Thursday, April 25, 2024
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC 187

Mánudagshugleiðingar eftir UFC 187

dc ajUFC 187 fór fram á laugardaginn og er óhætt að segja að bardagakvöldið hafi verið frábær skemmtun. Chris Weidman varði beltið sitt og Daniel Cormier er nýr léttþungavigtarmeistari UFC.

Það var mikil spenna fyrir kvöldið og er óhætt að segja að bardagarnir hafi staðið undir öllum væntingum. Daniel Cormier tókst að gera það sem honum tókst aldrei á glímuferlinum, að sigra stóran titil. Eftir að hafa verið vankaður illa snemma í bardaganum náði hann að snúa taflinu við og sigraði eftir uppgjafartak í 3. lotu. Hann braut Johnson eins og hann sagðist ætla að gera.

Það verður þó að segjast eins og er að margir líta ekki á þetta sem alvöru titil fyrr en hann sigrar Jon Jones (ef við gerum ráð fyrir að hann komi til baka). Viðtalið eftir bardagann var líka kostulegt þar sem hann bað Jones um að ná sér á strik aftur svo þeir gætu barist.

Ef Jones verður lengur frá er Ryan Bader eiginlega sá eini sem kemur til greina sem næsti áskorandi. Alexander Gustafsson tapaði sínum síðasta bardaga, Rashad Evans er enn meiddur og því er Ryan Bader sá næsti í röðinni. Þeir lentu í skemmtilegum orðaskiptum á blaðamannafundinum.

Weidman sigraði Vitor Belfort örugglega með tæknilegu rothöggi í fyrstu lotu. Núna hefur hann sigrað þrjá fyrrum meistara í röð, allt Brasilíumenn, og það eina sem heldur aftur af honum eru meiðslin. Aðdáendur vilja sjá hann berjast oftar en því miður hafa meiðsli gert honum erfitt fyrir. Vonandi eru þau á bak og burt núna og UFC getur gefið okkur Weidman gegn Luke Rockhold í haust.

Það er óhætt að segja að þetta hafi verið slæmt kvöld fyrir Blackzilians. Þeir hefðu getað tekið tvo titla en fóru þess í stað tómhentir heim.

Donald Cerrone kjálkabraut John Madkessi og fær loksins titilbardaga í UFC. Hann hefur sigrað átta bardaga í röð eða síðan hann tapaði fyrir núverandi meistara, Rafael dos Anjos. Þeir munu nú mætast aftur síðar á árinu.

madkessi

Madkessi hætti með undarlegum hætti. Hann fann kjálkann brotna eftir háspark Cerrone og gaf dómaranum merki að hann vildi stoppa. Þetta var þó skynsamlega gert af Madkessi þar sem hann var að tapa bardaganum nokkuð örugglega og hefði hann bara hlotið meiri skaða ef hann hefði haldið áfram.

Besti bardagi kvöldsins, og ársins það sem af er ári, var bardagi Andrei Arlovski og Travis Browne. Árið 2011 tapaði Arlovski fjórum bardögum í röð (þar af þremur eftir slæm rothögg) og voru flestir á því að hann væri búinn. Árið 2015 er hann nálægt titilbardaga í UFC. Ótrúlegur viðsnúningur hjá Arlovski og ekta öskubuskusaga. Bardagi gegn Stipe Miocic gæti verið á döfinni og er nær öruggt að sá sigurvegari muni fá næsta titilbardaga.

Það var þó fallegt að sjá vinina tvo fallast í faðma eftir bardagann. Kapparnir æfðu saman hjá Greg Jackson um tíma og Arlovski bjó í húsi Browne er hann samþykkti bardagann. Arlovski fannst þó leitt að hafa rotað vin sinn.

Eftir bardagann kom í ljós að Arlovski var næstum hættur við að berjast. Arlovski meiddist á kálfa aðeins nokkrum dögum fyrir bardagann og voru efasemdir um hvort hann gæti barist á laugardaginn. Arlovski harkaði þó af sér og við fengum að sjá besta bardaga ársins hingað til.

Næsta UFC bardagakvöld fer fram næstu helgi. Þá mætast Carlos Condit og Thiago Alves á UFC Fight Night.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

1 COMMENT

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular