Monday, April 22, 2024
HomeForsíðaMánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night: Manuwa vs. Anderson

Mánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night: Manuwa vs. Anderson

Gunnar Nelson fagnar
Mynd: Sóllilja Baltasardóttir.

Gunnar Nelson sigraði Alan Jouban UFC bardagakvöldinu á laugardaginn. Frammistaða Gunnars var frábær í bardaganum en hér förum við yfir það helsta frá helginni í Mánudagshugleiðingunum.

Gunnar hafði ekki látið sjá sig í búrinu í tíu mánuði og þurfti að minna á sig í London. Það gerði hann svo sannarlega með því að vanka Alan Jouban standandi og klára hann svo í gólfinu. Gunnar át nokkur lágspörk í lærin (nokkuð sem var búist við) en var að öllu öðru leyti ekki í neinum vandræðum í bardaganum. Þetta var akkúrat frammistaðan sem Gunnar þurfti til að minna á sig.

Jouban er hörku bardagamaður en er ekki eins hátt skrifaður og Gunnar. Gunnar sýndi það að hann er einfaldlega betri bardagamaður en Jouban og var þetta tilkomumikill sigur. Hefði Gunnar bara sigrað eftir dómaraákvörðun væri umræðan um Gunnar í dag ekki sú sama.

Gunnar gerði ekki mikið standandi í 1. lotu, náði honum niður í 2. tilraun og stjórnaði Jouban algjörlega í gólfinu án þess að gera mikinn skaða. Jouban hefur yfirleitt staðið sig betur í 2. og 3. lotu og velti maður því fyrir sér hvort að Jouban myndi hrökkva í gang eftir 1. lotuna. Sem betur fer náði Gunnar þessari fallegu beinu hægri snemma í 2. lotu sem felldi Jouban og þegar í gólfið var komið var þetta búið.

Mynd: Sóllilja Baltasardóttir.

Núna þarf Gunnar að fá einhvern sem er fyrir ofan hann á styrkleikalistanum. Stephen ‘Wonderboy’ Thompson hefur verið nefndur til sögunnar af þjálfara Gunnars, John Kavanagh. Það væri frábært nafn en kannski vill Thompson taka sér lengri pásu eftir Woodley tapið og við viljum sjá Gunnar aftur sem fyrst. Dong Hyun Kim og Neil Magny eru einnig líklegir og kannski ekki eins stórt stökk upp á við og Thompson.

Aðalbardagi í Skotlandi í júlí gæti verið næst fyrir Gunnar en helst viljum við sjá hann í júní/júlí. UFC er með bardagakvöld í Stokkhólmi í maí og er ólíklegt að Gunnar endi þar. Næsti bardagi Gunnars mun verða gegn nafni og er ólíklegt að UFC setji þann bardaga í Svíþjóð sem næstsíðasti bardaga kvöldsins (e. co-main event).

Gunnar er gríðarlega vinsæll í Evrópu og mun UFC mögulega nýta sér það í Skotlandi. Joanne Calderwood er stærsta skoska nafnið í UFC en hún er kannski ekki alveg nógu stór til að bera heilt bardagakvöld. Gunnar gæti líka alveg eins endað á „Pay per view“ bardagakvöldi í Bandaríkjunum eftir tvo bardaga í röð í Evrópu. Það skiptir þó ekki öllu hvar hann berst heldur gegn hverjum og helst sem fyrst!

Jimi Manuwa átti líkt og Gunnar mjög góða frammistöðu. Manuwa rotaði Corey Anderson með vinstri krók í 1. lotu. Hann heldur áfram að sýna hversu svakalegur rotari hann er og var þetta 15. sigur hans með rothöggi á ferlinum. Það er magnaður árangur í 17 sigrum hjá Manuwa.

Manuwa er 37 ára gamall og eru ekki margir augljósir möguleikar fyrir hann núna. Hann er í 4. sæti á styrkleikalista UFC í léttþungavigtinni og eru þeir Glover Teixeira, Alexander Gustafsson, Anthony Johnson og auðvitað meistarinn Daniel Cormier fyrir ofan hann á styrkleikalistanum. Manuwa hefur tapað  fyrir Johnson og Gustafsson í UFC en hann og Gustafsson æfa saman í dag.

Mauricio ‘Shogun’ Rua hefur verið nefndur til sögunnar enda allt í einu unnið þrjá bardaga í röð. Það væri satt best að segja afar einhliða bardagi Manuwa í vil. Shogun hefur litið vel út að undanförnu en Manuwa er allt annar pakki en síðustu andstæðingar Shogun. Annar líklegur kostur væri Glover Teixeira (ef hann vinnur Gustafsson) nema Manuwa fái bara titilbardaga.

Það er því miður maður að nafni Jon Jones sem er nær titilbardaganum en Manuwa. Banni Jon Jones lýkur í júlí og verður UFC örugglega ekki lengi að bóka hann í titilbardaga gegn sigurvegaranum úr viðureign Johnson og Cormier.

Mynd: Sóllilja Baltasardóttir.

Marc Diakiese var líka einn af þeim sem átti stóran sigur um helgina. Hann hreinlega valtaði yfir Teemu Packalén og rotaði hann eftir 30 sekúndur í 1. lotu. Hann er núna 3-0 í UFC, með tvö rothögg og er með margt til að fara ansi langt. Hann er karakter og er að klára bardagana sína. Hann æfir núna hjá American Top Team sem er frábær staður fyrir hann og ef hann heldur áfram á sömu braut verður hann stórt nafn.

Diakiese er búinn að vera duglegur að keppa og var þetta þriðji bardaginn hans í UFC á síðustu fimm mánuðum. Diakiese óskaði eftir bardaga í Stokkhólmi í maí verður gaman að fylgjast með honum í náinni framtíð.

Að lokum má ekki gleyma grátlegum endi Brad Pickett. Pickett var á góðri leið með að vinna kveðjubardaga sinn á heimavelli í London gegn Marlon Vera. Eitt háspark breytti öllu og var þetta endirinn sem enginn vildi sjá. Lýkur hann ferlinum með 25 sigra og 14 töp en hann tapaði sex af síðustu sjö bardögum sínum.

Á heildina litið var þetta fínasta bardagakvöld og auðvitað góð helgi fyrir okkar mann. Gunnar getur núna slakað á í faðmi fjölskyldunnar aðeins en ekki mun líða á löngu þar til hann snýr aftur til æfinga.

Næsta UFC fer fram þann 8. apríl þegar UFC 210 fer fram. Þar mætast þeir Daniel Cormier og Anthony Johnson í aðalbardaga kvöldsins.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular