Saturday, May 18, 2024
HomeForsíðaDiego Björn: Var alltaf laminn í öllum bardögum en ætla ekki að...

Diego Björn: Var alltaf laminn í öllum bardögum en ætla ekki að láta það gerast núna

Diego
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Diego Björn Valencia berst sinn annan atvinnubardaga í MMA á laugardaginn. Bardaginn fer fram í Danmörku og er um hörku bardaga að ræða.

Diego hefur ekki tekið MMA bardaga síðan í september 2014. Hann barðist einn sparkbox bardaga fyrir rúmu ári síðan en hefur lítið fengið að keppa. „Það er búið að verea mjög erfitt að fá bardaga og bara ekkert búið að gerast. Ég veit ekki af hverju nákvæmlega. Ég var búinn að skrá mig hjá SMMACK Combat Management og var að vonast eftir að fá bardaga hjá þeim en það er ekkert búið að gerast fyrr en núna. Loksins,“ segir Diego sáttur.

Haraldur Dean Nelson, framkvæmdastjóri Mjölnis, útvegaði Diego bardagann en SMMACK hafði aðeins boðið Diego einn bardaga. „Þeir buðu mér mjög erfiðan bardaga gegn gæja með 23 sigra og fimm töp. Ég hef ekki barist í tvö ár þannig að ég ákvað að hafna því en það er það eina sem þeir hafa boðið mér.“

Þegar Diego tók sinn fyrsta atvinnubardaga var það með aðeins tíu daga fyrirvara. Diego sigraði þá Conor Cooke með „triangle“ hengingu í 3. lotu eftir erfiðar tvær lotur. „Ég held að þrír eða fjórir síðustu bardagar hjá mér hafi verið með viku eða tíu daga fyrirvara. Þetta er eiginlega í fyrsta sinn sem ég næ almennilega að undirbúa mig fyrir bardaga. Það hjálpaði líka mikið að Gunni var með sínar æfingabúðir hér í Mjölni með alla útlendinganna. Þannig að núna er ég bara geðveikt til í þetta.“

„Ég er vanur að taka bardaga með stuttum fyrirvara en þetta er mjög fínt að fá langan undirbúning. Ég hef alltaf verið í 100% vinnu en ákvað að minnka við mig fyrir hálfu ári síðan og er núna bara í 50% vinnu og einbeiti mér að æfa. Þannig að þetta er svona í fyrsta skipti sem mér finnst ég vera almennilega tilbúinn í bardaga.“

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Mætir heimsmeistara

Diego mætir Dananum Mikkel Kasper á ICE FC 15 bardagakvöldinu í Danmörku. Kasper er með einn sigur í einum atvinnubardaga og er sterkur andstæðingur. „Ég vissi ekki neitt um hann þegar ég samþykkti bardagann. Síðan hringdi Halli [Nelson] í mig í fyrradag [sunnudag] og sagði mér að hann hefði unnið sinn flokk á heimsmeistaramótinu í fyrra. Þannig að hann er heimsmeistari og svo er hann svart belti í júdó.“

„Ég er búinn að horfa á tvo til þrjá bardaga með honum á Youtube og ég hef ekki miklar áhyggjur. Ég trúi því að ég sé betri alls staðar.“

Diego er með bakgrunn í karate og er fjólublátt belti í brasilísku jiu-jitsu. Diego hefur lagt mikla áherslu á að bæta fellur og felluvörn sína síðan hann barðist síðast. „Mikið af þessum útlendingum sem voru að koma hérna með Gunna áttu í miklum erfiðleikum með að ná mér niður. Mér líður mjög vel með að halda bardaganum standandi og ég held að það sé einmitt gott á móti þessum gæja. Hann hefur unnið flesta bardagana sína á uppgjafartaki enda með júdó bakgrunn. Ég á samt örugglega eftir að testa stand-upið hans.“

Hann hefur þó ekki bara lagt áherslu á glímuna heldur einnig á boxið. „Ég setti fókus á boxið. Ég var alltaf laminn í öllum bardögum sem ég fór í. Ég náði alltaf einhvern veginn að þrauka og rétt svo vinna en ég ætla ekki að gera það núna. Núna ætla ég að reyna að klára þetta örugglega.“

„Ég hef alltaf verið svolítið fastur í karate hreyfingunum. Svipað og hjá Gunna, með hendurnar niðri og held að ég geti ekki verið sleginn. En núna er ég byrjaður að vera aðeins agaðri og passa mig betur. Vonandi skilar það sér.“

Bardaginn fer fram í millivigt (84 kg) og hefur Diego ekki miklar áhyggjur af niðurskurðinum. „Ég var 94 kg í byrjun mánaðarins en var 88,5 kg í morgun [þriðjudag] Ég tók smá test cut fyrir Mjölnir Open um daginn og keppti í -88 kg flokki. Þá tók ég alveg fjögur kíló síðasta daginn þannig að ég held ég sé alveg góður.“

Diego getur nú mætt á töluvert fleiri æfingar eftir að hann minnkaði við sig vinnu. Það hefur breytt miklu fyrir hann þar sem hann hefur verið að æfa tvisvar á dag nánast alla daga en áður fyrr gat hann í mesta lagi æft einu sinni á dag.

Diego er fjölskyldumaður og á tvö börn, strák og stúlku. Strákurinn er orðinn níu ára gamall og hefur mikinn áhuga á bardögunum hans pabba. „Hann hefur mjög gaman af þessu og er sjálfur í karate. Hann er að fara að taka brúna beltið í karate og á sex gullbikara í karate. Hann hefur mikinn áhuga á þessu.“

Bardaginn á laugardaginn verður hörku bardaga, en hvernig fer bardaginn? „Ég held að þetta verði stríð. Ég held að þetta sé algjör nagli en ég ætla að vinna þetta. Það er alltof langt síðan ég barðist til að ég sé að fara að tapa þessu. Ég á örugglega eftir að halda þessu standandi en þetta á örugglega eftir að fara í jörðina á endanum og ég held ég taki þetta með uppgjafartaki í 2. lotu.“

Eins og áður segir fer bardaginn fram í Danmörku. Með Diego í för verður Árni Ísaksson og mun hann vera í horninu hjá Diego á laugardaginn ásamt Arnari Frey Vigfússyni sem búsettur er í Danmörku. Íslendingar í Danmörku geta nálgast frekari upplýsingar um bardagann hér.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular