Saturday, April 20, 2024
HomeForsíðaMánudagshugleiðingar eftir UFC 181

Mánudagshugleiðingar eftir UFC 181

lawler titillUFC 181 fór fram síðastliðið laugardagskvöld þar sem tveir stórir titilbardagar fóru fram. Óhætt er að segja að bardagakvöldið hafi verið frábært og stóð undir öllum væntingum.

Robbie Lawler er UFC meistari árið 2014, hversu bilað er það? Saga Robbie Lawler er sennilega ein besta endurkomusaga í sögu MMA. Maðurinn sem var eitt sinn meðalmaður í Strikeforce (þar sem hann sigraði þrjá bardaga og tapaði fimm) er nú veltivigtarmeistari UFC.

Sigurinn var að vissu leiti umdeildur. Lawler tók þetta eftir klofna dómaraákvörðun og eru skiptar skoðanir um hvort ákvörðunin hafi verið rétt eða ekki. Hendricks vildi þó ekki kenna dómurunum um og var frekar ósáttur með eigin frammistöðu og taldi að hann hefði getað gert betur til að sigra. Einn dómaranna gaf Lawler þó sigur í fjórum lotum af fimm (49-46) og ætti sá dómari sennilegast að einbeita sér að einhverju allt öðru en dómgæslu.

Flestir bardagaaðdáendur virðast gleðjast yfir velgengni Lawler og samgleðjast honum innilega í stað þess að kvarta yfir dómaraákvörðuninni. Lawler hefur lengi verið gríðarlega vinsæll bardagamaður þrátt fyrir að ekki hafi alltaf gengið sem skyldi.

Sigurinn er þýðingarmikill fyrir American Top Team, aðdáendur og ekki síst Lawler sjálfan. Þrátt fyrir að American Top Team hafi lengi verið meðal fremstu bardagafélaga heims er þetta fyrsti stóri titill þeirra. Gleðin var því ósvikin baksviðs eftir bardagann og að sögn sjónarvotta mátti heyra fagnaðarlætin langar leiðir. Lawler hefur verið lengi í íþróttinni og á titilinn fullkomlega skilið. Aðdáendur hafa alltaf staðið þétt við bakið á honum og því var þetta kærkominn sigur fyrir marga.

Anthony Pettis lét 16 mánaða hlé frá keppni ekki hafa mikil áhrif á sig og hengdi Gilbert Melendez í 2. lotu. Hann var þar með fyrsti maðurinn til að klára Melendez en öll töp Melendez fram að þessu voru eftir dómaraákvarðanir. Pettis segist vera tilbúin að verja beltið sitt fljótlega og verður áhugavert að sjá hver næsti andstæðingur hans verði. Líklegt þykir að það verði Khabib Nurmagomedov en hann var til að mynda á blaðamannafundinum eftir bardagann og óskaði eftir titilbardaga.

Melendez kom inn með góða leikáætlun en Pettis er einfaldlega betri bardagamaður. Melendez gæti hugsanlega verið búinn að toppa núna og það er ólíklegt að hann fái annan titilbardaga á næstunni. Hann er með aðeins einn sigur í þremur bardögum (gegn Diego Sanchez) og þyrfti nokkra sannfærandi sigra til að komast aftur í titilbardaga eftir að hafa í tvígang tapað titilbardaga. Melendez er vissulega bara 32 ára en hafa verður í huga að hann hefur farið í mörg fimm lotu stríð á ferlinum og það tekur sinn toll á skrokkinn.

Bardagakvöldið var virkilega skemmtilegt og sáum við einnig flott tilþrif frá minni spámönnum. Sergio Pettis, yngri bróðir Anthony Pettis, sigraði Matt Hobar í besta bardaga kvöldsins. Hér að neðan má sjá andlit Hobar eftir bardagann.

Todd Duffee snéri aftur til keppni eftir tveggja ára hlé vegna veikinda og meiðsla. Duffee hefur glímt við Parkinson-Turner heilkennið (taugaröskun) en snéri aftur með glæsibrag og rotaði Anthony Hamilton eftir aðeins 33 sekúndur.

Umdeildasta atvik kvöldsins (á eftir dómaraákvörðuninni í bardaga Hendricks og Lawler) var í bardaga Urijah Faber og Francisco Rivera. Faber potaði óvart í auga Rivera og í kjölfarið náði hann baki Rivera og hengdi hann. Rivera mun líklegast áfrýja niðurstöðu bardagans og verður áhugavert að sjá hvað kemur úr því.

Þetta var frábært bardagakvöld en næsta UFC kvöld er á föstudaginn þegar úrslitabardaginn í 20. seríu The Ultimate Fighter fer fram.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular