikið sport. Þegar þú gerir þetta að of miklu sporti þá ofhugsaru oft hlutina og það er auðvelt að finna eitthvað neikvætt. Auðvelt að hugsa hluti eins og ‘oh ég gleymdi að taka amínó fyrir æfingu’ og láta það hafa áhrif á sig í stað þess að fara bara þarna inn og slást. Þú ert góður að slást og það er það eina sem skiptir máli.“

Eins og áður segir var Bjarki meiddur á fæti fyrir bardagann en hann var ákveðinn í að láta það ekki hafa áhrif á sig. „Mér var alveg sama þó ég væri fótbrotinn. Það var viðhorfið mitt þarna inni og þá ertu alltaf að fara að vinna. Mér var skítsama þrátt fyrir að finna fyrir meiðslunum í upphituninni. Það er svo auðvelt að finna eitthvað neikvætt eins og ‘oh fóturinn er ónýtur, þetta er ekki hægt’ en þá er eins og maður sé að finna auðvelda leið út úr þessu. Byrja að búa til afsökun áður en þetta fer af stað.“

Bjarki hefur áður sýnt að hann er ansi flinkur standandi og sýndi nú hvers hann er megnugur í gólfinu. Flest töpin hans Bjarka hafa komið eftir að andstæðingar hans hafa stjórnað honum upp við búrið þar sem Bjarki hefur átt í erfiðleikum með að sleppa. Zabitis „clinchaði“ Bjarka upp við búrið snemma í fyrstu lotu en hafði Bjarki einhverjar áhyggjur að þetta yrði saga bardagans?

„Ég fann að hann var sterkur en ég fann að hann var ekki að fara að halda mér þarna allan tímann. Síðast þegar ég tapaði náði gæjinn að halda mér upp við búrið en þarna var ég ekki að trúa því að hann væri að clincha við mig enda er hann með fleiri Muay Thai/Kickbox bardaga en MMA bardaga. Um leið og ég er aðeins farinn að sparka finn ég að þeim langar ekki vera þarna lengur. Flashy spörkin hræða þig þarna inni. Um leið og hann clinchaði heyrði ég í horninu hans að þeir vildu ekki að hann væri að clincha við mig. Árni Ísaks, Bjarki Þór og fleiri eru að halda mér upp við búrið á æfingum og þeir eru +80 kg menn. Ég er að ná að losa mig frá þeim og þeir eru ekki að ná mér niður og það gefur mér mikið að vita það.“

Bjarki Ómarsson
Mynd: Sóllilja Baltasardóttir.

Fimm loturnar tóku verulega á enda eru bardagarnir yfirleitt bara þrjár lotur. Þar sem þetta var titilbardagi voru loturnar tveimur fleiri en eftir þrjár lotur var Bjarki með örugga forustu. Hann passaði sig á því að gera engin mistök enda var Zabitis að reyna að ógna af bakinu með uppgjafartökum. „Þegar það var ein mínúta eftir af bardaganum hugsaði ég að ég væri búinn að vinna en svo hugsaði ég strax ‘nei nei, þetta er ekki búið fyrr en þetta er búið’. Ég var líka orðinn dauðþreyttur og var að vonast eftir að þetta myndi fara að klárast og var að telja niður.“

Bjarki og Keppnisliðið taka reglulega æfingar sem kallast Ruddi. Það eru stuttar lotur þar sem keyrt er alveg á fullu. „Ég taldi niður loturnar. Þegar ein lota var búin hugsaði ég að núna væri einn Ruddi búinn. Eftir 2. lotu fannst mér tveir Ruddar búnir. Þegar þriðja lotan kláraðist fannst mér að þessi bardagi ætti bara að vera löngu búinn! En fyrir fimmtu lotuna hugsaði ég með mér að það væri nú bara einn Ruddi eftir og það hjálpaði. Mér fannst samt mjög gaman að fara í svona championship rounds.“

Það er ljóst að þetta var gífurlega lærdómsrík reynsla fyrir Bjarka. Hann kemur heim úr ferðinni með fullt af hlutum til að vinna í en mun hann verja beltið sitt? „Nei ég ætla bara að stela þessu belti og ætla ekkert að senda það aftur út. Ég fer á Evrópumótið í nóvember en þar gæti ég mögulega fengið fimm bardaga í stað þess að fá bara einn bardaga t.d. á næsta Shinobi bardagakvöldi. Ég ætla bara að hyrða þetta belti,“ segir Bjarki að lokum.

Bjarki hefur áður sagt að eftir Evrópumótið í nóvember muni hann fara í atvinnumennskuna líkt og nafni sinn Bjarki Þór gerði á dögunum. Við þökkum Bjarka kærlega fyrir viðtalið og hlökkum til að sjá hann berjast næst.

Bjarki Ómarsson
Mynd: Sóllilja Baltasardóttir.
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular