Tuesday, July 16, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaHaraldur Nelson: Leið mjög illa fyrir Demian Maia bardagann (2. hluti)

Haraldur Nelson: Leið mjög illa fyrir Demian Maia bardagann (2. hluti)

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Á dögunum áttum við langt og gott spjall við Harald Dean Nelson. Spjallið náði allt frá upphafi ferils Gunnars til sigursins gegn Albert Tumenov. Í öðrum hluta viðtalsins förum við yfir hápunktana og lágpunktana á ferli Gunnars frá hans sjónarhorni.

Haraldur Dean Nelson er faðir og umboðsmaður Gunnars Nelson en Haraldur er einnig framkvæmdastjóri Mjölnis.

Gunnar Nelson barðist sinn fyrsta MMA bardaga þann 5. maí 2007 gegn Dananum John Olesen. Bardaginn var úrskurðaður jafntefli en Gunnar sigraði næstu 13 bardaga sína.

Það er eflaust streitusöm tilfinning að horfa á 18 ára frumburð sinn keppa í MMA. Þannig var það að minnsta kosti fyrir Harald í bardaganum gegn Olesen. „Ég var mjög stressaður fyrir þann bardaga. Gekk um gólfið alveg fram og aftur. Ég var á fremsta bekk og ekki í horninu og mér fannst mjög óþægilegt að vera ekki í horninu. Ég er stressaður fyrir alla bardaga en það er mikið betra að vera alveg með honum,“ segir Haraldur.

„Ég var ekki í horninu í fyrstu bardögunum. Hann var að keppa mikið á litum bardagakvöldum í Írlandi og þá var ég ekki í horninu. Í bardaganum gegn Sam Elsdon var ég heima því ég var búinn að lofa mér annað þegar bardaginn kom upp. Þá hét ég sjálfum mér því að ég myndi aldrei láta þetta víkja fyrir því sem ég var að gera. Ég myndi alltaf taka bardaga hjá Gunna fram yfir það sem ég væri að gera. Mér leið mjög illa að vera ekki hjá honum og með honum. Ég hef verið í horninu síðan.“

Í flestum bardögum Gunnars í UFC hafa þeir John Kavanagh, Jón Viðar Arnþórsson og Haraldur verið í horninu hjá Gunnari. „Eina ástæðan fyrir því að ég myndi fara úr horninu er sú að við teldum að það væri betra að hafa annan hornamann og þá vík ég bara úr horninu. Það er ekkert mál. Bardaginn og campið hans Gunna gengur fyrir.“

Eins og áður segir hefur það verið streitufullt að fylgjast með syni sínum berjast. Haraldur hefur þó róast niður eftir því sem bardagarnir urðu fleiri. „Ég var mjög stressaður fyrir þessa fyrstu bardaga en hef róast. Hann hafði alltaf nokkra yfirburði fyrstu bardagana og í raun alveg þangað til hann kemur í topp 15 í UFC. Ég hef róast niður en er auðvitað alltaf svolítið stressaður.“

Gunnar hefur verið að klífa upp metorðastigann í UFC og fær þar af leiðandi erfiðari andstæðinga. Það hefur því verið misjöfn reynsla fyrir Harald að vera í horninu eftir því hver andstæðingurinn var. „Bardaginn gegn Brandon Thatch var pínu streituvaldandi en þá var Gunni nýbúinn að tapa fyrir Rick Story og var að koma til baka eftir það. Thatch er svo hættulegur standandi, stór og explosive og sterkur og var búinn að vera að standa sig vel.“

Gameplan-ið var auðvitað að taka Brandon Thatch niður en ég vissi að Gunni ætlaði líka að standa aðeins með honum en það var pínu stressandi vitandi að því. Gunni var ákveðinn að reyna á standup-ið sitt á móti svona öflugum bardagamanni. Það gekk auðvitað eftir og hann kýldi hann bara niður.“

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Eins flottur og sigurinn var gegn Brandon Thatch var tapið gegn Demian Maia hrikalega erfitt – og ekki síst fyrir Harald í horninu. „Mér leið verst í Demian Maia bardaganum af því að ég vissi þegar við vorum að labba inn að Gunni væri engann veginn í standi. Það kom bara í ljós strax í upphitun að það væri eitthvað að. Hlutir voru ekki í lagi líkamlega og ef þetta hefði verið fótboltaleikur hefði maður skipt inn á varamanni.“

„Þarna var hann að fara á móti margföldum heimsmeistara í gólfinu þannig að það var ekki eins og hann myndi bara taka þennan bardaga niður og hafa yfirburði þar. Þetta var alltaf að fara að verða mjög erfiður bardagi og eins og hann hefur sjálfur sagt lærði hann að komast af þarna. Demian Maia hefur aldrei verið betri en núna og klárað Neil Magny og Matt Brown sem eru báðir á topp tíu. En Gunni, engann veginn í standi, heldur út þrjár lotur gegn honum. Það fannst mér vel af sér vikið en mér leið mjög illa fyrir þann bardaga.“

Maia hefur oft verið gagnrýndur fyrir að nota höggin lítið í gólfinu. Það var hins vegar ekki upp á teningnum gegn Gunnari. „Ég hef heldur aldrei séð Maia beita svona mikið af höggum í gólfinu eins og hann gerði þarna. Maia stjórnaði bardaganum algjörlega og beitti höggunum óspart. Þetta var ekki Gunni þarna. En hann var þarna og var heldur betur í vandræðum og það var mjög óþægilegt að sitja þarna.“

„En á móti kemur að við sem þekkjum sportið mjög vel vitum að þarna inni var mjög góður dómari, Big John McCarthy og hann er einn af þeim bestu í heiminum í þessu. En svona er bara sportið, þetta er harðgert og aldrei þægilegt að vera á þeim enda sem er að tapa. Sportið er þannig. Þetta er ekki eins og þú sért undir á stigum í borðtennis, það er verið að lemja þig. Það var óþægilegt að labba inn í bardagann, allt heila dæmið var óþægilegt. Þetta var slæmt kvöld fyrir okkur.“

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Eftir bardagann gegn Maia bárust fréttir af því að Demian Maia hefði áhuga á að koma hingað til Íslands til að æfa með Gunnari. Lítið höfum við heyrt meira af því en hvað er til í því? „Eftir bardagann labba ég fram og Demian Maia kemur til mín. Ég óska honum auðvitað til hamingju og sagði honum að ég væri mikill aðdáandi. Þá fer hann að segja mér að hann sé mikill aðdáandi Gunna og hafi verið lengi og hafi mikinn áhuga á að æfa með honum. Þjálfarinn hans kemur til mín líka og endurtekur þetta og við tölum aðeins saman og þeir lýsa bara yfir miklum áhuga á að koma og æfa með Gunna. Og bjóða Gunna líka að koma til sín að æfa.“

„Hálftíma seinna erum við Gunni að labba baksviðs og þá kemur Demian Maia til Gunna en þetta var í fyrsta sinn sem þeir hittust eftir bardagann. Hann endurtekur þetta við hann en þetta var mjög flott augnablik. Maia hefur alltaf orð á sér fyrir að vera mjög respectful og þeir lýsa því yfir að þeir hafi mikinn áhuga á að koma til Íslands og æfa með honum.“

Eftir tapið erfiða gegn Maia kom Gunnar Nelson heldur betur sterkur til baka og sigraði Albert Tumenov. Eftir bardagann gegn Tumenov gerðist það sama og eftir bardagann gegn Maia en meira um það á föstudaginn.

Haraldur Nelson: Kom ekki til greina að setja Gunnar á ofvirknilyf (1. hluti)

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -spot_img

Most Popular