Thursday, April 18, 2024
HomeForsíðaHvað myndi sigur á Demian Maia gera fyrir Gunnar?

Hvað myndi sigur á Demian Maia gera fyrir Gunnar?

Gunnar Nelson
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Gunnar Nelson mætir Demian Maia á UFC 194 þann 12. desember. Bardaginn er gríðarlega mikilvægur fyrir Gunnar enda gæti hann komist meðal fremstu manna í flokknum með sigri.

Gunnar er sem stendur í 12. sæti styrkleikalista UFC á meðan Maia er í því sjötta. Maia er einn allra besti gólfglímaðurinn í MMA og er ekki langt frá titilbardaga.

Staðan á toppnum í veltivigtinni er dálítið skrítin um þessar mundir ef við skoðum efstu menn:

Meistari: Robbie Lawler
1. Rory MacDonald
2. Tyron Woodley
3. Johny Hendricks
4. Carlos Condit
5. Matt Brown
6. Demian Maia

Robbie Lawler mun verja beltið sitt þann 2. janúar gegn Carlos Condit (#4). MacDonald (#1), sá sem er næstur á eftir Lawler, hefur þegar tapað tvisvar fyrir meistaranum Lawler og þó báðir bardagarnir hafi verið frábærir mun sennilega líða smá tími þar til MacDonald fær annan séns á beltinu. Tyron Woodley (#2) mun fá næsta titilbardaga á eftir Condit. Johny Hendricks er enn í 3. sæti styrkleikalistans en hann mun að öllum líkindum fara upp í millivigt eftir að hafa átt í vandræðum með að ná veltivigtartakmarkinu. Matt Brown (#5) er meiddur en ekki er vitað hvenær hann mun snúa aftur til leiks.

Sigur Gunnars gegn Maia myndi hleypa honum hátt upp listann eða upp í 6.-8. sæti. Það má líkja þessa röðun við slönguspilið og myndi Gunnar lenda á reit með stórum stiga sigri hann Maia. Gunnar myndi því vera „in the mix“ eins og Dana White, forseti UFC, notar yfir þá sem eru tiltölulega nálægt titilbardaga.

Takist Gunnari að sigra á sannfærandi máta myndi hann eflaust fá gríðarlegt lof og þá sérstaklega ef hann klárar Maia. Maia hefur aðeins einu sinnið verið rotaður en aldrei tapað eftir uppgjafartak. Það er óhætt að segja að BJJ-heimurinn myndi leggjast á aðra hliðina takist Gunnari að sigra Maia með uppgjafartaki enda Maia margfaldur heimsmeistari í BJJ.

Til að eiga í von um titilbardaga þyrfti Gunnar að sigra mjög sannfærandi og taka að minnsta kosti einn bardaga í viðbót og jafnvel tvo á eftir Maia (gegn sterkum andstæðingum). Á eftir Lawler-Condit í janúar mun næsti titilbardagi í veltivigtinni sennilega ekki fara fram fyrr en í apríl-maí og mun Woodley fá tækifærið sitt þá. Þannig að þó Maia sé ofarlega á listanum er enn ótímabært að hugsa um titilbardaga hjá okkar manni.

Það á þó ekki alltaf að taka of mikið mark á þessum styrkleikalistum enda er Maia núna að mæta andstæðingi (Gunnar) sem er í 12. sæti listans. Stökkvi Gunnar hátt upp listann með sigri á Maia gæti hann þess vegna næst fengið andstæðing sem er neðar en hann á listanum. Veltivigtin er smekkfull af hágæða bardagamönnum á borð við Dong Hyun Kim, Rick Story, Stephen Thompson, Neil Magny og Kelvin Gastelum sem eru allir neðar en Maia á listanum.

Það má svo heldur ekki gleyma því að Hector Lombard er í keppnisbanni og mun sennilega snúa aftur á topp fimm í veltivigtinni eftir að banninu lýkur í janúar. Talið er líklegt að Lombard mæti Rory MacDonald í mars á næsta ári.

Allt eru þetta aðeins vangaveltur um þá möguleika sem eru í stöðunni. Gunnar þarf fyrst að vinna Maia og verður það þrautinni þyngri. Þetta er langstærsti bardagi Íslandssögunnar og er Maia langsterkasti andstæðingur Gunnars hingað til. Gunnar þarf að eiga frábæra frammistöðu til að sigra hinn reynslumikla Maia.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

1 COMMENT

  1. Ég spái því að Gunnar sigri þennan bardaga. Þetta verður fullorðins og bannað börnum. Gunnar mun taka Maia á sama máta og þegar hann sigraði Santiago. Þetta verða ss 3 lotur og það verður ekki sjón að sjá Maia eftir þetta og Gunnar verður líklega frekar bólginn og slæmur í olnbogunum næstu daga á eftir.

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular