Saturday, April 27, 2024
HomeForsíðaMánudagshugleiðingar eftir UFC 171

Mánudagshugleiðingar eftir UFC 171

UFC 171 fór fram síðastliðið laugardagskvöld. Í aðalbardaga kvöldsins mættust þeir Johny Hendricks og Robbie Lawler í bardaga um veltivigtartitilinn í einum mest spennandi titilbardaga sem hefur sést í veltivigtinni í mörg ár. Bardaginn var kjörinn besti bardagi kvöldsins, en bónus fyrir bestu frammistöðuna hlutu Ovince St. Preux og Dennis Bermudez.

Denniz Bermudes ósigraður í fjaðurvigt

Bermudes hefur hingað til ekki verið á allra vörum en hann sigraði sinn sjötta bardaga í röð í fjaðurvigtardeild UFC. Sú staðreynd hefur eflaust farið framhjá mörgum en hann minnti rækilega vel á sig um helgina þegar hann kláraði Jimmy Hettes í þriðju lotu. Fjaðurvigtin er gríðarlega spennandi eins og er og bætist Bermudez í stóran hóp skemmtilegra fjaðurvigtarkappa.

St. Preux vinnur ‘Al Capone’ á Von Flue hengingu

Nikita Krylov ber bardaganafnið ‘Al Capone’ sem er mögulega eitt versta bardaganafn í UFC í dag. Þetta var í fyrsta sinn sem Krylov barðist í léttþungavigtinni, en áður hafði hann keppt sem þungavigtarmaður, þyngdarflokki sem hann er einfaldlega alltof léttur fyrir. Ferillinn sem léttþungavigtarmaður hefst þó ekki vel því St.Preux kláraði bardagann eftir aðeins eina og hálfa mínútu með hinni óvenjulegu Von Flue hengingu. Hengingin er skýrð eftir Jason Von Flue, sem var sá fyrsti til að beita henni í UFC. Sjá má hreyfimynd af sigri St.Preux hér fyrir neðan. Krylov gerði þau byrjendamistök að halda í “guillotine” hengingu þrátt fyrir að St. Preux var kominn framhjá löppunum og í “side mount”. Það er ekki góðs viti um framtíð hans í léttþungavigtinni.

 

 

Myles Jury er enn ósigraður

Með sigri sínum á Diego Sanchez hefur Jury sigrað alla fjórtán bardaga sína og unnið fimm í röð í UFC. Það er nokkuð gott í léttvigtinni sem er eflaust einn af sterkari þyngdarflokkunum og þýðir einnig að Jury er með flesta sigra í röð í þyngdarflokknum ásamt nokkrum öðrum. Þrátt fyrir þetta hefur ekki verið mikið talað um Jury og hann er ekki í topp 15 í léttvigtinni samkvæmt styrkleikalista UFC. Hann hefur sigrað ágætis andstæðinga, svo sem Michael Johnson, Ramsey Nijem og nú síðast Diego Sanchez. Hann mun væntanlega komast á topp 15 á nýjum styrkleikalista UFC.

Hector Lombard sýnir glæsileg köst en þreytist í seinni lotunum

Hector Lombard sýndi fram á það gegn Jake Shields að júdóköstin hans munu valda flestum í veltivigtinni vandræðum. Jake Shields er frábær glímumaður, svartbeltingur sem sigraði Demian Maia í síðasta bardaga sínum og hefur glímt í 26 ár. Þrátt fyrir það tókst Lombard að henda honum um búrið eins og dúkku og náði nokkrum gullfallegum köstum, t.d. þessum tveim hér að neðan:

 

Eitt áhyggjuefni fyrir Lombard og aðdáendur hans er sú staðreynd að hann hægir töluvert á sér eftir fyrstu lotu og er í raun allt annar bardagakappi í fyrstu lotu en hann er í þeirri annari og þriðju. Þetta gæti reynst vandamál ætli hann sér að keppa um titilinn þar sem titilbardagar eru fimm lotur. Lombard hefur gríðarlegan sprengikraft en þreytist fljótt og er ekki á tánnum þegar líður á bardagann. Þrátt fyrir það mun Lombard líklegast gera góða hluti í veltivigtinni en hann verður að laga þessi vandamál með úthaldið. Hann gæti fengið sigurvegarann í bardaga Jake Ellenberger og Tarec Saffiedine.

Johny Hendricks er nýji veltivigtarmeistarinn

Bardagi Hendricks og Lawler var hreint út sagt frábær skemmtun. Þetta var í fyrsta sinn síðan 2007 sem Georges St. Pierre er ekki í titilbardaga í veltivigtinni. Margir ásökuðu GSP um að taka of fáa sénsa og að reyna einfaldlega að vinna  á stigum. Þessar gagnrýnisraddir fengu eitthvað fyrir sinn snúð í þessum bardaga þar sem Hendricks og Lawler skiptust á þungum höggum allar fimm loturnar. Lawler sýndi fram á frábæra felluvörn og Hendricks náði aðeins tveimur af tíu fellum. Í þriðju lotu virtist Lawler vera nálægt því að klára bardagann en Hendricks náði að jafna sig. Það voru síðan glímuhæfileikar Hendricks sem gerðu gæfumuninn þegar hann náði fellu þegar mínúta var eftir af fimmtu lotu og tryggði honum sigurinn. Það var virkilega ánægjulegt að sjá Hendricks nota lágspörk en það er eitthvað sem hefur ekki sést mikið frá honum hingað til.

 Hendricks og Lawler eru greinilega með stálhökurHendricks og Lawler eru greinilega með stálhökur

Næsti andstæðingur Hendricks gæti orðið Rory MacDonald en eftir bardaga Lawler og Hendricks sýndi UFC klippu af MacDonald. Á meðan talaði Joe Rogan um að hann teldi MacDonald vera sá sem ætti skilið titilbardaga. Hvað sem því líður eru spennandi tímar framundan í veltivigtardeildinni með nýjum meistara. Eftir mörg ár með meistara sem sýndi yfirburði yfir alla aðra í deildinni, erum við nú loks með deild þar sem fleiri aðilar virðast líklegir til að geta gert atlögu að titlinum. Menn eins og Robbie Lawler, Rory MacDonald, Matt Brown, Hector Lombard og fleiri gætu allir gert atlögu að titlinum á næstu misserum.

Guttormur Árni Ársælsson
Guttormur Árni Ársælsson
-Pistlahöfundur -Fjólublátt belti í BJJ -Lýsi UFC á Viaplay þegar Pétur hefur eitthvað merkilegra að gera
RELATED ARTICLES

1 COMMENT

  1. McDonald á ekki skilið að fá titleshot það væri hneyksli ef svo væri. Þarf að vinna sig upp aftur eftir tap á móti Robbie Lawler, UFC á bara að láta Tyron Woodley berjast held að það sé erfiðasta matchup fyrir Johnny.

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular