Bræðurnir Bjarki Þór Pálsson og Magnús Ingi Ingvarsson voru á dögunum í Dublin á Írlandi við æfingar. Þar æfðu þeir með Gunnari Nelson og gat Bjarki Þór gefið okkur smá innsýn í æfingabúðirnar.
Þeir Bjarki Þór og Magnús voru í 12 daga í Dublin þar sem þeir æfðu hjá SBG undir handleiðslu John Kavanagh. Bræðurnir dvöldu í íbúð Kavanagh ásamt Gunnari Nelson en æfingarnar voru að venju frábærar í Dublin.
„Það er alltaf gott að æfa hjá John [Kavanagh] enda fullt af atvinnumönnum þar og ekkert gefið eftir allan tímann. Svo er einnig gott að geta bara einbeitt sér að æfingum,“ segir Bjarki Þór.
Gunnar Nelson eyddi tveimur vikum í Dublin við æfingar fyrir bardagann gegn Alan Jouban núna á laugardaginn. „Gunni lítur bara vel út. Hann er í flottu formi og tæknilegur eins og alltaf en aðallega bara léttur og á góðum stað andlega. Ég hef fulla trú á að hann klári þetta í fyrstu lotu með rear naked choke.“
Nokkuð hefur sést til Gunnars og strákana í Playstation á Snapchat og velta því margir fyrir sér hvort þeir hafi í rauninni eitthvað verið að æfa? „Við æfðum tvisvar á dag en restin fór bara í Playstation. Maður bætti sig alveg helling í Playstation,“ segir Bjarki Þór og hlær.
Bjarki Þór á bardaga í vændum þann 22. apríl í London og segir að tíminn í Dublin hafi nýst sér vel. „Maður lærði fullt af nýju dóti sem ég kem heim með í vopnabúrinu. Það var líka gott að vera með Gunna á hverjum degi og spurja hann út í glímuna. Ég lærði mikið af því,“ segir Bjarki Þór að lokum.
Bjarki Þór mætir Englendingnum Alan Procter í endurati en fyrri bardagi þeirra endaði með umdeildum hætti. Procter veitti Bjarka ólöglegt hnéspark í höfuðið og var Procter dæmdur úr leik eftir að Bjarki rotaðist. Í apríl munu þeir útkljá málin og verður spennandi að fylgjast með því.