spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaHaraldur Nelson: Þjálfari Tumenov vildi síst mæta Gunnari af öllum í veltivigtinni...

Haraldur Nelson: Þjálfari Tumenov vildi síst mæta Gunnari af öllum í veltivigtinni (3. hluti)

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Á dögunum áttum við langt og gott spjall við Harald Dean Nelson. Spjallið náði allt frá upphafi ferils Gunnars til sigursins gegn Albert Tumenov. Í þriðja og síðasta hluta viðtalsins förum við yfir bardagann gegn Tumenov.

Gunnar Nelson sigraði Albert Tumenov með hengingu í 2. lotu þann 8. maí. Bardaginn fór fram í Rotterdam í Hollandi og með sigrinum komst Gunnar aftur á topp 15 í veltivigtinni á styrkleikalista UFC. Gunnar hafði áður dottið af listanum eftir tap gegn Demian Maia.

Eins og kom fram í 2. hluta viðtalsins hafði Demian Maia mikinn áhuga á að æfa með Gunnari Nelson eftir bardaga þeirra. Það sama var eiginlega upp á teningnum eftir sigur Gunnars á Albert Tumenov í maí.

„Eftir bardagann sagði Gunni að hann vildi æfa með Tumenov og það var gagnkvæmt. Tvo bardaga í röð tölum við við andstæðinginn um að fara að æfa saman. En svo veit maður ekkert hvað verður úr því,“ segir Haraldur.

„Það eru tilfinningar í þessu og Tumenov leið þarna illa eftir bardagann alveg eins og okkur leið eftir Maia bardagann og Rick Story bardagann. Ég get ímyndað mér að honum hafi liðið ennþá verr þar sem þetta var í fyrsta sinn sem hann er stoppaður.“

Haraldur og Gunnar voru búnir að fylgjast með Tumenov áður en þeir áttu að mætast. Þeim fannst hann áhugaverður bardagamaður enda hafði hann sigrað fimm bardaga í röð og litið vel út. „Þegar Joe Silva [sá sem sér um að raða bardögunum saman í UFC] kom með þetta nafn til mín fannst mér það pínu leitt. Auðvitað athyglisverður bardagi en ég hef alltaf haldið pínulítið með Tumenov í hans bardögum.“

„Gunni var búinn að nefna það við mig fyrir einhverju síðan að honum fannst hann athyglisverður og það væri gaman að æfa með honum. Eftir bardagann snýst dæmið við frá Maia bardaganum. Gunni segist vilja tala við Tumenov og ég fer að leita að honum. Þá kemur þjálfari Tumenov til mín af fyrra bragði og segir mér að hann hafi lengi verið mikill aðdáandi Gunna og hann hafi verið afar fúll þegar þessi bardagi var boðinn.“

„Auðvitað tóku þeir bardaganum enda segir enginn nei við UFC en hann var svona eins og ég; ‘aaah, af hverju þessi?’. Hann vildi síst fá Gunna sem andstæðing af öllum sem voru í veltivigtinni. Hann sagðist lengi hafa fylgst með Gunna en hann er með bardagaklúbb í New Jersey en Gunni hefur auðvitað mikið æft í New York hjá Renzo Gracie. Hann virtist vera vel að sér þegar kom að ferli Gunna.“

„Gunna er þannig séð sama hverjum hann mætir og hvar hann berst. Eini sem hann langaði virkilega að berjast við er Demian Maia. Það var hræðilegt kvöld og var hann mjög svekktur eftir það. Hann var auðvitað fúll eftir tapið gegn Rick Story en ekkert miðað við hvað hann var svekktur eftir Maia bardagann. Það var fyrst og fremst að hann skyldi hafa verið svona þennan dag.“

Sigurinn á Tumenov var gríðarlega mikilvægur fyrir Gunnar enda hafði hann tapað tveimur af síðustu þremur bardögum sínum í UFC. Margir sérfræðingar töldu Tumenov sigurstranglegri og því þótti sigur Gunnars einkar glæsilegur í augum sérfræðinganna.

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Þetta kvöld í Rotterdam var eiginkona Haralds og móðir Gunnars, Guðrún Hulda, viðstödd bardaga hjá Gunnari í fyrsta sinn. En hvers vegna ákvað hún að skella sér núna? „Til stóð að Gunni myndi berjast við Demian Maia í Dublin áður en Maia fékk sýkingu og það varð ekkert af bardaganum. Þá vorum við búin að kaupa miða út og ætlaði hún að sjá Gunna í Dublin. Henni fannst mjög gaman á UFC bardagakvöldinu í Dublin og var ákveðin að fara á næsta bardaga hjá Gunnari í Evrópu. Það var engin sérstök ástæða fyrir því. Þegar það var ljóst að hann myndi vera í Rotterdam keyptum við bara miða út. Hún hafði mjög gaman af þessu enda fór kvöldið vel.“

Ekkert hefur verið ákveðið með framhaldið hjá Gunnari eftir sigurinn á Tumenov. Conor McGregor mætir Nate Diaz öðru sinni á UFC 202 þann 20. ágúst og gæti Gunnar barist þar. Þá gæti Gunnar einnig verið á næstu bardakvöldum UFC í Evrópu sem verða í Hamburg í september og svo hugsanlega á Írlandi í nóvember. Ekkert hefur þó verið ákveðið og hafði Haraldur ekki heyrt neitt frá UFC þegar viðtalið fór fram.

Eins og áður segir er Gunnari nokkuð sama hverjum hann mætir. Hann er tilbúinn til að takast á við þá alla. Hvert förinni verði heitið næst er óljóst á þessari stundu en nokkuð ljóst að þjóðin mun sitja límd við skjáinn. Við munum að sjálfsögðu fylgjast með för Gunnars í framtíðinni og vonandi fá fleiri sögur frá Haraldi úr þessum frægðarförum.

Við þökkum Haraldi kærlega fyrir tímann og hlökkum til að heyra fleiri sögur.

Haraldur Nelson: Kom ekki til greina að setja Gunnar á ofvirknilyf (1. hluti)

Haraldur Nelson: Leið mjög illa fyrir Demain Maia bardagann (2. hluti)

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular