Sannarlega frábærir bardagar fóru fram á laugardagskvöldið í O2 Arena í Dublin. Gunnar Nelson sigraði Zak Cummings eftir hengingu í 2. lotu og Conor McGregor sigraði Diego Brandao eftir tæknilegt rothögg í fyrstu lotu.
Það má í raun segja að sigurvegari kvöldsins hafi verið John Kavanagh. Allir fjórir bardagamenn hans kláruðu bardaga sína og var bardagakvöldið fjöður í hattinn hjá guðföður MMA í Írlandi. Kavanagh er einn virtasti MMA þjálfarinn í Evrópu um þessar mundir og mun ekki líða á löngu þar til talað verður um hann í sömu andrá og Matt Hume, Duke Roufus og fleiri virtir þjálfarar.
Okkar maður Gunnar Nelson sigraði sinn fjórða bardaga í UFC og hefur nú sigrað 13 bardaga í röð! Það er sennilega hægt að telja á fingrum annarrar handar þá bardagamenn í veltivigtinni sem eru á svona langri sigurgöngu. Bardaginn byrjaði fremur rólega en eftir að Gunnar virtist vera búinn að finna taktinn tók hann yfir bardagann og kláraði fljótlega eftir það. Óvíst er hvenær Gunnar snúi aftur í búrið og gæti sennilega náð einum bardaga í viðbót á þessu ári kjósi hann það. Með hverjum sigrinum verða bardagarnir erfiðari og erfiðari og verður afar forvitnilegt að sjá hvern Gunnar fær næst.
Conor McGregor stóð fyllilega undir öllu talinu og kláraði Diego Brandao með tæknilegu rothöggi í fyrstu lotu. McGregor fékk svo sannarlega konunglegar móttökur í salnum og ærðust áhorfendur af fögnuðu þegar McGregor kláraði Brando. Samkvæmt hávaðamæli sem UFC notaði þetta kvöld var mesti hávaðinn 111 desíbel. Írsku áhorfendurnir voru stórkostlegir allt kvöldið og kórónuðu eigin frammistöðu þegar McGregor kláraði bardagann. Líklegast mun McGregor berjast við Dustin Poirier næst og er talað um að bardaginn muna eiga sér stað á UFC 178 í september. Sá bardagi á eftir að verða algjört augnakonfekt fyrir alla bardagaaðdáendur hvenær sem sá bardagi verður.
Paddy Holohan sigraði Josh Sampo eftir hengingu í 1. lotu eftir að hafa kýlt Sampo niður með upphöggi. Holohan fór svo á kostum á blaðamannafundinum eftir á og gæti orðið afar vinsæll bardagamaður ef hann heldur sigurgöngu sinni áfram. Liðsfélagi hans Cathal Pendred átti svo besta bardaga kvöldsins þegar hann svæði Mike King í 2. lotu í mögnuðum bardaga. Pendred var nánast rotaður í 1. lotu og var Mike King meira að segja með gott tak á hálsinum hans en Pendred neitaði að gefast upp. Báðir litu út fyrir að vera þreyttir í lok 1. lotu. Í 2. lotu náði Pendred að svæfa Mike King og varð allt gjörsamlega tryllt í höllinni. Pendred stimplaði sig vel inn í UFC með þessum sigri og fékk 6,5 milljónir íslenskra króna í bónus.
Frábært kvöld fyrir írska MMA aðdáendur og nokkuð ljós að UFC þarf að koma oftar til Írlands!