0

Mánudagshugleiðingar eftir UFC 223

UFC 223 fór fram um síðustu helgi í Brooklyn. Vikan sem var að líða er sennilega einhver erfiðasta í sögu UFC en hér eru Mánudagshugleiðingar eftir bardagakvöldið.

Khabib Nurmagomedov er léttvigtarmeistari UFC eftir sigur á Al Iaquinta á laugardaginn. Khabib sigraði eftir dómaraákvörðun og var sigurinn aldrei í hættu. Þrátt fyrir það hafa margir sagt að brotalamir hafi sést í brynju Khabib. Þá er spurning hvort hann hafi sýnt of mikið fyrir framtíðar andstæðinga yfir þessar fimm lotur.

Khabib var þó aldrei í vandræðum og virtist frekar bara vera að leika sér að matnum í 3. og 4. lotu í stað þess að vera í einhverjum vandræðum. Iaquinta náði ekki mörgum höggum inn og fór Khabib allar fimm loturnar sem hann hefur ekki gert áður. Þarna er hann kominn með fimm lotu reynslu og virkaði bara nokkuð ferskur út bardagann enda stjórnaði hann ferðinni allan tímann. Hann sýndi þó sömu varnartilbrigði og hann hefur oft gert áður – að bakka með hökuna fremur berskjaldaða. Það er hægt að hitta í mann sem bakkar svona.

Iaquinta er fínn bardagamaður en hann er enginn Tony Ferguson eða Conor McGregor. MMA aðdáendum dauðlangar að sjá Khabib mæta þeim bestu og væri hrikalega gaman að sjá Conor og Khabib mætast. Óvíst er hvenær Conor mun berjast næst, sérstaklega eftir vesenið á honum í síðustu viku, en að sjá þessar tvær andstæður mætast er eitthvað sem við verðum að sjá. Ef einhver getur fundið hökuna á Khabib, þá er það Conor. En Khabib er líka ansi líklegur til að taka Conor niður og smassa hann bara.

Khabib veður inn með mikla pressu en kannski ekki neitt svakalega vitræna pressa. Hann keyrir í fellurnar og gæti Conor kannski tekið svona Aldo rothögg gegn Khabib þegar hann veður inn. Ef Conor pressar Khabib eins og Iaquinta gerði síðustu helgi eru góðar líkur á að Khabib lendi í vandræðum en líka góðar líkur á því að Khabib fari undir höggin hjá Conor og beint í fellu. Þessi bardagi verður að gerast! Væri líka gaman ef Khabib gæti fengið McDonald’s sem styrktaraðila, Burger King vs. McDonald’s.

Burtséð frá því hvort Conor mæti Khabib eða ekki þá er í það minnsta gaman að vera með léttvigtarmeistara sem er að fara að verja beltið. Khabib mun taka sumarið í frí (vegna Ramadan) en mun líklegast berjast aftur í september/nóvember. Eddie Alvarez, Justin Gaethje eða Dustin Poirier gæti verið álitlegir áskorendur ef Conor ætlar ekki að mæta Khabib og ef Tony Ferguson verður ennþá meiddur þá.

Eitt að lokum með þennan bardaga, hversu þungur er Max Holloway? Maður myndi telja að fjaðurvigtarmaður gæti náð vigt í flokknum fyrir ofan sig þó það sé bara með sex daga fyrirvara.

Rose Namajunas tókst að verja strávigtartitil sinn í fínasta bardaga. Namajunas byrjaði vel en fyrrum meistarinn komst betur inn í bardagann í 3. og 4. lotu. Namajunas endaði þó á að vinna eftir dómaraákvörðun og var Joanna mjög ósátt með niðurstöðuna. Hún taldi sig hafa unnið þetta örugglega en afskaplega fáir eru sammála henni.

Joanna náði 142 höggi í Namajunas en fékk bara 84 í sig og telur að það sé klárt merki um að hún hafi átt að vinna. Það segir þó bara hálfa söguna enda snýst þetta um að vinna lotur. Auk þess voru 2017 reglurnar í gildi á laugardaginn og þar lýta dómarar frekar á hvor gerir meiri skaða heldur en hvor lendir fleiri höggum. Namajunas vann að mínu mati lotur 1, 2 og 5 en Joanna 2. og 3. lotuna en dómararnir töldu að Joanna hefði bara unnið 4. lotu.

Joanna talaði mikið um að tapið í fyrri bardaganum hefði verið vegna niðurskurðarins. Kannski var hún of mikið að einblína á að það hefði verið ástæðan fyrir tapinu þar sem hún virtist ekki hafa lagfært mikið í leik sínum í seinni bardaganum. Hún var í vandræðum með að finna fjarlægðina með stungunni og var Rose Namajunas einfaldlega betri eins og hún sagði sjálf í viðtalinu í bardaganum. Jessica Andrade verður líklegast hennar næsta áskorun og það verður hörku bardagi!

Zabit Magomedsharipov og Kyle Bochniak áttu síðan geggjaðan bardaga á kvöldinu og virðist Zabit geta orðið ansi góður bardagamaður í fjaðurvigtinni. Þá sýndi Joe Lauzon að hann er einfaldlega búinn sem UFC bardagamaður. Hann virtist vera orðinn kraftlaus þegar 1. lota var rétt svo hálfnuð og átti ekkert í meðalmanninn Chris Gruetzemacher. Dagar Lauzon í UFC eru sennilega taldir og vonandi leggur hann hanskana á hilluna bráðlega.

Næsta UFC bardagakvöld er á laugardaginn þar sem þeir Justin Gaethje og Dusting Poirier mætast í rosalegum bardaga!

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is

-Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ)
-BS í sálfræði
-Lýsi UFC á Stöð 2 Sport
-MMA fíkill
Pétur Marinó Jónsson

Latest posts by Pétur Marinó Jónsson (see all)

Comments

comments

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Stöð 2 Sport -MMA fíkill

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.