0

Khabib Nurmagomedov fær Al Iaquinta í fimm lotu titilbardaga

Það verða þeir Khabib Nurmagomedov og Al Iaquinta sem berjast í aðalbardaga kvöldsins á UFC 223. Eftir erfiðan dag erum við loksins komin með aðalbardaga á UFC 223.

Upphaflega átti Khabib Nurmagomedov að mæta Tony Ferguson í aðalbardaga kvöldsins. Bardaginn átti að vera um léttvigtartitilinn og átti að svipta Conor sínum titli um leið og bardaginn myndi klárast.

Þann 1. apríl neyddist Tony Ferguson til að draga sig úr bardaganum vegna meiðsla. Í hans stað kom fjaðurvigtarmeistarinn Max Holloway og var vitað að hann ætti erfiðan niðurskurð í vændum. Holloway er að stíga upp úr meiðslum en taldi sig geta barist við Khabib með aðeins sex daga fyrirvara.

Í niðurskurðinum í morgun þótti ástand Holloway vera afar slæmt og var Holloway meinað að skera meira niður og í kjölfarið keppa. Holloway var 159 pund þegar niðurskurðurinn var stöðvaður en það voru þó ekki læknar sem stöðvuðu niðurskurðinn eins og áður hefur verið haldið fram.

Þá hófst leit að nýjum aðalbardaga og var Anthony Pettis fyrsta val. Hann vildi hins vegar fá meira borgað en það sem UFC bauð honum og var Paul Felder næsta val. Íþróttasamband New York ríkis vildi hins vegar ekki samþykkja þann bardaga þar sem Paul Felder er ekki á topp 15 styrkleikalistanum!

Al Iaquinta var því síðasta von UFC og hefur hann nú samþykkt að mæta Khabib. Með sigri verður Khabib léttvigtarmeistari UFC en upphaflega átti Al Iaquinta ekki að geta orðið meistari með sigri. Þar sem Iaquinta var 155,2 pund í vigtuninni í morgun átti hann ekki rétt á verða meistari. Í titilbardögum í UFC þurfa bardagamenn að vera akkúrat í réttri þyngd eða undir. Í venjulegum bardögum mega bardagamenn vera einu pundi yfir en þegar Iaquinta vigtaði sig inn í morgun átti hann enn að berjast við Paul Felder.

Dana White sagði hins vegar á blaðamannafundinum fyrr í kvöld að Iaquinta hefði verið í nærbuxum á vigtinni. Nærbuxurnar voru vigtaðar og voru 0,2 pund. Þó þróttasamband New York myndi ekki samþykkja Iaquinta sem alvöru meistara myndi UFC gera það. Einsdæmi í UFC og afar óvenjulegt.

Paul Felder er því án bardaga sem og Anthony Pettis en andstæðingir Pettis, Michael Chiesa, meiddist i látunum í gær. Pettis og Felder munu þó ekki mætast þó þeir berjist báðir í léttvigt en þeir eru æfingafélagar og koma frá sömu þjálfurum.

Pétur Marinó Jónsson

Comments

comments

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Stöð 2 Sport -MMA fíkill

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.