Wednesday, April 24, 2024
HomeForsíðaEgill: Það var erfitt að peppa sig í úrslitabardagann

Egill: Það var erfitt að peppa sig í úrslitabardagann

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Egill Øydvin Hjördísarson varð í gærkvöldi Evrópumeistari í MMA. Við heyrðum í Agli frá Prag þar sem hann var auðvitað í skýjunum með sigurinn.

„Ég er mjög feginn að þetta sé búið og var orðinn mjög þreyttur andlega,“ segir Egill um líðan sína í dag.

Egill tók fjóra bardaga á fjórum dögum til að vinna gullið í léttþungavigtinni. Í gærkvöldi vann hann Pólverjann Pawel Zakrzewski með „rear naked choke“ í lok 2. lotu.

Egill segist vera alveg heill líkamlega eftir alla þessa bardaga. „Ég komst alveg heill líkamlega í gegnum þetta og fékk bara einhver fjögur högg í andlitið í gegnum alla bardagana og eitt hné í löppina. Líkaminn er alveg 100% heill en þetta var rosalega erfitt andlega. Það er svo mikið hæðum og lægðum í þessu. Að peppa sig upp fyrir bardaga, fara svo upp á hótel eftir bardagann að sofa og kæla sig niður og þurfa svo að græja sig aftur fyrir bardaga daginn eftir. Það var eiginlega erfiðast.“

„En ég fann góða leið til að ná mér niður. Var bara alltaf upp á herbergi, alltaf étandi, svaf alltaf þegar ég gat. Ég vaknaði snemma á morgnana, fór í vigtun, beint í morgunmat og aftur að sofa. Vaknaði, fékk mér hádegismat og fór svo aftur að sofa. Ég var búinn að heyra frá vinum mínum sem hafa farið í gegnum sérsveitarprófið að éta alltaf þegar ég gat, þótt mig langaði ekkert mikið að borða.“

Egill barðist á Shinobi War 7 bardagakvöldinu í lok júlí þar sem hann sigraði Will Jones eftir þrjár lotur. Egill fékk blóðsykursfall í bardaganum og var bardaginn gífurleg andleg þrekraun fyrir hann. „Síðast þegar ég barðist lenti ég í því að fá blóðsykursfall en ég fann góða leið til að countera það núna með því að vera alltaf étandi. Annars var þetta bara ógeðslega gaman og ég gæti talað endalaust um þetta.“

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Eins og áður segir var erfitt fyrir Egil að þurfa alltaf að koma sér niður eftir að hafa unnið bardaga og þurfa að koma sér svo aftur í gírinn daginn eftir. „Fyrir síðasta bardagann langaði mig ekkert að keppa. Ég var bara búinn á því andlega og var lengi að koma mér í gírinn. Það var ekki fyrr en þeir kölluðu á mig að ég væri næstur, þá komst ég loksins í gírinn.“

Í undanúrslitum mætti Egill Búlgaranum Tencho Karaenev. Egill tapaði fyrir Tencho á Evrópumótinu í fyrra og var staðráðinn í að ná fram hefndum. Egill var auðvitað hæst ánægður þegar sigurinn var í höfn. „Mér leið eins og ég hefði unnið mótið. Hann var líka orðinn svartur í framan þar sem hann var að þrjóskast við að halda áfram þegar ég var með henginguna. Held ég hafi aldrei kreist eins fast á ævinni. Það var samt engin pæling á bakvið þetta, ég hoppaði bara inn í þetta og hann fattaði ekki hvað var í gangi fyrr en ég var búinn að læsa takinu,“ segir Egill um sigurinn á Tencho Karaenev.

„Það var ótrúlega góð tilfinning að ná tapinu til baka. Ég er búinn að ímynda mér að berjast við þennan mann endalaust, hugsa um þetta aftur og aftur. Svo þegar loksins kom að því var ég ógeðslega stressaður. En það var svo gaman að þetta skyldi hafa gengið svona vel. Það var erfitt að peppa sig í úrslitabardagann eftir þetta. Það var erfitt en það tókst.“

Þjálfararnir sem voru með í för, Jón Viðar Arnþórsson og Árni Ísaksson, eiga hrós skilið eftir vaska framgöngu liðsins á mótinu en Egill á mörgum að þakka eftir sigurinn. Liðsfélagi og herbergisfélagi Egils, Bjarni Kristjánsson, ákvað að gefa bardagann en þeir áttu að mætast í 8-manna úrslitum vegna mistaka mótshaldara og fær hann sérstakar þakkir.

„Mig langar að þakka Bjarna fyrir að vera herramaður og gefið bardagann. Þakkir til allra þeirra sem koma að þjálfuninni með einum eða öðrum hætti eins og vinir, fjölskylda og allur utanaðkomandi stuðningur sem ég hef fengið. Það var mjög gott að finna fyrir öllum stuðningnum á erfiðum tímum þegar hausinn hefur verið að brotna. Stuðningurinn hefur hjálpað mér að byggja mig aftur upp, láta mig sjá af hverju ég er að gera þetta og af hverju ég er leggja allt þetta á mig.“

„Ég hefði ekki getað náð þessu ef allir þessir litlu hluti hefðu ekki smellt saman. Það er frábært að finna fyrir því að það er fólk að fórna sér fyrir mann,“ segir Egill að lokum.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular