Saturday, April 27, 2024
HomeForsíðaDiego tekur bardaga á laugardaginn með aðeins nokkurra daga fyrirvara

Diego tekur bardaga á laugardaginn með aðeins nokkurra daga fyrirvara

Diego Björn Valencia hefur óvænt hoppað inn á Fightstar bardagakvöldið á laugardaginn. Diego tekur bardagann með fjögurra daga fyrirvara en hann mætir kunnuglegum andstæðingi.

Diego Björn Valencia (2-2) mætir Dawid Panfil á laugardaginn en um atvinnubardaga er að ræða. Panfil ætti að vera íslenskum bardagaaðdáendum kunnugur en hann sigraði Ingþór Örn Valdimarsson á Fightstar í desember.

Diego er vanur að fá bardaga seint og heyrði fyrst af bardaganum á mánudaginn. „Á mánudaginn þá minntist Halli [Nelson] á þennan bardaga við mig, að það væri gæji í millivigt [84 kg] sem hefði misst sinn andstæðing. Ég hendi á hann að ég gæti skorið niður í 88 kg fyrir laugardaginn. Hann hringdi svo í mig í gær [þriðjudag] og segir að þeir hafi tekið því svo ég sagði já,“ segir Diego um tildrög bardagans.

„Mig langar auðvitað bara að berjast eins mikið og ég get. Bara tek því sem býðst, það virðist ekki ganga að fá meiri tíma. Alltaf þegar einhver dettur út þá býð ég mig fram og fæ það. Ég hlýt að fá eitthvað nickname út á þetta. Ef ég myndi búa á Englandi væri ég örugglega með miklu fleiri bardaga. Helvítis Ísland að banna þetta hér, alveg glatað.“

Diego barðist síðast á King of the Cage bardagakvöldinu í Litháen í febrúar ásamt Birgi Erni Tómassyni. Það reyndist skrítin helgi fyrir Birgi en hann fékk skyndilega nýjan andstæðing og þurfti allt í einu að missa tvö kg til viðbótar eftir að hafa þegar náð vigt. Diego mætti öflugum andstæðing og þurfti að sætta sig við tap eftir tæknilegt rothögg í 1. lotu.

„Ég var í rauninni ekki vankaður en ég var fastur undir honum og hann var að hamra mig þannig að ég kvartaði ekkert þegar dómarinn stöðvaði bardagann. Ég hef bara aldrei upplifað neitt svona. Hann tók mig niður með fellu sem ég næ að verjast öllum í Mjölni. Síðan var hann að ground and pound-a mig í guardinu og yfirleitt líður mér vel þar. Þetta var eitthvað freak accident, segjum bara að hann hafi verið á sterum,“ segir Diego og hlær.

„Ég hef í rauninni mjög fáa góða hluti að segja um Litháen. Það var samt mjög fínn strákur, Mantas Le, sem reddaði okkur. Vorum í íbúð hjá honum, það var fíni parturinn en allt annað var verra en allt sem ég hef upplifað. Þeir voru bara með fjögur hanskapör á bardagakvöldinu fyrir 12 bardaga, þannig að við vorum alltaf að bíða eftir hönskum. Vorum í upphitunarherbergi sem var bara steypugólf og ískalt, -16 stiga frost úti og örugglega nokkurra stiga frost inni. Þetta var allt saman mjög spes. Svo auðvitað allt sem Biggi lenti í, mjög skrítið en þetta er búið og gert.“

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Diego veit svo sem ekki mikið um andstæðinginn annað en að hann sigraði Ingþór í desember. „Ég er ekki búinn að skoða hann neitt en skilst að hann sé góður glímumaður. Gruna að hann eigi eftir að reyna að taka mig niður líka. Ég ætla bara að stöðva felluna. Það er það sem ég er góður í vanalega, hlýt að geta gert það núna.“

Eins og svo oft áður fær Diego ekki mikinn tíma í undirbúning en Diego ætlar að reyna að nýta tímann vel fram að bardaga. „Ég er bara að æfa eins mikið og ég get og borða eins lítið og ég get. Ég er að reyna að koma mér niður í vigt núna áður en ég fer í baðið á föstudaginn. Ætti að geta tekið síðustu kílóin tiltölulega léttilega. Það er svona planið, ég held að þetta ætti að hafast. Ég stakk upp á þessari þyngd þannig að ég þarf að standa við það.“

Planið hjá Diego í bardaganum er ekki flókið annað en að halda þessu standandi. „Ég ætla bara að reyna að halda þessu standandi eins og ég get og enda ofan á ef þetta fer í gólfið. Ég held að hann sé sterkari glímumaður, þannig að ef ég næ að bara að gera mitt gameplan og halda þessu standandi og pikka hann í sundur, þá ætti þetta að ganga vel.“

Diego verður þó ekki eini Íslendingurinn sem berst á bardagakvöldinu á laugardaginn en þeir Sigurjón Rúnar Vikarsson og Birgir Örn Tómasson berjast einnig á kvöldinu. Hægt verður að kaupa streymi á bardagakvöldið en hlekkur á bardagakvöldið kemur síðar í vikunni.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular