Thursday, March 28, 2024
HomeForsíðaFöstudagstopplistinn: 5 ógnvænlegustu bardagamennirnir!

Föstudagstopplistinn: 5 ógnvænlegustu bardagamennirnir!

Föstudagstopplistinn í dag snýr að fimm ógnvænlegustu (e. intimidating) bardagamönnum sögunnar. Þetta eru menn sem aðrir hræðast vegna útlits þeirra og menn myndu almennt vilja forðast að mæta í húsasundi. Bardagaáhugamenn vita að Fedor Emelianenko leit pínu ógnvænlega út vegna þess hversu rólegur hann var en það lét menn halda að hann væri geðsjúklingur. Þetta eru hins vegar menn sem þeir sem fylgjast ekkert með bardagaíþróttum myndu veðja á einfaldlega vegna útlits þeirra. Jake Shields er andstæðan við þessa menn.

5. James Thompson

James-Thompson

Bretinn James “The Colossus” Thompson átti ekkert sérstakan feril í MMA en hann var 1,96 m á hæð og leit ógnvænlega út. Hann lítur út fyrir að vera algjör “meathead” en er skarpari en marga grunar. Hann heldur úti skemmtilegri bloggsíðu um MMA (sjá hér) auk þess að hafa verið gestur í hlaðvarpi Joe Rogan þar sem hann kom vel fyrir.

4. Alexander Emelianenko

Þó Fedor hafi alltaf verið hæfileikaríkari bróðurinn áttu þeir bæðurnir það þó sameiginlegt að vera ógnvænlega yfirvegaðir í bardaga. Fedor leit alltaf út fyrir að vera bara Rússi með smá bumbu á meðan Alexander var ógnvænlegri með húðflúrin sín. Hann gæti auðveldlega leikið rússneskan mafíuforingja, sérstaklega í ljósi þess að hann er með mörg mafíutengd húðflúr og hefur setið inni. Hér berst hann við áðurnefndan Thompson þar sem hann lét ekki górillutakta Thompson koma sér úr jafnvægi.

3. Thiago Silva

Thiago Silva nýbúinn að rota Keith Jardine.

Thiago Silva hefur aldrei litið út fyrir að vera neinn kórdrengur. Silva ólst upp við mikla fátækt á sínum yngri árum og þurfti að velja milli þess að kaupa mat eða borga æfingargjöld á sínum tíma (hann valdi að borga æfingargjöld..). Þegar hann var upp á sitt besta í UFC var hann virkilega ógnvænlegur og þá sérstaklega eftir rothöggið á Keith Jardine. Þar var maður sem fáir myndu vilja mæta í svona ham. Það er eitthvað ógnvænlegt við tæpa Brassa sem koma úr slæmum hverfum og líta út eins og Thiago Silva.

2. Mirko “Cro Cop” Filipovic í Pride

Þegar Cro Cop var upp á sitt besta í Pride var hann virkilega ógnvænlegar. Steinkalt starandi augnaráðið gat dregið vindinn úr ansi mörgum. Eins og flestir vita var Cro Cop króatískur sérsveitarmaður og einn besti sparkboxarinn til að skipta yfir í MMA. Cro Cop leit ekki bara út fyrir að vera ógnvænlegur heldur var hann einnig að sigra menn með miklum yfirburðum, og þá sérstaklega með vinstri hásparkinu sínu, þegar hann var á toppnum. Hann var ekki samur í UFC og í Pride og var full vinalegur þar að margra mati.

1. Wanderlei Silva í Pride

wanderlei

Þeir tver efstu á þessum lista eiga eitthvert besta “staredown” í sögu MMA (sjá neðar). Þegar Wanderlei Silva var í Pride var hann gríðarlega ógnvænlegur og ekki að ástæðulausu að hann skyldi vera kallaður “The Axe Murderer” enda leit hann út eins og morðingi! Með tattú á hnakkanum snéri hann úlnliðunum í hringi og starði á andstæðing sinn fyrir bardagann. Margir andstæðinga Silva voru búnir að játa sig sigraða áður en bardaginn hófst einfaldlega vegna hræðslu. Silva var taplaus í 4 ár í Pride og átti sín bestu ár þar. Eins og með Cro Cop var Silva ekki sá sami í UFC og hefur aldrei verið nálægt því að berjast um titil þar. Þrátt fyrir að líta út eins og morðingi er Wanderlei Silva sagður einn sá vinalegasti í bransanum. Í viðtölum grínast hann mjög mikið og hefur ávallt verið vinsæll meðal aðdáenda.

Aðrir sem voru nálægt því að komast á lista: Jeff Monson, Hector Lombard, Brock Lesnar.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular